Kamilla Parker Bowles hefði aldrei verið sýnd í því ljósi sem hún var sýnd í fimmtu seríu The Crown ef þættirnir hefðu verið gerðir fyrir einungis örfáum árum síðan.
Þetta er meðal þess sem fram kom í fyrsta þætti Crownvarpsins, viðhafnarhlaðvarpi Fréttablaðsins um The Crown á Netflix. Þar eru tilölulegar nýjar vinsældir Kamillu ræddar en Guðný Ósk Laxdal, sérfræðingur í konungsfjölskyldunni ræddi málið.
„Ég hef verið á Madam Tussaud vaxmyndasafninu og þar var hún og mamma var að skoða hana. Það kom kona upp að henni og sagði við hana: Finnst þér hún ekki með ógeðslega ljótt hár þessi ljóta kona?“
Guðný og Þórarinn Þórarinsson, annar stjórnenda þáttarins, eru sammála um að Kamilla hafi þurft að þola ýmislegt í opinberri umræðu enda hélt Karl framhjá Díönu prinessu með Kamillu um árabil eins og frægt er orðið fyrir löngu.
„Það er þessi samanburður við Díönu. Þetta var auðvitað brúðkaup aldarinnar og við vildum öll trúa á þetta ævintýri og svo kemur þessi ljóta norn og eyðileggur þetta, en hún náttúrulega gerir það ekkert,“ segir Þórarinn.
„Þau eru í rauninni fullkomin fyrir hvort annað, Karl og Kamilla,“ skýtur Guðný inn í. „Miðað við hve margir hafa hatað hana er ótrúlegt hvað það hefur verið tekið vel á móti henni núna.“
Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.