Brynhildur Helga Róbertsdóttir, níu ára, er að lita þegar hún er tekin tali. Hún segir það skemmtilegt, en samt ekki það skemmtilegasta.

Hvað er þá mest gaman að gera? Mest finnst mér gaman að vera í fótbolta.

Nú, ertu fótboltastelpa? Næsta haust ætla ég að fara að æfa fótbolta fyrir alvöru, núna er ég mest að leika mér á skólavellinum við Kársnesskóla.

Með hvaða félagi ætlarðu að æfa? Ég held að ég byrji með Breiðabliki.

Ferðu stundum í sund? Ég var í svona sundlotum í skólanum, þá löbbuðum við í laugina og syntum alls konar, baksund og skriðsund. En skemmtilegustu rennibrautir sem ég hef farið í eru á Akureyri, ein liggur alveg beint niður, maður rennur eiginlega ekki neitt, bara hoppar í vatnið!

Leikur þú þér með dúkkur? Ég leik mér stundum með dúkkur með Emilíu, vinkonu minni, en annars bara ekki.

Áttu margar? Ég held ég eigi svona tíu vinkonur.

Hvað ætlarðu helst að gera í sumar? Veit ekki. Aðallega bara vera heima og leika við vinkonur mínar.

Hefurðu farið til útlanda? Já, nokkrum sinnum til Krítar og nokkrum sinnum til Majorka. Mér fannst betra á Krít. Það eru skemmtilegri strandir þar og líka ókeypis bátar sem maður getur farið á og siglt á sjónum.

Eru dýr á heimilinu þínu? Við áttum fiska en þeir dóu einn og einn og fóru bara í klósettið. Svo fengum við okkur tvo ketti og þeir fóru svo illa með rúmfötin að við hættum með þá svo nú eigum við engin dýr.

Ertu eitthvað farin að velta fyrir þér hvað þig langar að verða þegar þú verður stór? Ég veit ekkert hvað ég ætla að verða, ég ætla bara að verða mamma. Mig langar líka að leika í leikriti en maður þarf samt örugglega að æfa sig mjög mikið.