Finn­bogi Péturs­son mynd­listar­maður opnaði sýninguna Flóa á Blöndu­ósi síðasta laugar­dag í sam­starfi við menningar­búið Kleifar. Verkið er til sýnis í Hil­lebrandts­húsinu sem er eitt elsta timbur­hús Ís­lands og stendur í gamla bænum á Blöndu­ósi en hluti verksins er fleki sem mun reka um Húna­flóann.

„Blöndu­ós og Húna­flóinn eru bara undir í þessu verki. Ég er með mann­lausan fleka sem við erum að fara með út á Húna­flóa og um borð í þessum fleka verður búnaður sem nemur hreyfingar á flekanum og undir­ölduna,“ segir Finn­bogi.

Upp­lýsingarnar úr flekanum verða svo sendar í hið áður­nefnda Hil­lebrandts­hús, sem er gamalt sjó­hús, en þar verður annar búnaður sem tekur á móti upp­lýsingunum og um­breytir þeim.

„Þar er grænn 360 gráðu leysi­geisli sem hallar sér eins og flekinn. Hann teiknar undir­ölduna og sjón­deildar­hringinn í Húna­flóanum inn í fisk­vinnslu­húsið. Ég er dá­lítið að setja fólk um borð í þennan farar­skjóta sem hefur mikið verið notaður bæði á sjó og landi,“ segir Finn­bogi.

Flekinn er í sjón­línu frá Hil­lebrandts­húsi og er verkið því til sýnis bæði á sjó og landi.

„Þetta er bara svona um­breyting á sjón­deildar­hringnum,“ segir Finn­bogi og bætir við að á­horf­endur sem koma í Hil­lebrandts­hús verði á vissan hátt settir í spor flekans á Húna­flóa.

Finn­bogi Péturs­son (f. 1959) er í hópi fremstu sam­tíma­lista­manna Ís­lands. Hann lærði mynd­list í Mynd­lista- og hand­íða­skólanum á árunum 1979 til 1983 og stundaði fram­halds­nám við Jan van Eyck Akademi­e í Maastricht á árunum 1983 til 1985. Hann hélt sína fyrstu einka­sýningu í Time Based Arts í Amsterdam 1985 og hefur síðan haldið fjölda einka­sýninga og tekið þátt í fjöl­mörgum sam­sýningum víða um heim. Finn­bogi var full­trúi Ís­lands á Fen­eyja­tví­æringnum 2001. Sýningin Flói er opin til 14. ágúst í Hil­lebrandts­húsi.