Á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut í Reykjavík starfa um 140 manns sem allir sinna hjúkrun hjartasjúklinga. Deildin er eina sérhæfða hjartadeildin hér á landi og um leið stærsta legudeild spítalans, með 34 pláss sem alltaf eru fullnýtt.

Meðal fjölmargra reyndra starfsmanna hjartadeildarinnar eru þær Bylgja Kærnested hjúkrunardeildarstjóri, Auður Ketilsdóttir, sem er sérfræðingur í hjúkrun hjartasjúklinga, Guðríður Kristín Þórðardóttir, einnig sérfræðingur í hjúkrun hjartasjúklinga, og Svandís Bára Karlsdóttir sem er sjúkraliði. Saman búa þær yfir áratuga starfsreynslu af umönnun hjartasjúklinga af legudeildinni. Svandís átti einmitt 40 ára starfsafmæli á deildinni fyrir nokkrum dögum en hinar þrjá hafa allar starfað þar í rúmlega 20 ár.

„Á okkar langa og farsæla starfsferli hefur starfið okkar breyst töluvert, bæði þjónustan, sjúklingahópurinn og ekki síst starfsumhverfið,“ segir Bylgja. „Sjúklingahópurinn hefur elst og sjúklingum með langvinna sjúkdóma hefur fjölgað þar sem læknisfræðinni hefur fleygt fram í greiningu og meðferð og fleiri lifa af alvarlega sjúkdóma og kvilla.“

Samvinna skiptir miklu máli

Guðríður segir deildina vera afar annasama enda sé hjúkrun sjúklinga oft flókin og krefjandi en um leið afar fjölbreytt. „Þá skiptir liðsheildin og samvinna allra stétta miklu máli, sem er svo sannarlega til fyrirmyndar á okkar vinnustað. Traust og virðing er okkur mikilvæg og við reynum eftir fremsta megni að skapa það, bæði meðal samstarfsfólks og sjúklinga og aðstandenda þeirra.“

„Við finnum það á hverjum degi að störf okkar skipta máli,“ segir Svandís . „Eðli starfsins okkar er þannig að það er oft ansi krefjandi, ekki síður andlega en líkamlega. Við erum að sinna sjúklingum okkar og aðstandendum þeirra á mjög erfiðum tímum í lífi þeirra, jafnvel fram yfir andlát,“ bætir Guðríður við.

En þó starfið taki oft á eru þær sammála um að það séu mikil forréttindi að fá tækifæri til að gera erfiðar aðstæður eins bærilegar og mögulegt er. „Það gerum við meðal annars með því að bregðast við bráðu ástandi hjá sjúklingi og veita meðferðir sem eru lífsbjargandi. Við linum þjáningar eða leiðbeinum um leiðir til að lifa með langvinna sjúkdóma og eigum samskipti við sjúklingana og aðstandendur,“ segir Auður.

Hjartadeild Landspítalans er staðsett við Hringbraut í Reykjavík. Deildin er eina sérhæfða hjartadeildin hér á landi. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA

Vinna náið saman

Sjúklingar á hjartadeildinni eru á öllum aldri að þeirra sögn, eða frá 18 ára og upp úr. „Meðalaldur sjúklinganna er 70 ár og konur eru töluvert færri en karlar, eða aðeins 36 prósent af sjúklingum deildarinnar,“ segir Bylgja sem hefur stýrt hjartadeildinni í 13 ár.

Sjúklingarnir sem leggjast inn koma ýmist frá Bráðamóttökunni, Hjartagáttinni, spítölum úti á landi eða beint frá göngudeildum, segja þær Auður og Guðríður. Þær eru sérfræðingar í hjúkrun hjartasjúklinga og koma bæði að hjúkrun á deildinni auk þess að vinna að margvíslegum verkefnum tengdum þjónustu við hjartasjúklinga, svo sem fræðslu, kennslu og rannsóknum. „Hjartakvillarnir og sjúkdómarnir eru ýmiss konar, til dæmis kransæðasjúkdómur, hjartabilun, hjartsláttartruflanir, sjúkdómar í hjartalokum, sýkingar og margt fleira,“ segir Auður. „Sjúklingar sem gangast undir opnar skurðaðgerðir fara á Hjarta- og lungnaskurðdeild sem er á 2. hæð spítalans. Samvinnan við aðrar einingar innan hjartaþjónustunnar er náin, eins og Hjartagátt, hjartaþræðingastofu, hjartarannsókn og göngudeildir hjartasjúklinga,“ bætir Guðríður við.

Í starfi sínu sem sjúkraliði sinnir Svandís fyrst og fremst umönnun sjúklinga og þjálfun sjúkraliðanema á deildinni. „Þó daglegu störfin okkar séu að mörgu leyti ólík vinnum við náið saman og að sama markmiði, sem er að stuðla að bættri heilsu og/eða líðan sjúklinga og aðstandenda þeirra, með áherslu á að virða þarfir fólks og bæta líðan.“

Enginn dagur eins

Störf starfsfólks á hjartadeildinni eru afar fjölbreytt og enginn dagur eins. „Það er margt í starfi okkar sem er þeim sem ekki starfa í heilbrigðisgeiranum hulið,“ segir Bylgja. „Hjúkrun er mjög fjölbreytt og erfitt að koma því í orð hvað felst í starfinu. Andlegur stuðningur, áfallahjálp, fræðsla, eftirlit með einkennum og lífsmörkum sem hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sinna eru fremur ósýnileg eða dulin störf, að minnsta kosti ef maður ber það saman við til dæmis sáraskiptingar eða lyfjagjafir,“ bæta þær Auður og Guðríður við.

Alltaf þarf að hafa í huga að virða þarfir fólks, sýna hlýju, alúð og umhyggju, bætir Svandís við. „Við aðstoðum sjúklinga við athafnir daglegs lífs, beitum markvissri hlustun og nærveru. Við höfum það markmið að skapa gott og gagnkvæmt meðferðarsamband sem byggir á trausti og virðingu.“

Huga vel að sál og líkama

Þær eru sammála um að nauðsynlegt sé að huga vel að líkama og sál utan vinnunnar. „Maður býr sér til gæðastundir,“ segir Svandís. „Hvort sem það er á formi samveru með fjölskyldunni, að prjóna, fara út að ganga, rækta garðinn og stunda ýmiss konar félagslíf.“

Gæðastundir með fjölskyldunni eru Guðríði nauðsynlegar. „Kósíkvöld yfir sjónvarpinu er vinsælt eða að púsla saman. Síðan reyni ég að stunda einhverja útihreyfingu á hverjum degi, þó ekki sé nema að hjóla í vinnuna. Sjósund virkar fáránlega vel til að vinda ofan af mér eftir erfiða daga eða vikur.“

Ýmiss konar hreyfing og útivist hjálpar Auði við að hlaða batteríin. „Svo má ekki gleyma gæðastundum með fjölskyldu og vinum sem eru nauðsynlegar.“

Bylgja hefur einnig gaman af allri útivist og að ferðast um landið. „Ég elska að hjóla og fara á gönguskíði. Einnig stunda ég hlaup á morgnana með vinkonum sem er mjög nærandi og skemmtilegt.“