Snjalltæknin eirir engu og ryðst að sjálfsögðu inn á baðherbergið rétt eins og aðrar vistarverur heimilisins. Nú til dags eru margir farnir að uppfæra baðherbergin sín með hátækniklósettum, snertilausum krönum og öðrum geimaldarnýjungum. Hér eru fimm spennandi nýjungar sem mætti hafa í huga næst þegar baðherbergið er gert upp.

Snertilaus krani

Við höfum líklega flest kynnst snertilausum krönum á almenningsklósettum, en það er farið nýta þá á heimilum líka. Kranarnir nota hreyfiskynjara til að nema handahreyfingar, svo það er nóg að veifa hendinni undir krananum til að setja hann í gang, sem er bæði þægilegt og þrifalegt. Sumir kranar hafa jafnvel innbyggða handþurrkara og aðra er hægt að forrita til að stilla hitastig og vatnsþrýsting.

Sjónvarp í baðskápnum

Það eru til verri leiðir til að drepa tímann en að liggja í baði og horfa á sjónvarp, en ef maður vill nota símann er hætt við að hann blotni. Sem betur fer gerir ný tækni það mögulegt að setja LCD-skjá í baðherbergisskápinn. Það er líka hægt að láta slíka skápa spila tónlist og mörgum finnst gaman að geta sungið með í sturtunni.

Forritanleg sturta

Nýjustu og flottustu sturturnar hafa stafræn stjórntæki og það er hægt að stilla hitastig og vatnsþrýsting með fjarstýringu. Það er líka hægt að vista uppáhalds stillinguna sína og setja hana svo í gang áður en farið er inn í sturtuna, þannig að hægt sé að stíga beint inn í akkúrat passlega sturtu.

Hátækniklósett

Það eru ýmsar gerðir af hátækniklósettum í boði. Það er hægt að fá klósett sem eru með hreyfiskynjara til að vita hvenær á að lyfta lokinu og setunni, hitaðar setur, lykteyðandi kerfi, þráðlausa fjarstýringu, hátalarakerfi með dokku og kerfi til að hita tærnar. Þeir sem vilja setja upp hátækniklósett heima hjá sér þurfa því að velja vel því margar skemmtilegar nýjungar eru í boði.

Baðkar með hljóðkerfi

Nýjustu og flottustu baðkörin bjóða að sjálfsögðu líka upp á magnaða nýja möguleika. Það er hægt að fá baðkör með nuddkerfum, LED-fossum, innbyggðum sjónvörpum og Bluetooth-tengimöguleikum til að hlusta á tónlist. Það er svo líka hægt að bæta við alls konar aukahlutum sem geta gert baðherbergið mun nútímalegra án þess að það kosti stórkostlegar framkvæmdir. Fólki er auðvitað í sjálfsvald sett að meta hvaða græjur geti gert lífið sem þægilegast.