Stærstu klassísku tónleikar ársins sem er að líða voru með tenórnum blinda Andrea Bocelli í Kórnum í vor. Áheyrendafjöldinn var gríðarlegur og ég tók mynd af múgnum og birti á Facebook. Einn vinur minn kommentaði: „Hér hefði verið fullkomið tækifæri til að bólusetja með fjórðu sprautunni. Bara svona fyrst allir gamlingjar á höfuðborgarsvæðinu voru á annað borð mættir.“
Rétt er að töluvert var af eldra fólki á tónleikunum, en ekki eingöngu. En fagnaðarlætin voru svo sannarlega alveg jafn mikil og á popptónleikum með æstum unglingum. Við gamlingjarnir getum æpt líka og ekkert síður.

Raddlega séð er Andrea Bocelli dálítið takmarkaður sem óperusöngvari. Röddin hans á tónleikunum var ögn hörð og mjó. Hann var hins vegar afar sjarmerandi, og það vóg upp á móti veiku hliðunum. Söngurinn var líka full af tilfinningum og krafturinn óheftur. Lögin voru hvert öðru skemmtilegra, ýmist þekktir óperusmellir eða popplög.
Ég minntist á fjórðu sprautuna við Covid. Þegar árið byrjaði voru andlitsgrímur staðallinn á tónleikum, manni til mikillar skapraunar. En svo voru þær afnumdar og öllum takmörkunum sleppt. Á Covid-tímanum voru tónleikar ýmist blásnir af eða sýndir í streymi sem var misvel heppnað. Hvílík gleði að geta aftur hlustað á lifandi tónlist án hindrana.

Dulúðugt sviðsverk
Margir spennandi og skemmtilegir tónleikar voru haldnir á árinu. Einhverjir þeir mögnuðustu voru á röðinni Heimssvið með Álfheiði Erlu Guðmundsdóttur sópran í Eldborginni í Hörpu í apríl. Það voru ekki bara tónleikar heldur sviðsverk þar sem dans spilaði stórt hlutverk.
Áhorfendur sátu á sviðinu og horfðu út í sal. Öllu hafði verið snúið við. Fremri hluti sviðsins og áheyrendabekkirnir á neðstu hæð voru vettvangur tónlistarfólksins, risastór, rökkvaður geimur.
Meginuppistaðan á efnisskránni var hinn dularfulli lagaflokkur Apparition eftir George Crumb og voru lögin fleyguð með tónlist eftir Sibelius, Nico Muhly og íslenskum þjóðlögum. Söngurinn var frábær, og píanóleikur Kunals Lahiry var það líka, sem og annar tónlistarflutningur og dans. Útkoman var hástemmd og annarsheimsleg og svo fögur að lengi verður í minnum haft.

Brjálaður djassgeggjari
Ekki síðri voru sérdeilis glæsilegir tónleikar með djasspíanóleikaranum Craig Taborn í röðinni Djass í Salnum. Hann var gríðarlega fingrafimur, svo mjög að hægt var að bera hann saman við píanóleikarann Keith Jarrett, sem var svo sannarlega yfirburðasnillingur áður en hann missti getuna fyrir nokkrum árum síðan.
Tónlist þeirra Taborns er samt ákaflega ólík. Tónlist Jarretts er rómantísk og horfir til fortíðar, sú sem Taborn bar fram hér var ómstríð og framúrstefnuleg. Tónleikarnir voru samt síður en svo leiðinlegir; hvergi var dauður punktur, manni var komið á óvart aftur og aftur. Tækni píanóleikarans var frábær, hún var slík að engin hindrun var á flæðinu, innblásturinn var óheftur og göldrum líkastur. Þetta var snilld.

Trifonov með allt á hreinu
Annar píanóleikari var líka með allt á hreinu. Þetta var Daniil Trifonov, sem kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í haust og lék fjórða píanókonsert Beethovens. Það var yndisleg túlkun, svo full af tilfinningum og með svo dásamlega fáguðum blæbrigðum að það var beinlínis dáleiðandi.
Trifonov hélt einnig einleikstónleika sem voru frábærir. Fantasían í C-dúr eftir Schumann var hápunktur dagskrárinnar. Hún var stórbrotin í meðförum píanóleikarans. Þar voru ýmist yfirgengilegar tónasprengjur eða draumkenndir, hrífandi kaflar. Þeir voru svo hástemmdir að það var helber unaður. Rauði þráðurinn slitaði aldrei, flæðið í tónlistinni var ótrúlega sannfærandi.
Kristinn söng fingurbrotinn
Flutningurinn á Sálumessu Verdis í Langholtskirkju í vor var sömuleiðis yfirgengilegur. Athygli vakti í byrjun að þegar einsöngvararnir gengu fram á sviðið hrasaði einn þeirra, Kristinn Sigmundsson. Er hann stóð upp aftur var andlit hans afmyndað af sársauka. Síðar fréttist að hann hefði fingurbrotnað, en það truflaði hann greinilega ekki við sönginn, sem var lýtalaus. Segja má að Kristinn sé fagmaður fram í fingurgóma!
Magnús Ragnarsson stjórnaði Söngsveitinni Fílharmóníu og sinfóníuhljómsveit ásamt einsöngvurum. Það hafði staðið lengi til. Covid gerði Söngsveitinni lífið leitt og þurfti að fresta flutningnum oftar en einu sinni. Loksins kom að því. Kannski gerði biðin að verkum að enn meira var lagt í túlkunina en annars. Á tónleikunum lék allt á reiðiskjálfi og frammistaða hvers og eins var frábær.

Íhugult og andagtugt
Önnur trúartónsmíð, sem flutt var á Listahátíð í Hallgrímskirkju snemma í sumar og var eftir Huga Guðmundsson, var allt öðruvísi. Tónmálið var lágstemmd og innhverft. Þetta var Guðspjall Maríu (Magdalenu). Textinn byggðist að miklu leyti á handriti sem uppgötvaðist árið 1896. Þar birtist önnur sýn á Maríu Magdalenu en við eigum að venjast. Hún á til dæmis að hafa verið eiginkona Jesú, nokkuð sem lesendur tryllisins Da Vinci lykilsins ætti að ráma í.
Útkoman var sannfærandi skáldskapur, íhugull og andagtugur. Tónlistin var afar falleg. Öfgarnar í Sálumessu Verdis voru hér fjarri. Að vísu voru tveir kaflar þar sem aðeins var gefið í, ef til vill til að skapa fjölbreytni, en það var aldrei sérlega krassandi.
Eins og sjá má bar ýmislegt mergjað fyrir eyru á árinu sem er að líða, efnisskrár voru oftar en ekki íburðarmiklar og metnaðarfullar.
Klisjur víðsfjarri
Hugi er eitt af okkar fremstu tónskáldum, og geisladiskur með verkum hans, sem kom út í haust, ber um það fagurt vitni. Kammersveit Reykjavíkur flytur verkin sem spanna sautján ár af ferli hans. Verkin eru lagrænni en oft er með nútímatónlist. Hljómarnir eru töfrakenndir og áferðin sem skapast af samhljómi ólíkra radda er lokkandi. Auðheyrt er að Huga liggur mikið á hjarta, en hann beitir aldrei ódýrum trixum. Klisjur eru víðsfjarri; tónlistin er nánast alltaf opinberun.
Eins og sjá má bar ýmislegt mergjað fyrir eyru á árinu sem er að líða, efnisskrár voru oftar en ekki íburðarmiklar og metnaðarfullar. Sumt var frábært sem hér er ekki pláss til að fara nánar út í, eins og Barbara Hannigan á Listahátíð í Reykjavík og Eva Ollikainen á fjölmörgum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún er svo sannarlega magnaður stjórnandi, og hvalreki fyrir hljómsveitina. Fleira mætti telja til. Ég þakka lesendum mínum samfylgdina á árinu og óska öllum gleðilegs nýs árs.