Hjónin Mjöll Daníelsdóttir og Guðmundur Viðarsson eru með veitingarekstur hjá einum stærsta golfklúbbi landsins sem er með tvö klúbbhús og eru með puttann á púlsinum.

„Við tókum og endurskoðuðum vörumerki Kaffivagnsins með okkar sýn að leiðarljósi, við það margfaldaðist rekstur hans. Auk þess sáum við um rekstur nokkurra veiðihúsa í 21 ár, við Norðurá, Langá, Hítará og Laxá í Dölum, sem er mjög sambærilegur og veitingarekstur golfskála. Rekstur veiðihúsa snýst að meginefni um rekstur veitingastaðar, umsjón með gistirýmum, almenna þjónustu við viðskiptavini, þrif og önnur þjónustustörf. Eins og gefur að skilja hefur veitingarekstur og þjónusta verið hluti af okkur og fjölskyldunni nánast alla tíð. Foreldrar mínir voru í framreiðslu og ég ólst upp við þjónustu og veitingar enda var alltaf veisla á okkar heimili,“ segir Mjöll og nýtur sín til fulls í starfinu.

Reka klúbbhúsin hjá Golfklúbbi Reykjavíkur

Hvað var það sem laðaði ykkur að því að vera með veitingarekstur hjá golfklúbbnum GR?

„Við seldum Kaffivagninn 2017 og eftir það tók við tímabil þar sem við ferðuðumst mikið og áttum góðan tíma með fjölskyldunni eftir annasöm ár. Stangveiði hefur verið ástríða hjá okkur hjónunum til margra ára en fyrir nokkrum árum byrjuðum við í golfi og fengum bæði bakteríuna. Nú rekum við bæði klúbbhúsin hjá Golfklúbbi Reykjavíkur á Korpúlfsstöðum og í Grafarholti. Við erum svo heppin að hafa dóttur okkar, Karenu, með okkur í rekstrinum, það er í mörg horn að líta og hún sér alfarið um allt sem tengist samfélagsmiðlum.“

Fiskitaco er vinsæll réttur eftir golfið.

Á bólakafi í golfinu

Hvernig er að vera með veitingarekstur fyrir golfarana?

„Það er ótrúlega gefandi að vera með veitingarekstur tengdan golfi, fólk er að koma til að skemmta sér, hitta vini og eiga góða stund á vellinum. Ekki er síður skemmtilegt að setjast niður eftir hring, fara yfir skorið, hlæja og gera grín og fá sér eitthvað gott að borða og drekka.

Við erum bæði dottin á bólakaf í golfið og finnst það alveg frábært. Við byrjuðum bæði á því að fara til Costa Ballena á Spáni í golfskóla sem var frábært. Þar lærðum við allt sem sem viðkemur golfinu og vorum útskrifuð sem kylfingar. Skólinn er rekinn af Ragnhildi Sigurðardóttur og eiginmanni hennar, Jóni Andra Finnssyni, en með þeim eru frábærir kennarar. Síðan skráðum við okkur í Golfklúbb Reykjavíkur, GR.

Golf hefur verið vaxandi íþrótt undanfarið ár þar sem metfjöldi kylfinga er í klúbbum í dag. Einnig hefur verið mikil fjölgun í hópi barna og unglinga og eru golfklúbbar að vinna frábært starf á þeim vettvangi. Jafnframt er mikil aukning meðal kvenna í golfi og ég finn það í klúbbhúsinu þar sem mikil aukning er í kvennahópum. Ég er sjálf í tveimur kvennahópum, Madonnum og Evítum, en þar sem sumarið er mjög annasamt hjá mér þá er ég eiginlega gestaspilari í öðrum hópnum.“

Sérstaða Guðmundar fiskréttir

Mjöll og Guðmundur leggja mikið upp úr því að vera með fjölbreyttan matseðil þar sem gæðin eru í fyrirrúmi. „Við leggjum áherslu á fjölbreyttan matseðli þar sem ferskt hráefni fær að njóta sín í okkar uppáhaldsréttum. Við viljum ekki bara bjóða upp á hamborgara heldur gera rétti sem hæfa öllum og einnig sem hægt er að deila. Við leggjum sérstaka áherslu á fiskrétti sem hefur verið sérstaða Guðmundar.“

Hvað bjóðið þið upp á?

„Við bjóðum upp á fjölbreytt úrval léttra rétta, fiskrétta og grillseðil en einnig erum við með súrdeigspitsur. Réttur dagsins er alltaf fiskréttur og grænmetisréttur. Við bjóðum einnig upp á kökur sem við bökum sjálf, móðir Gumma kemur til okkar og bakar fyrir okkur alla botna, hún er 82 ára, alveg einstök.“

Hvernig lítur draumagolfklúbburinn ykkar hjónanna út?

„Draumagolfklúbburinn væri með geggjuðum golfvelli, hóteli, heilsulind og guðdómlega góðum veitingastað.“

Fiskipannan steinliggur

„Fiskipannan er okkar allra vinsælasti réttur, hún er sérstaða Guðmundar og fólk kemur aftur og aftur til að fá sér þennan rétt. Nýlega bættum við fiskibollum á seðilinn eftir þrýsting frá gestum og hafa þær slegið í gegn. Sömuleiðis er nauta-piparsteikin okkar gríðarlega vinsæl. Loks er það fiskitacoið sem lokkar matargestina og hér kemur uppskrift.“

Fiskitaco að hætti Guðmundar

3 litlar tortillakökur (ca. 6 tommur)

1 stykki af þorskhnakka

Heimatilbúið hrásalat eftir smekk

Pikklaður rauðlaukur eftir smekk

Sýrður rjómi eftir smekk

Kóríander eftir smekk

Sriracha Hot chili sauce eftir smekk

Hrásalat

Hvítkál, gulrætur, majones og salatdressing, skorið smátt og öllu velt saman.

Þorskur skorinn í þrjá ca. 50 gramma bita. Bæði hægt að djúpsteikja (þá velt upp úr tempura deigi) eða steikja á pönnu. Tortillakökurnar grillaðar eða hitaðar á pönnu.

Sósa og salat sett á tortillu og fiskur ofan á, rauðlaukur, sýrður rjómi og kóríander sett ofan á fiskinn. Gott er að bera fiskitacoið fram með fersku gvakamóle, salsasósu og nachos-flögum.

Það er líka hægt að fá sér súrdeigspitsu á vellinum.