Sýning á nýjum málverkum Aðalheiðar Valgeirsdóttur stendur yfir í sal Sambands íslenskra myndlistarmanna í SÍM-húsinu í Hafnarstræti. Sýningin ber yfirskriftina Nærmyndir og stendur til 22. janúar. SÍM-salurinn er opinn frá 10-16 alla virka daga.

Aðalheiður er myndlistarmaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur.

Hún hefur haldið fjölda einkasýninga, meðal annars í Gerðarsafni, Ásmundarsal og Hallgrímskirkju og tekið þátt í samsýningum hér á landi og erlendis.

Verkin á sýningunni eru olíumálverk sem öll eru unnin á síðasta ári. „Þar á meðal er myndröð, þar sem ég hengi saman á vegg ólíkar myndir, sem eru þó allar í sömu stærð. Mér finnst gaman að tefla saman ólíkum verkum og ólíkum litum,“ segir Aðalheiður. „Ég kalla sýninguna Nærmyndir af tveimur ástæðum. Ég er með vinnustofu austur í sveit, í Biskupstungum, og nærumhverfi mitt þar, áin, veðrið og gróðurinn, er alltaf innblástur að verkum mínum. Í verkunum á þessari sýningu er ég að fara nær viðfangsefnunum og get þess vegna leyft mér að hafa verkin nokkuð mikið abstrakt en um leið mjög lífleg.

Ég er að vinna með yfirborð og undirlög og það hvernig þau sameinast. Með því að hafa myndirnar ólíkar er ég að undirstrika hvað allt er ólíkt í kringum okkur þótt það sé á sama stað. Gróðurinn og og hugsunin um fegurðina er alltaf undirliggjandi hjá mér.

Ég túlka forgengileika og endurtekningu með aðferðum málverksins, ber lit á, ýmist þunnt eða þykkt, síðan er hann skafinn burt og ég mála yfir, krafsa í eða teikna í endurtekinni hrynjandi oft í mörgum lögum. Litirnir eru afgerandi, þetta eru litirnir sem birtast manni í náttúrunni á mismunandi tímum.“

Aðalheiður segir síðasta ár hafa verið að mörgu leyti ágætt. „Það var minna um áreiti og ég var ekki að mæta hér og þar. Ég gat því einbeitt mér að því að vinna verk mín í sveitinni.“