Hugtakið strandbúnaður er í ætt við hugtakið landbúnaður.

„Ráðstefnan Strandbúnaður er nú haldin í þriðja sinn til að efla umræður og umfjöllun um strandeldi sem skiptist í þrjár höfuðgreinar: fiskeldi, skelfiskrækt og þörungaeldi,“ segir Þorleifur Eiríksson, formaður stjórnar félagsins Strandbúnaðar sem stuðlar að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og stendur fyrir ráðstefnunni Strandbúnaður.

Þorleifur er dýrafræðingur og framkvæmdastjóri Rorum sem sérhæfir sig í rannsóknum og ráðgjöf í umhverfismálum. Á ráðstefnunni Strandbúnaður 2019 flytur hann erindið „Niðurbrot lífræns efnis undir sjókvíum. Aukinn skilningur á hvíldartíma.“.

„Fiskeldi getur farið fram í sjó og á landi en nú er mest rætt um fiskeldi í sjókvíum. Bleikjueldi er eingöngu á landi og seiðaeldi fer alltaf fram á landi,“ segir Þorleifur og margt ber á góma ræðumanna í málstofum ráðstefnunnar um fiskeldi.

„Fjallað verður um framfarir í fiskeldi, fóðrun og sjúkdómavarnir, innviðauppbyggingu og flesta hluti sem tengjast fiskeldi. Einnig meginstrauma, markaðssetningu, tækifæri til vaxtar og fiskeldi í hlutfalli útflutningstekna en nú er fiskeldi aðallega á Vestfjörðum og Austfjörðum. Mikilvægi fiskeldis eykst svo þegar fiskstofn hrynur eins og gerst hefur með loðnuna sem nú er horfin. Þá verður sérstaklega farið í þróun fóðurs og rætt um kolefnissporið sem er mjög lítið,“ upplýsir Þorleifur.

Á ráðstefnunni verður sérstaklega rætt hvernig fiskeldi er að breytast.

„Við tölum um vinnslu, sölu og meðferð hráefnis, tækniþróun í sjókvíaeldi og vandamál eins og laxalús, en rannsóknir eru nú að hefjast sem meta eiga áhrif laxeldis og laxalúsar á villtan lax. Þá verður fjallað um sjálfbærni í fiskeldi en það kemur sífellt betur í ljós að fiskeldi er sjálfbær iðnaður.“

Þörungar vinsælir til átu

„Þörungaeldi er alltaf að aukast. Síeldi á smáþörungum gengur mjög vel en þeir eru notaðir í lyfjaiðnað og fæðubótarefni. Nú er líka hugað að eldi á stærri þörungum en þeir eru vinsælir til manneldis og matreiðslu á veitingastöðum,“ upplýsir Þorleifur um spennandi málstofur um þörungaeldi, þar á meðal eina frá nýjum ræktanda á Mývatni en hingað til hefur þörungaeldi aðallega farið fram á Suðurnesjum.

„Í dag er líka byrjað að rækta stórþörunga innanhúss. Það má búast við að eftirspurn eftir þeim aukist vegna þess að sjávarfang verður æ meira í tísku, menn eru að færa sig meira yfir í grænmeti og horfa þá til þörunga sem eru bráðhollir og bragðgóðir.“

Skelfiskur sem ber af

Skelfiskrækt er sú grein strandbúnaðar sem hefur átt hvað erfiðast uppdráttar. Í skelfiskrækt verður aðallega fjallað um kræklingaeldi sem er nú í mikilli lægð.

„Farið verður yfir tækifæri og áskoranir í skelfiskeldi, en það hefur öll tækifæri til að margfaldast. Erfiðleikar felast meðal annars í hversu dýrt skelfiskeldið er, en annað vandamál eru eitranir sem ekki er enn búið að ná tökum á og sala á ferskmarkaði því ekki er hægt að flytja skelfiskinn ferskan út án þess að setja hann fyrst í sóttkví og við það minnkar virðið. Einnig er vandi við lirfuveiðar en þótt yfirleitt sé til nóg af lirfum þyrfti að tryggja þær í stórum stíl með því að rækta þær,“ upplýsir Þorleifur.

Hann segir íslenskan krækling þykja ómótstæðilegt lostæti á heimsvísu.

„Við verðum með málstofu um eldi á sæeyrum í lóðréttum eldiskerjum sem taka minna flatarmál og íslenskan krækling sem afburðahráefni til matvinnslu. Holdfylling hans er mikil í ferskum sæ og með ferskri fæðu og þegar skelin er opnuð blasir við djúsí sælkerabiti. Því eru mikil tækifæri í kræklingaræktun sem ekki hafa verið nýtt,“ segir Þorleifur.

„Grundvallaratriði ráðstefnunnar er að fara yfir tækifæri í strandbúnaði, skoða hvað er hægt að gera, hvað er gott að við gerðum og hvort eitthvað sé tapað mál. Það sýnir mikilvægi ráðstefnunnar þar sem framleiðendur, kaupendur, þjónustufyrirtæki og rannsóknaraðilar hittast og fara yfir það vítt og breitt hvernig stunda á strandbúnað með tilliti til tækni og aðstöðu, og vonir til að lausnir gefist sem eru ásættanlegar, vistvænar og sjálfbærar,“ segir Þorleifur.

„Strandeldi er sérlega umhverfisvænt og með minnsta kolefnisspor af öllu dýraeldi í heiminum. Því er sorglegt hvað umræða um strandeldi hefur einkennst af neikvæðum þáttum þess, eins og erfðamengun og umhverfismengun, því ef allt væri tekið saman kæmi í ljós hversu vistvænt strandeldi er þótt vissulega þurfi að taka tillit til ákveðinna atriða.“

Tekist á við lífrænan úrgang

Í fiskeldi er mestmegnis einblínt á þrjú atriði: erfðamengun, laxalús og úrgang sem hleðst upp undir sjókvíum.

„Fiskar skíta eins og aðrar lífverur en þegar horft er á fjóshaug í landbúnaði er vitað að hann verður notaður í áburð og ekki látinn hlaðast upp. Það sama á við í strandbúnaði; við vitum að úrgangur af fiskeldi er gríðarlegur og að hann hleðst upp á meðan fiskeldi fer fram í kvíum en ekki án inngrips og úrlausna,“ upplýsir Þorleifur sem hjá Rorum vinnur að rannsókn á hvíldartíma botnsins undir fiskeldi í samvinnu við Háskóla Íslands, belgíska og hollenska háskóla, og rannsóknarstofnun í Noregi.

„Áður héldu menn að hafsbotninn tæki við öllum úrgangi sem svo brotnaði upp jafnóðum en magnið sem frá eldisfiskunum kemur er svo mikið að áhrifa gætir fljótt og upp hlaðast lífræn efni sem hafa áhrif á dýraríkið undir sjókvíum. Í fyrstu græða sumar tegundir mikið og fjölgar gríðarlega en það eru vísitegundir sem gefa okkur til kynna að það er mengun frá fiskeldinu. Smám saman hlaðast þær upp og þá skapast hætta á því sem ekki má gerast, að of mikið brennisteinsvetni myndist og geti valdið hættu,“ útskýrir Þorleifur um brennisteinsvetni sem er baneitruð lofttegund með tilheyrandi ódaun.

„Þegar súrefni þrýtur hægist á niðurbrotinu og að lokum deyr allt á botninum. Til að koma í veg fyrir þessa hættu er uppsöfnun lífræns kolefnis og áhrif þess á lífríki sjávar í námunda við sjókvíarnar vaktað, en þegar slátrun er búin fær svæðið hvíld. Í hvíldinni gefst dýrum og bakteríum á botninum tími til að nærast á lífrænum leifunum sem svo dreifast um sjóinn og færa aftur heim tegundir sem voru farnar en héldu sig í nágrenninu. Svæðið nær því smám saman ásættanlegum fjölbreytileika og þá er hægt að hefja fiskeldi á ný,“ útskýrir Þorleifur.

„Af þessu má sjá að strandbúnaður hefur áhrif en áhrifunum er haldið innan marka og þegar fiskeldinu er hætt mun svæðið jafna sig og verða aftur náttúrulegt svo erfitt er að sjá að þar hafi verið eldi. Fiskeldi er því afturkræft og við höfum séð að þetta er mögulegt með tilraunum okkar fyrir austan og vestan, þar sem fjölbreytni dýralífs varð jafn ríkuleg og áður.“

Hvíldartími mikilvægur

Í fiskeldi er talað um kynslóðaskipti og tekur hver kynslóð tvö ár. Þá eru seiði sett í eldið að vori og slátrað að hausti árið eftir.

„Í dag eru sett stærri og stærri seiði út í eldið til að flýta ferlinu og minnka hættu á stroki, eða sleppifiskum. Allt er það hluti af vörnum við erfðamengun því það eru eingöngu kynþroska fiskar sem ætla sér að hrygna sem ganga upp í árnar,“ útskýrir Þorleifur sem vinnur nú að annarri lotu í rannsókn Rorum og samstarfsaðila.

„Við rannsóknirnar notum við sérstakt kjarnatæki til að bora ofan í leðju lífræns úrgangsins, tökum sýni og skoðum hvar dýrin eru stödd í leðjunni og hvernig þau haga sér eftir því hvort fiskeldið er mikið eða lítið. Þá kemur í ljós að þetta er fyrst og fremst í yfirborðinu en þegar skítur hleðst upp og verður of þykkur lengist hvíldartíminn sem er nauðsynlegur til að svæðið nái sér að fullu,“ segir Þorleifur.

Umhverfisstofnun sér um strangt eftirlit og vöktun með lífrænum úrgangi fiskeldis.

„Við teljum að hægt sé að gera fiskeldi skilvirkara og mæla hvíldartímann nákvæmar því niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að stundum er hægt að stytta hann. Hvíldartími uppsafnaðra lífrænna efna fer þó eftir magni eldisins og hve lengi það stendur yfir og þar er enginn einn tími réttur þótt fastatala til viðmiðunar sé eitt ár.“

Sjá nánar um dagskrá ráðstefnunnar á strandbunadur.is