Eflaust dreymir marga um að eignast einbýlishús á Íslandi en það er þó ekki hlaupið að því að verða sér út um slíkt nú þegar fasteignaverð stendur í hæstu hæðum.

Ef vel er leitað má þó finna nokkur einbýlishús á landinu sem eru jafnvel ódýrari en lítil kjallaraíbúð á höfuðborgarsvæðinu.

Fréttablaðið tók saman fimm einbýlishús sem eru á markaðnum um þessar mundir og eru öll undir 30 milljónir króna.

Vesturgata 17 - Ólafsfirði

Húsið er fallega rautt og minnir helst á lítið jólahús.
Fréttablaðið/Fasteignasalan Torg

Við Vesturgötu 17 stendur rautt og sjarmerandi einbýlishús á Ólafsfirði. Húsið skiptist í tvö svefnherbergi, stofu, eldhús, baðherbergi og geymslu/þvottahús.

Eignin er föl fyrir 22,5 milljónir króna og er laust til afhendingar við undirritun kaupsamnings.

Húsið stendur hornlóð miðsvæðis í bænum.

Nánar má lesa um eignina á fasteignavef Fréttablaðsins.

Húsinu fylgir 364,1 fermetra eignarlóð og þessi myndarlegi geymsluskúr fylgir eigninni.
Fréttablaðið/Fasteignasalan Torg
Nóg af bílastæðum fyrir alla góða kagga.
Fréttablaðið/Fasteignasalan Torg

Suðurgata 32 - Siglufirði

Leiðrétting: Húsið er ekki til sölu - Það var keypt fyrir rúmu ári og hefur verið gert upp.

Þau gerast ekki meira sjarmerandi en þetta sinnepsgula einbýlishús.
Fréttablaðið/Fasteignasala Akureyrar

Við Suðurgötu 32 í Fjallabyggð á Siglufirði má finna þetta myndarlega sinnepsgula einbýlishús.

Húsið er 123,8 fermetrar að stærð á þremur hæðum með fallegu útsýni beint yfir höfnina á Siglufirði.

Jarðhæðin skiptist í forstofu, þvottahús, herbergi, baðherbergi og sjónvarpshol.

Fyrsta hæðin nýtist undir eldhús, snyrtingu, stofu og hjónaherbergi og á risinu má finna tvö herbergi og geymslur.

Ásett verð eignarinnar er 27,9 milljónir króna.

Eldhúsið er rúmgott og huggulegt í gamaldags stíl.
Fréttablaðið/Fasteignasala Akureyrar
Er eitthvað krúttlegra en veggfóður á veggjum?
Fréttablaðið/Fasteignasala Akureyrar
Á neðri hæðinni er svo sannarlega hægt að koma sér vel fyrir.
Fréttablaðið/Fasteignasala Akureyrar
Ætla má að hér sé gott að láta renna í heitt freyðibað eftir langan og erilsaman dag.
Fréttablaðið/Fasteignasala Akureyrar
Litagleði fyrir allan peninginn.
Fréttablaðið/Fasteignasala Akureyrar

Öldugata 11 - Flateyri

Lúpínuhimnaríki myndu sumir eflaust segja.
Fréttablaðið/Dixon fasteignasala

Við Öldugötu 11 á Flateyri má finna dásamlega krúttlegt 160,4 fermetra einbýlishús á tveimur hæðum.

Húsið stendur niður við sjó og tilheyrir Öldugötu, sennilega ekki af tilviljuninni einni saman, en stendur í raun við Brimnesveg. Frá húsinu má sjá fallegt útsýni út á fjörð.

Búið er að endurnýja eignina að stórum hluta og geta væntanlegir kaupendur gert hana alveg að sinni.

Eignin er á tveimur hæðum og skiptist í fjögur herbergi, þar af þrjú svefnherbergi.

Ásett verð er 20,9 milljónir króna.

Nánast má lesa um eignina á fasteignavef Fréttablaðsins.

Útsýni með einbýlishúsi á 20,9 milljónir króna - gjöf en ekki gjald.
Fréttablaðið/Dixon fasteignasala
Nýir kaupendur geta gert húsið að sínu.
Fréttablaðið/Dixon fasteignasala
Falleg birta skín í gegnum húsið.
Fréttablaðið/Dixon fasteignasala

Eyrarbraut 33 - Stokkseyri

Húsið er yfir 100 ára gamalt og hefur náð þeim merka áfanga að vera á lista yfir friðuð hús. Líklegt þykir að þarna ríki friður og ró allan ársins hring.
Fréttablaðið/

Við Eyrarbraut 33 á Stokkseyri má finna hvítt einbýlishús sem er 66,6 fermetrar að stærð.

Húsið heitir Laufás, byggt 1920 og er timburhús með risi og steyptum kjallara. Bárujárnsklætt að utan.

Eignin skiptist þrjú herbergi, þar af tvö svefnherbergi.

Eignin er föl fyrir 28,9 milljónir króna en húsið er yfir 100 ára gamalt og hefur náð þeim merka áfanga að vera á lista yfir friðuð hús.

Nánar má lesa um eignina á fasteignavef Fréttablaðsins.

Hér er eflaust hægt að elda hollar og góðar máltíðir.
Fréttablaðið/Bær Fasteignasala
Rúmgott svefnherbergi þar sem notalegt er að leggjast til hvílu.
Fréttablaðið/Bær Fasteignasala
Gott bað getur gert kraftaverk.
Fréttablaðið/Bær Fasteignasala
Í stofunni er hægt að koma sér vel fyrir og eiga notalega stund.
Fréttablaðið/Bær Fasteignasala

Lindargata 22b - Siglufirði

Húsið er skráð sem einbýli á fasteignavef Fréttablaðsins þrátt fyrir að um parhús sé að ræða.
Fréttablaðið/Hvammur eignamiðlun

Við Lindargötu 22b má finna skemmtilegt fjögurra til fimm herbergja 119,4 fermetra parhús.

Eignin er flokkuð sem einbýlishús á fasteignavef Fréttablaðsins en er í raun parhús.

Húsið skiptist í kjallara, hæð og ris og skráð sex herbergja, þar af fjögur svefnherbergi.

Þetta fallega timburhús er falt fyrir 22,9 milljónir króna og hefur verið klætt og einangrað að utan.

Nánar má lesa um eignina á fasteignavef Fréttablaðsins.

Eldhúsið er opið og rúmgott.
Fréttablaðið/Hvammur eignamiðlun
Fallegur gluggi í stofunni.
Fréttablaðið/Hvammur eignamiðlun
Stiginn er ansi skemmtilegur.
Fréttablaðið/Hvammur eignamiðlun
Drauma svefnherbergi, hér er eflaust gott að vakna.
Fréttablaðið/Hvammur eignamiðlun
Fallegt útsýni á skrifstofunni.
Fréttablaðið/Hvammur eignamiðlun