Stærstu klassísku tón­leikar ársins sem er að líða voru með tenórnum blinda Andrea Bocelli í Kórnum í vor. Á­heyr­enda­fjöldinn var gríðar­legur og ég tók mynd af múgnum og birti á Face­book. Einn vinur minn kommentaði: „Hér hefði verið full­komið tæki­færi til að bólu­setja með fjórðu sprautunni. Bara svona fyrst allir gamlingjar á höfuð­borgar­svæðinu voru á annað borð mættir.“

Rétt er að tölu­vert var af eldra fólki á tón­leikunum, en ekki ein­göngu. En fagnaðar­lætin voru svo sannar­lega alveg jafn mikil og á popp­tón­leikum með æstum ung­lingum. Við gamlingjarnir getum æpt líka og ekkert síður.

Blindi tenórinn Andrea Bocelli fyllti Kórinn í Kópavogi með tónleikum í maí.
Mynd/Giovanni De Sandre

Radd­lega séð er Andrea Bocelli dá­lítið tak­markaður sem óperu­söngvari. Röddin hans á tón­leikunum var ögn hörð og mjó. Hann var hins vegar afar sjarmerandi, og það vóg upp á móti veiku hliðunum. Söngurinn var líka full af til­finningum og krafturinn ó­heftur. Lögin voru hvert öðru skemmti­legra, ýmist þekktir óperu­smellir eða popp­lög.

Ég minntist á fjórðu sprautuna við Co­vid. Þegar árið byrjaði voru and­lits­grímur staðallinn á tón­leikum, manni til mikillar skap­raunar. En svo voru þær af­numdar og öllum tak­mörkunum sleppt. Á Co­vid-tímanum voru tón­leikar ýmist blásnir af eða sýndir í streymi sem var mis­vel heppnað. Hvílík gleði að geta aftur hlustað á lifandi tón­list án hindrana.

Álfheiður Erla sópran og Kunal Lahiry píanóleikari héldu eftirminnilega tónleika í Eldborg í apríl.
Mynd/Aðsend

Dul­úðugt sviðs­verk

Margir spennandi og skemmti­legir tón­leikar voru haldnir á árinu. Ein­hverjir þeir mögnuðustu voru á röðinni Heims­svið með Álf­heiði Erlu Guð­munds­dóttur sópran í Eld­borginni í Hörpu í apríl. Það voru ekki bara tón­leikar heldur sviðs­verk þar sem dans spilaði stórt hlut­verk.

Á­horf­endur sátu á sviðinu og horfðu út í sal. Öllu hafði verið snúið við. Fremri hluti sviðsins og á­heyr­enda­bekkirnir á neðstu hæð voru vett­vangur tón­listar­fólksins, risa­stór, rökkvaður geimur.

Megin­uppi­staðan á efnis­skránni var hinn dular­fulli laga­flokkur Appa­rition eftir Geor­ge Crumb og voru lögin fleyguð með tón­list eftir Si­belius, Nico Mu­hly og ís­lenskum þjóð­lögum. Söngurinn var frá­bær, og píanó­leikur Kunals Lahiry var það líka, sem og annar tón­listar­flutningur og dans. Út­koman var há­stemmd og annars­heims­leg og svo fögur að lengi verður í minnum haft.

Tónleikar Craig Taborn í Salnum voru glæsilegir að mati gagnrýnanda Fréttablaðsins.
Mynd/Aðsend

Brjálaður djass­geggjari

Ekki síðri voru sér­deilis glæsi­legir tón­leikar með djasspíanó­leikaranum Cra­ig Taborn í röðinni Djass í Salnum. Hann var gríðar­lega fingra­fimur, svo mjög að hægt var að bera hann saman við píanó­leikarann Keith Jar­rett, sem var svo sannar­lega yfir­burða­snillingur áður en hann missti getuna fyrir nokkrum árum síðan.

Tón­list þeirra Taborns er samt á­kaf­lega ólík. Tón­list Jar­retts er rómantísk og horfir til for­tíðar, sú sem Taborn bar fram hér var ó­m­stríð og fram­úr­stefnu­leg. Tón­leikarnir voru samt síður en svo leiðin­legir; hvergi var dauður punktur, manni var komið á ó­vart aftur og aftur. Tækni píanó­leikarans var frá­bær, hún var slík að engin hindrun var á flæðinu, inn­blásturinn var ó­heftur og göldrum líkastur. Þetta var snilld.

Píanóleikarinn Dani­il Tri­fonov kom fram á tvennum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í haust.
Mynd/Aðsend

Tri­fonov með allt á hreinu

Annar píanó­leikari var líka með allt á hreinu. Þetta var Dani­il Tri­fonov, sem kom fram með Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands í haust og lék fjórða píanó­kon­sert Beet­hovens. Það var yndis­leg túlkun, svo full af til­finningum og með svo dá­sam­lega fáguðum blæ­brigðum að það var bein­línis dá­leiðandi.

Tri­fonov hélt einnig ein­leiks­tón­leika sem voru frá­bærir. Fantasían í C-dúr eftir Schumann var há­punktur dag­skrárinnar. Hún var stór­brotin í með­förum píanó­leikarans. Þar voru ýmist yfir­gengi­legar tóna­sprengjur eða draum­kenndir, hrífandi kaflar. Þeir voru svo há­stemmdir að það var hel­ber unaður. Rauði þráðurinn slitaði aldrei, flæðið í tón­listinni var ó­trú­lega sann­færandi.

Kristinn söng fingur­brotinn

Flutningurinn á Sálu­messu Ver­dis í Lang­holts­kirkju í vor var sömu­leiðis yfir­gengi­legur. At­hygli vakti í byrjun að þegar ein­söngvararnir gengu fram á sviðið hrasaði einn þeirra, Kristinn Sig­munds­son. Er hann stóð upp aftur var and­lit hans af­myndað af sárs­auka. Síðar fréttist að hann hefði fingur­brotnað, en það truflaði hann greini­lega ekki við sönginn, sem var lýta­laus. Segja má að Kristinn sé fag­maður fram í fingur­góma!

Magnús Ragnars­son stjórnaði Söng­sveitinni Fíl­harmóníu og sin­fóníu­hljóm­sveit á­samt ein­söngvurum. Það hafði staðið lengi til. Co­vid gerði Söng­sveitinni lífið leitt og þurfti að fresta flutningnum oftar en einu sinni. Loksins kom að því. Kannski gerði biðin að verkum að enn meira var lagt í túlkunina en annars. Á tón­leikunum lék allt á reiði­skjálfi og frammi­staða hvers og eins var frá­bær.

Guð­spjall Maríu eftir Huga Guðmundsson er íhugul og andagtug tónsmíð að mati gagnrýnanda.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í­hugult og andagtugt

Önnur trúar­tón­smíð, sem flutt var á Lista­há­tíð í Hall­gríms­kirkju snemma í sumar og var eftir Huga Guð­munds­son, var allt öðru­vísi. Tón­málið var lág­stemmd og inn­hverft. Þetta var Guð­spjall Maríu (Magda­lenu). Textinn byggðist að miklu leyti á hand­riti sem upp­götvaðist árið 1896. Þar birtist önnur sýn á Maríu Magda­lenu en við eigum að venjast. Hún á til dæmis að hafa verið eigin­kona Jesú, nokkuð sem les­endur tryllisins Da Vinci lykilsins ætti að ráma í.

Út­koman var sann­færandi skáld­skapur, í­hugull og andagtugur. Tón­listin var afar fal­leg. Öfgarnar í Sálu­messu Ver­dis voru hér fjarri. Að vísu voru tveir kaflar þar sem að­eins var gefið í, ef til vill til að skapa fjöl­breytni, en það var aldrei sér­lega krassandi.

Eins og sjá má bar ýmis­legt mergjað fyrir eyru á árinu sem er að líða, efnis­skrár voru oftar en ekki í­burðar­miklar og metnaðar­fullar.

Klisjur víðs­fjarri

Hugi er eitt af okkar fremstu tón­skáldum, og geisla­diskur með verkum hans, sem kom út í haust, ber um það fagurt vitni. Kammer­sveit Reykja­víkur flytur verkin sem spanna sau­tján ár af ferli hans. Verkin eru lagrænni en oft er með nú­tíma­tón­list. Hljómarnir eru töfra­kenndir og á­ferðin sem skapast af sam­hljómi ó­líkra radda er lokkandi. Auð­heyrt er að Huga liggur mikið á hjarta, en hann beitir aldrei ó­dýrum trixum. Klisjur eru víðs­fjarri; tón­listin er nánast alltaf opin­berun.

Eins og sjá má bar ýmis­legt mergjað fyrir eyru á árinu sem er að líða, efnis­skrár voru oftar en ekki í­burðar­miklar og metnaðar­fullar. Sumt var frá­bært sem hér er ekki pláss til að fara nánar út í, eins og Barbara Hannigan á Lista­há­tíð í Reykja­vík og Eva Olli­ka­inen á fjöl­mörgum tón­leikum með Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands. Hún er svo sannar­lega magnaður stjórnandi, og hval­reki fyrir hljóm­sveitina. Fleira mætti telja til. Ég þakka les­endum mínum sam­fylgdina á árinu og óska öllum gleði­legs nýs árs.