Mörgum finnst mjög erfitt að finna metnaðinn til að stunda líkamsrækt á þessum tíma árs, en hér eru góð ráð frá þremur einkaþjálfurum sem þjálfa fræga íþróttamenn og leikara, til að hjálpa fólki að kveikja neistann. Ráðin birtust fyrst á vefnum The Zoe Report.

Skammtímamarkmið eru góð

Ashley Borden er einkaþjálfari sem þjálfar meðal annars Christina Aguilera, Mandy Moore og Ryan Gosling. Hún segir að það sé eðlilegt að vera stundum orkulaus en vandinn sé að viðhalda þeirri venju að æfa, þrátt fyrir það.

„Það er mikilvægt að setja sér skammtímamarkmið,“ segir hún. „Langtímamarkmið geta verið yfirþyrmandi fyrir suma, en skammtímamarkmið eru auðveldari og byggja upp skriðþunga í líkamsræktinni. Í staðinn fyrir að ætla sér að missa ákveðna kílóatölu er betra að setja aðgengilegri markmið. Ef þú hleypur til dæmis alltaf sama hringinn er gott að taka tímann sinn og reyna að bæta hann í hvert skipti, þó að það sé bara um eina sekúndu.“

Hún segir að þessi aðferð auðveldi fólki að leggja harðar að sér, sem skili betri árangri og viljinn til að sanna sig fyrir sjálfum sér valdi jákvæðum breytingum á líkama og sál.

Hafðu millimarkmið í huga

Gunnar Peterson, sem þjálfar meðal annars Angelina Jolie, Bruce Willis, Dwayne Johnson og leikmenn í NBA, er sammála, en vill að fólk setji líka langtímamarkmið.

„Svo má ekki heldur gleyma millimarkmiðum,“ segir hann. „Hugsaðu um sumarlíkamann, en líka vorlíkamann. Svo skaltu hugsa um líkama helgarinnar. Manni líður auðvitað oft eins og maður sé ekki að ná árangri, en þú ert að gera það í hverri viku. Þú ert að leggja grunninn sem framtíðin hvílir á. Sjáðu það, skildu það, gerðu það og njóttu þess.“

Hér er Gunnar Peterson að vinna með JaVale McGee, atvinnumanni í NBA-deildinni. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Búðu til rútínu

Jeanette Jenkins er stofnandi og yfirmaður Hollywood Trainer Club (sem sinnir meðal annars Alicia Keys og Pink), einkaþjálfari og talsmaður MyFitnessPal snjallforritsins. Hún ráðleggur fólki að halda sig við rútínu.

„Gerðu ráð fyrir æfingunum í vikulegu áætluninni þinni, rétt eins og öðrum mikilvægum fundum, og ekki aflýsa,“ segir hún. „Þetta er fundurinn sem snýst um þína heilsu.“

Peterson tekur undir þetta en bætir við að fólk eigi að æfa þegar það hefur í raun og veru tíma, í stað þess að reyna að búa til tíma.

„Ef það er erfitt að ná æfingu á morgnana skaltu hafa hana eftir vinnu og ef eftirmiðdagurinn gengur ekki skaltu vakna fyrr á morgnana og klára þetta af á meðan aðrir sofa,“ segir hann. „Ekki láta þetta passa, finndu tímann þar sem þetta passar.“

Ekki dæma þig

Borden segir að fólk eigi líka ekki að dæma sig.

„Það er allt í lagi að taka stundum styttri og minna glæsilegar æfingar. Með því að reyna á sig, þó að það sé bara pínulítið, byggist upp kraftur,“ segir hún.

Ef þú getur bara fengið þig til að gera eitthvað smávegis er betra að gera það en ekki neitt, segir Borden. Það er allt í lagi að komast hægt í gang og það getur verið gott að gefa sér tímabil þar sem maður dæmir sig ekkert fyrir þær æfingar sem maður tekur eða tekur ekki.

Mataræði er mikilvægt

Jenkins minnir á tvö lykilatriði, að drekka nóg vatn og huga vel að mataræðinu. Hún bendir á að vatn sé nauðsynlegt fyrir eðlilega líkamsstarfsemi og verði enn mikilvægara þegar fólk stundar líkamsrækt.

Hún segir líka mikilvægt að taka ábyrgð á mataræði sínu og það kemur kannski ekki á óvart að þessi talsmaður MyFitnessPal mæli með því að nota forritið til að skrá niður og fylgjast með mataræðinu.

„Það er gott að læra hvernig maturinn sem þú borðar hefur áhrif á orkustig, svefn, einbeitingu, fitubrennslu, vöðvaaukningu, meltingu og fleira,“ segir hún.

Notaðu netið

Borden segir að faraldurinn hafi gert það að verkum að farið var að bjóða upp á mikið af líkamsrækt í gegnum netið. Það hefur verið mikill léttir fyrir marga að geta fengið þjálfun í gegnum netið því það getur sparað fólki mikinn tíma, peninga og óþægindi.

Þetta hefur því breytt ótrúlega miklu og gert það mun auðveldara og aðgengilegra að stunda líkamsrækt.

Hafðu önnur markmið í huga

Peterson bendir á að ein auðveld leið til að hvetja sig áfram sé að líta á allt annað sem maður hefur í lífinu.

„Haltu áfram að stunda líkamsrækt til að þú getir notið alls annars í lífinu til fullnustu,“ segir hann. Það skiptir ekki máli hvort þig langar að geta leikið við börn, klifið fjöll eða farið í frí á ströndina, líkamsræktin hjálpar þér að njóta þess alls til hins ítrasta.“ ■