Fimmta konan hefur nú stigið fram og sagt frá því að tón­listar­maðurinn Adam Levine hafi sent henni daður­leg skila­boð og sýnt henni mikinn á­huga á sam­fé­lags­miðlum fyrr á þessu ári.

Konan sem um ræðir, Ashley Rus­sell, heldur úti Insta­gram-síðu þar sem hún birtir meðal annars æfinga­mynd­bönd og myndir.

Fyrr í þessari viku steig fyrir­sætan Sumner Stroh fram og sagðist hafa átt í ástar­sam­bandi við tón­listar­manninn um tíma. Levine er kvæntur fyrir­sætunni Behati Prinsloo og eiga þau von á barni saman. Sagði Sumner að Levine hafi spurt hana hvort það væri í lagi hennar vegna að barnið yrði skírt í höfuðið á henni. Í kjöl­farið stigu fleiri konur fram og lýstu ýmsum sam­skiptum við Levine. Er Ashley sú fimmta til að gera það.

Ashley segir að Levine hafi meðal annars skoðað „Stories“ hjá henni á Insta­gram, líkað við myndir sem hún birti og sent henni skila­boð í nokkur skipti. Í sam­tali við Daily Mail sagði hún að um tíma hafi hann sent henni skila­boð á hverju kvöldi. Á þessum tíma var Ashley tví­tug en Levine 42 ára.

Ashley segist hafa svarað Levine, meðal annars til að sjá hvert sam­tal þeirra myndi leiða. Hann hafi þó hætt að senda henni skila­boð þegar hún sagði honum að einn daginn kæmist upp að hann væri að daðra við konur sem hann þekkti engin deili á.