Ótrúleg eftirvænting er fyrir morgundeginum en þá ætlar sænska hljómsveitin Abba að gefa út fimm ný lög. Þetta verða fyrstu fersku Abba tónarnir í 39 ár.

Abba setti á laggirnar vefsíðuna Abba Voyage þar sem aðdáendur geta skráð sig fyrir komandi tíðindum. BBC greinir frá því að trúlega sé þetta svokallaður hologram tónleiktúr og fimm ný lög.

Þau Agnetha Faltskog, Anna-Frid Lyngstad, Bjorn Ulvaeus og Benny Andersson fóru í stúdíó árið 2018 til að vinna saman og lofuðu tveimur lögum, I Still Have Faith In You og Don't Shut Me Down en þeim hefur ítrekað verið seinkað. Nú eru lögin orðin fimm og samkvæmt BBC er það til að þakka fyrir þolinmæðina.

Abba var stofnað árið 1972 og eftir að hafa unnið Eurovision með hinu ódauðlega lagi Waterloo tveimur árum síðar hefur hljómsveitin selt 400 milljónir eintaka af plötum. Þá á eftir að tala um söngleikinn Mamma Mia! og bíómyndina sem ber sama nafn.

Þau fóru síðast í stúdíó árið 1982 og komu síðast fram saman 1985 þegar þau heiðruðu Stig Anderson.