Önnur syrpa af viðtalsþáttum Loga Bergmanns byrjaði í gær á Sjónvarpi Símans. Logi fær þá þjóðkunna einstaklinga til að ræða um lífið og tilveruna af sinni alkunnu snilld. Hann segist hafa fundið sjálfan sig aftur við gerð þessara þátta – að fá fólk til að opna sig og skila þætti með innihaldi sé dásamleg tilfinning.

„Mér finnst eins og ég sé að finna sjálfan mig aftur. Það er gaman að skila einhverju frá sér sem er með miklu efni og innihaldi,“ segir Logi Bergmann Eiðsson en þættir hans Með Loga hófu göngu sína í gær á Sjónvarpi Símans.

Þar koma eins og í síðustu syrpu átta spennandi og áhrifamiklir einstaklingar til Loga þar sem þeir eru teknir tali. Edda Björgvinsdóttir reið á vaðið í gær en fram undan eru viðtöl við Ágústu Evu, Kára Stefánsson, forsetafrúna Elizu Reid, Lindu Pétursdóttur, Jakob Frímann Magnússon, Ólaf Darra og Björgvin Halldórsson.

„Að sitja í klukkutíma með Kára Stefánssyni er alveg meiriháttar. Þetta snýst samt ekkert um hver maðurinn er heldur hvort hann hafi frá einhverju að segja.

Ef menn eru einlægir og vilja tala þá er þetta meiriháttar og það voru allir þannig. Þetta eru sögur af fólki sem þau hafa ekki verið að tala um dagsdaglega. Og er mjög áhugavert.“

Þættirnir eru byggðir upp eins og fyrri sería með örlitlum breytingum sem kannski mestu tækninördar landsins taka eftir. „Annars er þetta þannig að ég er að tala við fólk. Það er einfaldlega þannig,“

Logi segir að þættirnir hafi ­­opnað augu sín og að hann sé búinn að ganga í gegnum endurnýjun. „Þegar ég var með þættina mína í gamla daga þá fannst mér skemmtilegast þegar viðmælandinn fór á flug og komst af stað. Sagði frá einhverju persónulegu. Maður fær þannig dýpri skilning á fólki. Stundum hef ég kynnst fólkinu nánast aftur. Margir af viðmælendum mínum eru ekkert oft í svona viðtölum, sumir í fréttaviðtölum en ekki í svona.

Til dæmis Björgvin Halldórsson. Hann hefur oft farið í viðtöl en ég hef aldrei séð hann svona afslappaðan. Það myndaðist eitthvert traust sem er alveg ótrúlega gaman. Það er eiginlega þannig að hann var bara staddur á vatnsbakkanum með veiðistöng í hendi.“