Fimm efstu eru i stafrófsröð þær Edda Konráðsdóttir ein af stofnendum Iceland Innovation Week, Grace Achieng stofnandi og eigandi Gracelandic, Inga Tinna Sigurðardóttir hugmyndasmiður Dineout, Laufey Lín Jónsdóttir tónlistarkona og Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé eigandi og stofnandi Empower sem skipa fimm efstu sætin í flokki FKA Hvatningarviðurkenningar 2023.

Hvatningarviðurkenning FKA er veitt konu í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði eða nýjungar. Félag kvenna í atvinnulífinu FKA þakkar almenningi og atvinnulífinu fyrir tilnefningarnar sem bárust í ár í öllum flokkum og dómnefnd hefur metið. Þær konur sem hafa verið heiðraðar í gegnum árin á hátíðinni hafa fundið á eigin skinni hvernig Viðurkenning FKA verður hreyfiafl í lífi þeirra í stóru og smáu. Aðgengi að fjármagni má nefna í þessu sambandi sem og sýnileika fyrir hlutaðeigandi sem skiptir máli í flugtaki nýrra hugmynda. Það er kjarkur, þor, kraftur og úthald sem einkennir konurnar sem hér eru nefndar þegar við birtum annað árið í röð lista yfir yfir fimm efstu, að mati dómnefndar, í flokki Hvatningarviðurkenningar FKA.

Takk fyrir að ryðja brautir, vera góðar fyrirmyndir og gangi ykkur öllum sem best!

Edda Konráðsdóttir / sérfræðingur nýsköpunarsamfélagsins og stofnandi Iceland Innovation Week

Edda hefur starfað innan íslenska nýsköpunarsamfélagsins í nokkur ár, hefur stýrt frumkvöðlakeppninni Gullegginu, skipuleggur ferðir fyrir íslensk startup fyrirtæki til dæmis í Kísildalinn, hefur verið að kenna nýsköpunarnám við Listaháskóla Íslands, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Hún starfar í dag hjá Foobar, fjárfestingasjóði með fókus á loftslagsmál. Edda hefur stýrt mörgum alþjóðlegum nýsköpunarverkefnum, er einnig meðstofnandi Iceland Innovation Week, rekur eigið ráðgjafafyrirtæki með áherslu á viðskiptaþróun fyrir frumkvöðla og listamenn og var hjá Icelandic Startups um tíma þar sem hún vann náið með frumkvöðlum og fjárfestum.

Grace.Achieng.

Grace Achieng / stofnandi og eigandi Gracelandic

Grace Achieng er fædd og uppalin í Kenýa og þegar hún flutti til Íslands vildi hún starfa við tískugeirann en fékk hvergi slíka vinnu. Hún gerði sér þá litið fyrir og keypti sér saumavél, efni, lærði að sníða og byrjaði að sauma og hanna og rekur nú tískumerkið Gracelandic sem hefur ratað í breska Vogue. Grace hefur orðið mikil fyrirmynd fyrir konur af erlendum uppruna, fyrir allar konur á Íslandi og vakið athygli fyrir hönnun sína meðal annars þegar Eliza Reid forsetafrú klæddist fatnaði úr hennar smiðju þegar Friðrik krónprins Danmerkur mætti á Bessastaði og þannig mætti lengi telja.

Inga Tinna Sigurðardóttir.

Inga Tinna Sigurðardóttir / hugmyndasmiður Dineout

Inga Tinna er meðal annars hugmyndasmiðurinn að Dineout sem ruddi gormabókum, Excel og tölvupóstum út í veitingageiranum með borðabókunarkerfi sem hefur stökkbreyst í hugbúnaðarhús sem byggðist upp í takt við þörf á markaði og stækkað hratt. Hún hefur heldur betur sótt í sig veðrið og er í dag með miklu meira en hugbúnað fyrir veitingastaði, komin í útrás og virðist njóta sín vel í umhverfi sem breytist jafnvel á einni nóttu. Mögnuð vegferð þar sem hún byrjar með autt blað en stýrir hugbúnaðarfyrirtæki sem stækkar ört og tekið er eftir.

Laufey Lin.

Laufey Lín Jónsdóttir / listakona og djass söngkona

Laufey Lín hefur náð mjög langt á sínum tónlistarferli og er hvatning fyrir aðrar ungar konur til að þróa sinn einstaka stíl og vera samkvæmar sjálfri sér. Hún byrjaði að spila á píanó þegar hún var fjögurra ára og á selló einhverju síðar fór svo að syngja mjög ung. Hún útskrifaðist frá Berklee College of Music 2021, er með nokkur hundruð fylgjanda á miðlum og komst á topplista Spotify. Sinfóníuhljómsveit Íslands og plánetan jörð er hennar leikvöllur enda búið að vera magnað að fylgjast með henni skjótast uppá stjörnuhimininn með einlægni. Platan Everything I Know About Love heyrist víða og hefur hún flutt tónlist sína í spjallþætti Jimmy Kimmel og hjá okkar eina sanna Gísla Marteini.

Þórey Vilhjálmsdóttir.

Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé / stofnandi, framkvæmdastjóri og meðeigandi Empower

Þórey hefur lengi verið fyrirmynd annarra kvenna og verið með persónulegan stíl með mikinn drifkraft. Hún stofnaði fyrirtækið EMPOWER sem selur lausnir á sviði jafnréttis, sérhæfir sig í jafnrétti og fjölbreytni á vinnustöðum og hefur starfað með leiðandi fyrirtækjum og stofnunum. Hugbúnaðarlausnin Empower NOW gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að ná yfirsýn yfir stöðu jafnréttismála, setja sér mælanleg markmið og fræða starfsfólk í gegnum stafrænar leiðir sem eru góðar fréttir. Það er gríðarleg eftirspurn eftir lausnum er varða jafnrétti og fjölbreytni og Empower stefnir að því að verða leiðandi á þeim markaði. Fyrirtækið er stofnað af konum og rekið af konum og virkilega ánægjulegt að sjá nýsköpunarfyrirtækið Empower springa út.