Konur finna pressu frá samfélaginu um að eignast annað barn eftir fyrsta barnsburð, oftast frá fólki sem þekkir lítið til þeirra.

Í Kvennaklefanum á Hringbraut í gær ræddu Margrét Erla Maack og Salka Gullbrá þáttastjórnendur við Glódísi Guðgeirsdóttur, fimleikakonu og jarðfræðing, og Eydísi Blöndal, umhverfisverndarsinna og ljóðskáld, um afskipti fólks af barneignum annarra. Horfa má á stiklu úr þættinum neðst í fréttinni.

„Þegar ég var nýkomin með stelpuna mína í fangið kom strax spurningin: Og hvenær ætlarðu að koma með strákinn? Þetta kom frá fólki sem vissi ekkert um mig og mína hagi en fannst það þurfa að skipta sér af þessu,“ sagði Margrét.

Glódís Guðgeirsdóttir, Eydís Blöndal, viðmælendur í Kvennaklefanum og Salka Gullbrá ein umsjónarkvenna þáttarins, tóku allar undir með henni. „Alveg mjög oft. Oft segir fólk að sonur minn verði að eignast systkini,“ sagði Glódís og sagðist Eydís einnig hafa heyrt þetta oft.

„Ég tók hana upp og ég hugsaði: Allir halda að ég sé pössunarpían.“

Margrét segist svara bara hreint út þegar fólk skiptir sér af barneignum hennar. „Þá slengi ég bara fram: Nei, veistu ég treysti mér ekki í það. Ég fékk bara brjálæðislega mikið fæðingarþunglyndi. Þá finnst fólki það dónalegt að ég sé að skvetta því framan í fólk. Ég meina, hvað átti ég að segja?“

Konurnar ræða móðurhlutverkið, meðgöngu- og fæðingaþunglyndi og upplifun þeirra af því að verða mæður. Eydís segist hafa upplifað sig sem „teen mom“ en hún var 23 ára þegar hún varð ólétt.

„Ég man þegar ég var Laugaveginum og var að labba með barnakerruna og hún var grátandi. Ég tók hana upp og ég hugsaði: Allir halda að ég sé pössunarpían. Ég upplifði mig aldrei sem móður utan frá og sjálfsmynd mín var aldrei fullkomlega „móðir“ fyrr en ég byrjaði á þunglyndislyfjum,“ sagði Eydís og tóku konurnar undir með henni.

Hér fyrir neðan má stikluna úr þættinum.