Þriðja spennusaga Evu Bjargar Ægisdóttur, Næturskuggar, er nýkomin út. Eins og í fyrri bókunum tveimur rannsakar lögregluteymi á Akranesi sakamál.

„Bókin hefst á því að tvítugur strákur lætur lífið í eldsvoða sem reynist grunsamlegur og rannsókn fer í gang. Málið virðist tengjast föður stráksins sem græddi á hruninu og vinahópur hins látna blandast líka í málið. Á sama tíma glíma hjón við erfiðleika í hjónabandinu og dætur þeirra verða varar við undarlega veru í garðinum að næturlagi,“ segir Eva Björg.

Eva Björg ólst upp á Akranesi og bjó þar til 25 ára aldurs. Hún segir Akranes vera heppilegt sögusvið fyrir glæpasögur. „Það er dýnamík í litlum smábæjum þar sem allir þekkja alla og maður getur ímyndað sér að það sé erfitt að rannsaka sakamál þegar mikil tengsl eru í gangi milli fólks.

Ég er ekki bara að fjalla um glæpi í bókum mínum. Mér finnst gaman að kafa djúpt í persónur og þeirra tengsl og líf. Ég er með gráðu í félagsfræði og afbrotafræði og hef áhuga á alls kyns félagslegum tengslum og því hversu margt getur komið upp í litlum smábæjum.“

Eva Björg byrjaði snemma að skrifa. „Ég skrifaði fyrstu heilu söguna mína þegar ég var fjórtán ára. Það var smásaga um unga stúlku sem drepur vinkonu sína, hendir henni fram af hamri á Arnarstapa. Því má segja að ég hafi alltaf heillast af glæpasögunni.“

Fyrsta bók hennar, Marrið í stiganum, hlaut Svartfuglsverðlaunin og hefur fengið mjög góða dóma erlendis. Hún var valin ein af fimm bestu glæpasögunum í október af Times og í umsögn sagði: „Þessi framúrskarandi fyrsta skáldsaga Evu Bjargar er ekki aðeins safarík ráðgáta heldur líka hrollvekjandi lýsing á því hvernig skrímsli verða til.“

Önnur bók hennar, Stelpur sem ljúga, mun fljótlega koma út í Bretlandi og víðar. Eva Björg segir velgengnina hafa komið á óvart. „Allt gerðist svo hratt. Ég fékk Svartfuglsverðlaunin og þeim fylgdi erlendur umboðsmaður og samningur var gerður við átta lönd. Nú hefur hægst á öllu vegna COVID en það er samt ótrúlega margt hægt að gera í gegnum vefmiðla.“

Spurð hvort hún stefni að því að verða glæpasagnahöfundur sem sendir frá sér eina sögu á ári segir hún svo vera. „Draumurinn er að geta verið rithöfundur í fullu starfi og ég hef getað það þetta árið. Ég sé fyrir mér að koma með eina glæpasögu á ári og svo hefði ég gaman af að skrifa barna- og unglingabók.“