Það hefur lengi verið draumur okkar að setja upp sýningu með töflunum hans Rudolfs Steiner, upphafsmanns antroposófíunnar og Waldorfstefnunnar,“ segir Guðrún Vera Hjartardóttir myndlistarmaður. „Hann gerði töflurnar til útskýringar á fyrirlestrum sínum um leið og hann flutti þá,“ útskýrir hún. Guðrún er ein þeirra sem standa að baki sýningunni Fullt af litlu fólki sem opnuð verður í Gerðarsafni, Listasafni Kópavogs, í kvöld klukkan 19 og var þar að störfum þegar Fréttablaðsfólk leit inn, ásamt hinum sýningarstjórunum, Sigrúnu Halldóru Gunnarsdóttur, Jóni B. K. Ransu og Jasper Bock. Flest eiga þau verk á sýningunni, auk þess raða þau öll upp list annarra.

Fjórar töflur Steiners eru komnar upp á veggi, þar má greina ýmis líkamleg form svo sem olnboga, hné, mjöðm og meltingarveg, eða brot úr þeim. Fyrirlestrar hans verða aðgengilegir líka. Meðal annars einn með heiti sem þýða má: Beinagrindin er sæti andans.

Sýningarstjórarnir Jasper Bock, Sigrún Halldóra, Guðrún Vera og Jón B. K. Ransu. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Titill sýningarinnar, Fullt af litlu fólki, er sóttur í skýringarmynd sem Steiner teiknaði á fyrirlestri árið 1922. „Sýningin byggir á hugmyndum Rudolfs Steiner fyrst og fremst, en hann lagði áherslu á frelsi einstaklingsins þannig að við erum ekki að elta einhvern gúrú, heldur finna frelsi okkar inni í hans fræðum og teygja okkur út fyrir þau líka,“ tekur Sigrún fram.

Guðrún er að vinna að gólfverkinu Draumahlið, með litlum svörtum höfðum, þar verður fullt af litlu fólki. „Við byrjuðum á að stúdera formin á töflum Steiners, athuga hvað kveikti í okkur, því við Sigrún erum báðar í Antroposofiska félaginu og höfum lengi velt fyrir okkur samhengi listar og anda,“ segir hún.

Sería gvassmynda eftir Hilmu af Klint (1862-1944) sýnir líka geometrísk form, listafólkið greinir þar spíritísk áhrif. „Hilma sendi þessi málverk til Rudolfs Steiner til að kynna honum list sína og andlega leit. Þar fundust þau í safni með ritverkum Steiners, Albert Steffen Stiftung, og nú er komin heilmikil traffík þangað til að skoða þau en við fengum þau lánuð,“ upplýsir Jón og heldur áfram: „Hilma er nýstirni í listinni, þó hún sé löngu látin. Guggenheimsafnið í New York setti upp sýningu með list hennar síðasta vetur og það er aðsóknarmesta sýning í sögu safnsins. Hún var að gera þessi abstrakt verk rétt upp úr aldamótunum 1900, áður en abstrakt bylgjan kom inn í listasöguna. Þá voru þau ekki sýnd, en hún var að sjálfsögðu frumkvöðull.“

Skúlptúr eftir Gerði Helgadóttur, sem safnið heitir eftir, kallast á við verk Hilmu. Gerður var frumkvöðull þrívíðrar abstraktlistar hér á landi. Hún iðkaði líkams-og hugrækt og lagði stund á „heilaga dansa“ sem byggja á geómetrísku kerfi – þannig að allt ber að sama brunni.

Ein af töflum Rudolfs Steiner, þær hafa aldrei verið sýndar fyrr á Íslandi.

Á sama vegg og verk Hilmu prýða – en í hæfilegri fjarlægð – eru tvær krítartöflur eftir hinn þýska Joseph Beuys (1921-1986). Þær eru sláandi einfaldar en birta þó grunnstoðir formfræðinnar, beina línu og boga. Gegnt þeim í salnum er veggverk Elsu Dórótheu Gísladóttur sem tengist inn í lífræna ræktun og mun taka breytingum á sýningartímanum.

Yfir tuttugu þátttakendur verða í sýningunni, bæði íslenskir og erlendir. Þeir eiga það sameiginlegt að rannsaka hið óþekkta og sækja innblástur í andleg gildi. Útkoman birtist í myndlist, grafískri hönnun, dansi, tónlist og fræðum því viðamikil viðburðadagskrá verður í tengslum við sýninguna á næstu þremur mánuðum. „Þau framlög hafa heilmikið vægi, ekki síður en verkin sem eru sett hér upp,“ tekur Sigrún fram og nefnir fyrirlestra og vinnusmiðjur, pallborðsumræður og dans. Barnahornið breytist líka eftir því sem sýningunni vindur fram.“

Þess má geta að málþing á vegum sýningarinnar verður haldið þar á laugardaginn klukkan 14 og á sunnudaginn klukkan 13 verður þátttökugjörningur sem nefnist Bara drekka te. Báðir viðburðirnir eru ókeypis.