Bókin er samstarfsverkefni sex vinsælla matarbloggara sem leggja til vinsælustu uppskriftirnar sínar. Hver og einn bloggari er með sitt sérsvið og bókin inniheldur því afar fjölbreyttar uppskriftir frá þessum frábæru konum. Allt frá gómsætum eftirréttum og kökum til klassískra rétta, heilsurétta og einfaldra hversdagsrétta. Bókin inniheldur 120 uppskriftir og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum er samstarfsverkefni sex matarbloggara og stútfull af girnilegum uppskriftum á mannamáli.

Hildur Rut Ingimarsdóttir er ekki bara ein af bloggurunum heldur sá hún jafnframt um hönnun og umbrot bókarinnar. Hildur opnaði nýverið síðuna www.hildurrut.is sem er samansafn uppskrifta frá henni en hún hefur ríka ástríðu fyrir matargerð og elskar að búa til sínar eigin uppskriftir frá grunni. Fyrir Hildi snýst matargerð ekki bara um sjálfan matinn heldur líka um umhverfið, upplifunina og félagsskapinn.

Gaf út matreiðslubók

Hildur gaf út bókina Avocado fyrir jólin 2016 og gerði hana alfarið sjálf frá A-Ö og gaf hana sjálf út. Bókin sló í gegn og fór inn á metsölulista en í henni er að finna góðar og auðveldar uppskriftir sem allar eiga það sameiginlegt að innihalda avókadó í einhverri mynd. Í bígerð er svo að gefa út aðra matreiðslubók í anda Avocado bókarinnar þar sem hún einbeitir sér að öðru spennandi hráefni. Hildur er með 20 uppskriftir í bókinni Vinsælustu uppskriftirnar og langar að deila með lesendum einni af sínum uppáhalds.

Hildur opnaði nýverið síðuna www.hildurrut.is sem er samansafn uppskrifta frá henni en hún hefur ríka ástríðu fyrir matargerð og elskar að búa til sínar eigin uppskriftir frá grunni.

Girnilegar fiskitacos með limesósu

Fiskur í mjúkum tortillum hefur verið vinsæll réttur á ströndum Mexíkó í margar aldir en hann er líka í uppáhaldi hjá mörgum í dag og í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi uppskrift er einföld og mjög bragðgóð en þið getið notað hvaða fisk eða skelfisk sem er. Það er mjög gott að nota t.d. bleikju, löngu eða risarækjur. Ég mæli með að þið prófið ykkur áfram.

fyrir 3-4

500 g þorskur eða annar fiskur
1 egg
1 dl spelt hveiti
Taco explosion krydd
Salt og pipar
1-2 msk smjör
Litlar tortillur
Hreinn rjómaostur
¼ - ½ haus hvítkál
¼ - ½ haus ferskt rauðkál
2 tómatar
2-3 msk rauðlaukur
2 msk kóríander
2 avókadó

Limesósa


1 dl majónes
1 dl sýrður rjómi
Safi frá 1-2 lime
½ tsk rifinn limebörkur
salt og pipar
- allt hrært saman

Hildur notaði þorsk í sína uppskrift en það má nota hvaða fisk sem er. Mynd/Hildur Rut

Skerið tómatana (hreinsið fræin úr), rauðlauk og avocado í litla bita og hrærið saman við saxað kóríander.

Skerið hvítkál og rauðkál í ræmur, hrærið saman og setjið í skál

Pískið egg í skál. Hrærið saman speltinu og kryddinu á disk. Skerið þorskinn í bita og veltið þeim upp úr egginu og síðan spelt-krydd blöndunni.

Steikið fiskinn á pönnu upp úr smjöri.

Hitið tortillurnar í ofni, smyrjið rjómaosti á þær, dreifið kálinu, tómatsalsanu og fiskinum yfir þær. Toppið svo tacoið með limesósunni og kóríander.

Fyrir þá sem vilja hafa þetta örlítið sterkara þá er gott að bera þetta fram með tabasco sósu.