Brasilíska fitnessmódelið Suelen Bissolati vildi endilega láta Ólaf Laufdal húðflúra sig og gerði stutt stopp á Íslandi sérstaklega til þess. Þremur dögum síðar hélt hún alsæl af landi brott með goðsögulega ermi sem hún hefur dásamað mjög við tæplega 260.000 fylgjendur sína á Instagram þannig að húðflúrarinn er að vonum alsæll með auglýsinguna.
Ólafur segir Suelen eiginlega vera á stöðugu heimshornaflakki en ferðir sínar rekur hún í myndum og stuttu máli á Instagram. „Ég prófaði einhvern tímann að senda henni skilaboð og hún var endilega til í að koma í tattú og vildi bara taka þetta alla leið og fá heila ermi.
Þannig að við gengum í þetta stóra verkefni og vorum að vinna hérna í þessu þrjá daga í röð og það gekk vel. Hún var mjög almennileg og fór héðan rosalega ánægð,“ segir Ólafur sem er ekki síður kátur þar sem Suelen hefur ausið flúrarann og vinnu hans lofi fyrir framan 259.000 fylgjendur sína á Instagram.
Medúsa og Seifur
„Hún er með rosalega áberandi útlit og það er náttúrulega mjög skemmtilegt fyrir mig að svona manneskja skuli gera sér ferð til Íslands til að koma í tattú til mín. Hún kom bara hingað til þess að fá flúr og fór aftur strax daginn eftir.
Andlit þeirra Medúsu og Seifs eru áberandi á erminni sem Ólafur segir að sé öll innblásin af grískri goðfræði. „Hún eiginlega bað mig bara um að hanna eitthvað flott fyrir sig. Hún kom með einhverjar lauslegar hugmyndir og ég hannaði þá bara ermina fyrir hana og var búinn að gera það nokkrum dögum áður en hún kom.“
Alveg himinlifandi
Héðan flaug Suelen, með glænýja og glæsilega ermi, til Berlínar í Þýskalandi en gaf sér að sjálfsögðu tíma til þess að birta mynd af afrakstrinum á samfélagsmiðlunum og notaði tækifærið til að ausa flúrarann lofi.
„Orð fá ekki lýst því hversu himinlifandi ég er með vinnu þína og fagmennsku,“ skrifaði Suelen á Instagram. „Útkoman fór fram úr væntingum mínum og ég fæ þér seint fullþakkað.“
„Pælingin var bara að maður getur grætt á því þegar maður er að flúra fólk með mikið af fylgjendum. Þau sýna þetta á sínum miðlum og það er góð auglýsing,“ segir Ólafur þegar hann er spurður hvað í ósköpunum varð til þess að hann setti sig í samband við Suelen.
Alger blekgullnáma
Árangurinn hefur heldur ekki látið á sér standa og Ólafur segir slatta af brasilískum fylgjendum strax hafa bæst við á Instagrami hans. „Það er algert gull að fá að vinna með svona fólki. Það auglýsir þig eiginlega bara frítt,“ segir hann og hlær enda pantanirnar strax farnar að skila sér.
„Það eru allavegana strax einhverjar módelvinkonur hennar búnar að biðja um að fá að koma í tattú til mín. Ein býr í Bandaríkjunum og var að tala um að flytja mig bara út. Þannig að það eru alls konar einhverjar svona pælingar að spretta upp úr þessu.“