Heimildarmyndin Aftur heim? eftir Dögg Mósesdóttur er komin í Bíó Paradís en að baki er löng meðganga og erfið fæðing þar sem kvikmyndagerðin tók átta ár og lokaniðurstaðan varð töluvert öðruvísi en leikstjórinn ætlaði í upphafi.

„Ég tel þetta eiginlega bara í árum dóttur minnar. Hún verður reyndar níu ára núna en þetta byrjaði allt svolítið á henni þegar ég sjálf reyndi heimafæðingu,“ segir Dögg og gætir þess að upplýsa ekki of mikið um hvernig reynsla hennar birtist í myndinni.

„Það kemur í ljós í myndinni. Það má ekki segja frá hvað gerist en þetta fór ekki alveg eins og ég hafði planað og það er svolítið lýsandi fyrir þessa mynd. Hún hefur ekki alveg farið eins og ég hafði planað.“

Aldrei segja aldrei

„Ég var í fæðingarorlofinu þegar Soffía Bæringsdóttir, sem er doula, stuðningskona í fæðingum, minntist á að það vanti sárlega mynd um heimafæðingar á Íslandi.“

Dögg segist þá einhvern veginn hafa verið ákveðin í því að einbeita sér að leiknum myndum og ætlaði aldrei að gera heimildarmynd aftur. „En einhverra hluta vegna fannst mér þetta frábær hugmynd. Soffía hélt að hún væri bara að nefna einfalt verkefni sem myndi taka fjóra mánuði eða eitthvað álíka en þetta tók þetta öll þessi ár.

Trailer Aftur heim - Isl Texti from Freyja Filmwork on Vimeo.

„Maður stýrir voðalega litlu í þessu lífi þannig að ég held að maður eigi bara aldrei að segja aldrei. Myndirnar bara koma svolítið til manns og kjósa sér einhvern veginn sitt form. Það er ekki kannski hægt að plana hlutina of mikið. Það er kannski það sem maður lærir af þessu ferli.“

Ástfangin af ljósmæðrum

„Í upphafi ætlaði ég að gera mynd sem dásamaði þetta heimafæðingaferli og þjónustu ljósmæðranna sem eru alveg magnaðar,“ segir Dögg sem tók fjölda viðtala við ljósmæður á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.

„Ég varð bara rosalega ástfangin af ljósmæðrum í þessu ferli en að lokum vildi myndin svolítið fara annað og fæðingarnar fóru að taka meira og meira pláss,“ segir Dögg um fæðingarnar þrjár sem skipa stóran sess í myndinni.

„Síðasta fæðingin sem ég tók upp þurfti rosalega mikið pláss. Þetta var alger rússíbani þannig að á endanum ákvað ég bara að gera minna úr viðtölum og öðru og gefa fæðingunum pláss. Fara meira í persónulega frásögn vegna þess að fæðingar, sérstaklega heimafæðingar, eru mjög persónulegt ferli.“

Kraftur kvenna

Fæðingarnar vekja upp ýmsar spurningar og vangaveltur, meðal annars um kvenleikann, vald kvenna yfir eigin líkama og hvar konur og fjölskyldur upplifa sitt „heima“ í fæðingum.

„Ég er að sýna svolítið þennan kvenkraft sem enginn sér og kristallast í fæðingunni. Myndin fjallar líka bara mikið um þessa kvenorku og að sættast við kvenleikann, sem tók mig svolítið langan tíma persónulega.“

Dögg segir að konunum sem fæða í myndinni hafi verið svo mikilvægt að sýna hversu valdeflandi fæðingar geta verið. „Þær þurfa ekki að stýrast af ótta eins og þær hafa oft verið sýndar í bíómyndum. Það er alltaf þetta ótta-sjónarhorn. Það var kannski ein stærsta uppgötvunin fyrir mig í þessu öllu að það eru í rauninni tvær grunntilfinningar sem stýra fæðingum.

Það er óttinn, adrenalínið sem stoppar framgang fæðingarinnar og svo ástarhormónið oxitósín sem hleypir hríðunum af stað og færir barnið nær móðurinni.

Dögg bendir síðan á að þetta tvennt, óttinn og ástin, stjórni svo mörgu í samfélaginu og stuðli að eða stöðvi framgang. „Þetta er einhvern veginn svo góð áminning um þessar grunntilfinningar sem stýra okkur þannig að það má læra ansi margt af fæðingarferlinu.“

Ótti karla

Þegar rætt er um fæðingar og ótta verður vart hjá því komist að spyrja hvort hætta sé á að karlmenn fari á taugum yfir myndinni.

„Mér finnst karlmenn rosalega hræddir við þessa mynd. Pabbi minn ætlar sko ekki að fara á hana og bróðir hans ekki heldur,“ segir Dögg og bætir við að þetta sé svolítið áhugavert en hafandi verið viðstödd og horft á fæðingar skilji hún að einhverju leyti þennan karlmannlega ótta.

„Það er rosalega erfitt að horfa upp á einhvern erfiða svona mikið. Við viljum ekki segja að þetta sé þjáning því þetta er meira eins og maraþonhlaup. Það er ekki verið að meiða konuna þannig enda er hún í bara smá þrekraun.

Það er mjög erfitt fyrir karlmenn að horfa upp á það og gera ekki neitt í því þannig að ég vil bara hvetja karlmenn til að fara og bara dást að þessum konum.

Ég held það geti bara verið mjög hollt að láta reyna á það að sleppa takinu. Við erum líka alltaf að horfa á karlmenn fara í gegnum alls konar þrekraunir í bíó þannig að kannski er tími til að þeir komi í bíó og horfi á okkur vinna hetjudáð á hvíta tjaldinu.“