Á vef Hagstofunnar kemur fram að á öðrum ársfjórðungi þessa árs fæddust 1.270 börn á Íslandi og hafa fæðingar á þessum mánuðum ekki verið fleiri frá árinu 2010. Birna Gerður Jónsdóttir, yfirljósmóðir á Landspítala, segir að starfsfólkið hafi svo sannarlega fundið fyrir þessari aukningu. „Það voru 2.952 fæðingar á Landspítalanum frá 1. janúar til 31. október á þessu ári. Sambærilegar tölur frá 2020 á sama tíma voru 2.800 fæðingar og 2.786 árið 2019. Það er þó ekki búið að fara endanlega yfir tölur á þessu ári og geta verið einhverjar skekkjur í talningunni,“ segir hún. Birna Gerður segist ekki geta svarað hvort Covid tengist þessari aukningu.

Í Noregi jókst tíðni fæðinga umtalsvert í janúar 2021 og í fyrsta skipti í mörg ár sem þeim fjölgar þar í landi. Aukningin í þessum eina mánuði var 4,9% samkvæmt nýjum tölum frá Norsku lýðheilsustofnuninni. Norðmenn tengja þessa aukningu við Covid-lokanir. Þessi börn voru getin í apríl 2020, aðeins nokkrum vikum eftir samkomubann en Noregur lokaði mest allri starfsemi 12. mars í fyrra, að því er greint er frá á vefmiðlinum forskning.no.

Mest var aukningin í mars á þessu ári en þá fæddust 376 fleiri börn en í sama mánuði í fyrra, sem er 8,3% aukning. Reyndar fæddust mun fleiri börn á fyrstu níu mánuðum ársins en 2020 og var það í öllum fylkjum Noregs. Fæðingum fjölgaði mest á norðurhluta landsins, eða um 13,7% miðað við árið áður.

Yfirlæknir hjá Norsku lýðheilsustofnuninni segir að þessi fjölgun komi mikið á óvart. Ekki síst í ljósi þess að fæðingum hafi fækkað umtalsvert í Noregi frá árinu 2009. „Algengt er að fresta barneignum á krepputímum þannig að þetta er ekki samkvæmt mynstrinu.“

Komið hefur í ljós að það eru ekki bara Ísland, Noregur og Danmörk sem hafa fundið fyrir breytingu á fæðingartíðni upp á við. Sú þróun var einnig í Hollandi, Ungverjalandi og Króatíu. Það má því kannski segja að það hafi orðið svokallað „baby boom“ níu mánuðum eftir Covid-lokanir.

Hvort samkomutakmarkanir og minna daglegt stress geti hafa haft svona góð áhrif er ósagt látið en greinilega höfðu pör meiri tíma fyrir sjálf sig í Covid. Fólk var heimavinnandi, hitti hvorki fjölskyldu eða vini, slapp við umferðina og daglegt stress við að koma sér á milli staða eða sækja börn í skóla eða leikskóla. Mögulega hafði samkomubannið áhrif á ástarlífið til góðs.