Það er misjafnlega mikill metnaður á bak við nýjar byggingar um víða veröld en þær allra stærstu og fínustu eru ótrúleg afrek í byggingarverkfræði og hönnun og kosta drjúgan skildinginn.

Abraj Al Bait – 15 milljarðar dollara

Þetta hótel í borginni Mekka í Sádi-Arabíu var byggt árið 2012. Það er 601 metra hátt og er bæði hæsta hótel í heimi og dýrasta bygging veraldar. Hótelið er 1,5 milljón fermetrar og getur tekið á móti 100 þúsund manns. Turninn skartar heimsins stærstu klukku, en hún er í 530 metra hæð og er 43 metrar að þvermáli. Sagt er að hún sé sjáanleg úr 30 kílómetra fjarlægð. Á toppnum hvílir gullinn hálfmáni sem er 23 metra hár.

Marina Bay Sands samanstendur af þremur 55 hæða turnum sem eru tengdir saman. mynd/WIKIPEDIA

Marina Bay Sands – 5,5 milljarðar dollara

Þetta er ferðamannastaður og spilavíti í Singapúr sem var byggt árið 2010. Byggingin samanstendur af þremur 55 hæða turnum sem eru tengdir saman og situr á svæði sem er 154 þúsund fermetrar. Allur arkitektúr og hönnun staðarins var samþykkt af feng shui-ráðgjöfum.

Höfuðstöðvar Apple eru kallaðar „The Spaceship“ eða „Geimskipið“. Um áttatíu prósent af flatarmálinu eru þakin grænum svæðum. mynd/WIKIPEDIA

Apple Park – 5 milljarðar dollara

Höfuðstöðvar Apple í Cupertino í Bandaríkjunum voru byggðar árið 2017. Vegna hringlaga hönnunar og stærðar byggingarinnar er hún kölluð „The Spaceship“ eða „Geimskipið“. Byggingin situr á 708 þúsund fermetra landareign í úthverfi Cupertino-borgar og hýsir yfir 12 þúsund starfsmenn í fjögurra hæða byggingu sem er um 260 þúsund fermetrar. Um áttatíu prósent af flatarmálinu eru þakin grænum svæðum og það er tjörn í miðju hringsins.

Á Resorts World Sentosa er meðal annars stærsti sædýragarður heims. mynd/WIKIPEDIA

Resorts World Sentosa – 4,93 milljarðar dollara

Þessi ferðamannastaður í Singapúr var byggður árið 2009 og samanstendur af hótelum, spilavíti og býður upp á ýmiss konar skemmtun, eins og til dæmis skemmtigarð frá Universal Studios. Þar er líka sædýragarður sem er 81 þúsund fermetrar að stærð og sá stærsti sinnar tegundar í heiminum, en í garðinum eru hægt að sjá meira en 100 þúsund dýr sem tilheyra meira en 800 tegundum.

Wynn Palace – 4,2 milljarðar dollara

Þessi ferðamannastaður í borginni Cotai á sjálfsstjórnarsvæðinu Makaó var byggður árið 2016. Það eru 28 hæðir og 1.706 lúxusherbergi með sérlega vönduðum húsgögnum, fjölbreytt fundaraðstaða, yfir 9.800 fermetrar af lúxus verslunarsvæði, 11 veitingastaðir, stærsta spa í Makaó, snyrtistofa, sundlaug og um 39 þúsund fermetra spilavíti. Þar er líka mikið framboð afþreyingar, meðal annars 32 þúsund fermetra sýningarvatn sem sýnir samstilltan dans vatns, tónlistar og ljóss og margt fleira.

Árlega koma þúsundir múslima í pílagrímsferð til Masjid Al Haram, stærstu mosku heims. nordicphotos/GETTY

Masjid Al Haram – 10,6 milljarða stækkun

Svo er eiginlega nauðsynlegt að nefna Masjid Al Haram moskuna í Mekka í Sádi-Arabíu. Hún var byggð árið 638 og ekki er vitað hver kostnaðurinn við byggingu hennar var, en hún var stækkuð árið 2008 fyrir 10,6 milljarða Bandaríkjadollara. Þessi moska hvílir á heilagasta stað í heimi samkvæmt Íslam og þangað koma árlega þúsundir múslima í pílagrímsferð. Moskan er sú stærsta í heimi og næststærsta bygging veraldar, á eftir Boeing-verksmiðjunni í Everett í Bandaríkjunum.