Þeir Arngrímur Egill Gunnarsson, Egill Airi Daníelsson, Ísak Örn Friðriksson og Tryggvi Þór Torfason, skipa einn þeirra fjögurra hópa sem taka þátt í nýsköpunarverkefninu Startup Árbær í Árbæjarskóla. Stjórnandi verkefnisins og kennari við skólann, Kristján Sturla Bjarnason, segir að hugmyndin að Startup Árbær hafi orðið til þegar hann vann í félagsmiðstöð fyrir nokkrum árum.

Hugmyndin löngu fædd

„Ég tek þetta verkefni svolítið með mér úr félagsmiðstöð. Við vorum þar með hópa sem voru með lítil fyrirtæki. Verkefni hópsins var að fá hugmynd og framkvæma hana,“ segir Kristján Sturla. „Ég fer að kenna í Árbæjarskóla og tek þessa hugmyndafræði með mér þangað yfir og bý til valgrein í skólanum sem heitir Startup Árbær.“

Hann segist leiða hópana í gegnum fyrirtækjaskref, þar sem búin er til viðskiptaáætlun, hún kynnt fyrir fjárfestum, „innan gæsalappa, sem eru í þessu tilfelli stjórnendur skólans.“

Því næst taki við markaðssetning, sem fari fram með hliðsjón af tegund fyrirtækisins, hvort um sé að ræða veitingastað, viðburðafyrirtæki eða fataframleiðanda.„Svo fara þau í mjög létta útgáfu af þessu fyrirtækjaferli. Þau hanna vöruna, kortgera fjárhagsáætlun og markaðssetja og selja,“ segir Kristján Sturla. „Það er gaman að virkja krakkana í stærri verkefnum, eins og félagsstarf er stundum. Maður kennir þeim helling í gegnum þetta. Fjármálafræðslu og lífsleikni.“

Vöfflur og veitingarekstur

Að sögn Kristjáns eru fjögur fyrirtæki í þessu verkefni. „Það er þetta peysufyrirtæki, svo eru strákar sem stofnuðu vöfflu-veitingastað og voru að selja vöfflur í tvo daga. Það var sett upp eins og veitingastaður,“ segir hann. „Svo voru stelpur að selja taupoka með Árbæjarskóla-lógóinu á. Svo verður síðasti hópurinn með betri-stofu. Svolítið eins og Saga Lounge á Keflavíkurflugvelli, þar sem hægt er að kaupa samlokur og djús og slaka á í einni kennslustofu í skólanum, svona klúbbur,“ segir Kristján Sturla.

Stofnendur Burners-fyrirtækisins, frá vinstri: Tryggvi Þór, Arngrímur Egill, Egill Airi og Ísak Örn.

Hafa alltaf haft áhuga á hönnun

„Við strákarnir höfum alltaf haft áhuga á fatagerð og tísku yfirhöfuð,“ segir Arngrímur Egill Gunnarsson, fimmtán ára frumkvöðull og einn stofnenda Burners-peysufyrirtækisins.

Hann segist hafa stokkið á tækifærið um leið og hann heyrði af Startup Árbær. Síðan hafi boltinn farið að rúlla.

„Það var einn strákur í hópnum sem kom með nafnið og svo fórum við að þróa hugmyndina. Bróðir stráks í fyrirtækinu er ógeðslega góður að teikna og er sjálfur með fatamerki, og teiknaði fyrir okkur merkin á peysurnar,“ segir Arngrímur Egill.

Gefa til góðgerðamála

Aðspurður hvort hópurinn hafi þekkst fyrir, svarar hann „Ég er nýkominn í skólann. Hinir þrír strákarnir hafa verið saman í skóla síðan þeir voru litlir, en ég er nýr í hópnum,“ segir hann. Strákarnir byrjuðu að selja hettupeysur undir merkjum Burners í febrúar og þegar þessi orð eru rituð eru 95 peysur seldar. Hópurinn hyggst gefa 150 þúsund krónur af hagnaðinum til góðgerðarmála.

Arngrímur Egill segist hiklaust ætla að halda áfram á sömu braut. „Mig langar að búa til fyrirtæki og gera eitthvað sjálfur, fyrir aðra. Ekki endilega fatagerð, en að reka fyrirtækið er það sem mig dreymir um að gera,“ segir hann. „Það er svo ógeðslega skemmtilegt ferli að framleiða og selja og sjá söluna koma inn.“

Afhenti peysur í eigin persónu

Hvað helstu áskoranir í ferlinu svarar Arngrímur Egill. „Þegar við byrjuðum hélt ég að þetta væri einfaldara. En fólk var að kaupa utan af landi, til dæmis úr Keflavík, og við þurftum að koma peysunum til skila, sem er erfiðara en maður heldur,“ segir hann. „En ég bjó í Keflavík áður en ég flutti hingað, þannig að ég fór bara sjálfur með allar peysurnar til Keflavíkur og afhenti þær.“

Aðspurður hvort að þetta hafi kveikt áhuga sem leiði af sér sérhæfingu seinna meir, svarar Arngrímur að svo sé. „Já, það eru tveir strákar í hópnum sem ætla á hönnunarbraut í framhaldsskóla og sérhæfa sig í þessu. Þeir ætla að fara og bara kunna að búa þetta til og hanna merki og gera þetta vel,“ segir hann brattur.