Netflix tilkynnti í gær hvenær næsta sería The Crown yrði frumsýnd en það er sú fimmta sem þau framleiða. Drottningin sjálf, Imelda Staunton, tilkynnti að hægt verði að horfa á seríuna alla þann 9. Nóvember.

Staunton tekur við hlutverki drottningarinnar af Olivu Colman sem lék hana í þriðju og fjórðu seríu. Í þeirri fimmtu þar sem áfram verður fjallað um drottninguna, fjölskyldu hennar og breskt samfélag.

Staunton er þó ekki sú eina nýja sem tekur við en Jonathan Pryce tekur við hlutverki Filippusar, Lesley Manville hlutverki Margrétar prinsessu, Dominic West sem Karl bretaprins, nú konungur, og Elizabeth Debicki sem Díana prinsessa. Þá mun sonur West taka að sér hlutverk Vilhjálms.

Tökur á sjöttu seríu hafa nú hafist að nýju eftir að hlé var tekið þegar tilkynnt var um andlát drottningarinnar. Peter Morgan, sem býr til þættina, tilkynnti um það samdægurs og sagði þættina ástarbréf til hennar og að hann myndi fresta tökum í virðingarskyni við hana.

Hér að neðan má sjá tilkynningu frá Netflix þar sem Staunton segist ánægð að taka við hlutverki Elísabetar og að hún muni reyna að uppfylla þann háa staðal sem hefur verið settur. Greint er frá á vef People.