„Það er von að þú spyrjir,“ segir Kristján B. Heiðarsson, formaður Fimmaurabrandarafjelagsins, aðspurður hvort fimmaurabrandarar séu gengisháðir.

„Þetta er alltaf skemmtilegt, en spurningin er stundum hvort þetta séu tveir aurar eða sjö.“

Þriðja bók félagsins var nýlega gefin út og er stútfull af vel völdum fimmaurabröndurum frá meðlimum þess.

En hvað er fimmaurabrandari og hvar liggja mörkin?

„Þessi spurning er eiginlega meira heimspekilegs eðlis,“ segir Kristján. „Ég hef oft skilgreint fimmaurabrandara þannig að hann sé svo slæmur að það sé eiginlega fyndnara að sjá ofnæmisviðbrögð fólks sem heyrir hann en brandarinn sjálfur. En fólk hefur skiptar skoðanir á þessu.“

Félagið var stofnað á Facebook árið 2013 og telur nú tæplega 26 þúsund meðlimi og segir Kristján að þeim fjölgi enn.

„Það bætast við tugir í hverjum mánuði,“ segir hann og bætir við að meðlimirnir séu á öllum aldri. „Þetta er allt frá gömlu ömmunum sem eru að prófa Facebook yfir í krakkana sem eru nýbúnir að fá að stofna aðgang.“

Húmorinn gerir gott

Samhliða útgáfu fyrstu bókarinnar styrkti Fimmaurabrandarafjelagið Krabbameinsfélag Íslands um 100 þúsund krónur og verður haldið í hefðina að styðja við gott málefni.

„Covid vandaði aðeins að styrk yrði úthlutað fyrir aðra bókina, en við stefnum á að gera það samhliða styrkveitingu fyrir nýju bókina,“ segir Kristján.

„Við höfum annars tekið þann pól í hæðina að allt sé þegar þrennt er svo það er allavega ekki á döfinni að gefa út fjórðu bókina í þessari ritröð. En það er auðvitað nóg eftir af bröndurum!“

Nokkrir vel valdir aurar:

Þegar Aðalbjörg svarar ekki í símann hringi ég í Varabjörgu.

Ég fékk mér bjór í gærkvöldi. Í morgun var hann búinn að naga alla girðinguna.

Ég borðaði einu sinni krakkamáltíð á McDonald's. Mamma krakkans varð alveg snarbrjáluð.

Frændi minn líftryggði sig fyrir tíu milljónir en það breytti engu. Hann dó samt.

Hvort er útrunnið eitur hættulegra eða hættuminna?