Vogue Scandinavia hefur nýlega birt lista af fimm bestu hárgreiðslustofum Reykjavíkur. Áheimasíðu tímaritisins eru eftirfarandi staðir sagðir sérlega heppilegir til þess að falla í kramið meðal heimamanna og ná fram því „eftirsótta mínímalíska og afslappaða útliti sem einnig ber keim af alþýðleika“ sem tímaritið telur einkenna Íslendinga.

Á fyrsta sæti listans trónir hárgreiðslustofan Hár Tékk sem staðsett er á Óðinsgötu 2 í miðbæ Reykjavíkur. Á vef Vogue segir að stofan hafi verið stofnuð árið 2020 af Tómás Palát og Tómas Odd Eiríkssyni. Þar sé notast við nútímalegar aðferðir og tísku, ásamt heildrænni nálgun í hárgreiðslu. Fyrir vikið tekst hæfileikaríku teymi Hár Tékk að skapa tískulegar og í senn tilgerðarlausar klippingar.

Í öðru sæti situr hárgreiðslustofan Blondie. Fyrsta stofan var opnuð árið 2016 af fjórum ástríðufullum hárgreiðslumeisturum. Í dag eru stofunar orðnar fjórar, í Síðumúla 35, Síðumúla 13, Garðatorgi 4c og Skólavörðustíg 8. Starfsfólk og eigendur eru sögð fylgjast náið með nýjustu stefnum og staumum í greininni. Gestir Blondie geti átt von á góðu andrúmslofti og óaðfinnanlegri ráðgjöf.

Kompaníið Hárstúdíó lendir í þriðja sæti. Stofan var stofnuð árið 1991 og er í dag rekinn af Elvari Loga, hann hóf ferilinnn sem lærlingur á stofunni fyrir aldamót. Þar á bæ er lagt kapp við að veita kúnnum þjónustu í hæsta gæðaflokki. Stílista teymið þar tekur vel á móti viðskiptavinum sínum og hlustar náið á óskir þeirra. Stofan er til húsa á Smáratorgi 3 (Turninn) í Kópavogi.

Kompaníið Hárstúdíó er í þriðja sæti
Fréttablaðið/Vilhelm

Rakarastofa Ragnars og Harðar við Vesturgötu 48 situr í fjórða sæti listans. Stofan er orðin vel þekkt stofnun meðal Reykvíkinga. Starfsemin spannar þrjár kynslóðir og býður upp á gæða rakstur og klippingar fyrir herramenn. Vogue segir ennfremur að retró innrétting stofunnar færir gesti aftur til liðins tíma á meðan þeir njóti lúxus þjónustunar sem Rakarastofan býður upp á.

Í fimmta sæti er síðan hárgreiðslustofan Barbarella, staðsett á Suðurgötu 7 rétt hjá ráðhúsinu. Vogue hefur eftir eiganda stofunar Hugrúnu Harðasdóttur að hún hafi vilja fanga rokk og ról stemminguna við hönnun stofunnar. Þeim virðist hafa tekist vel til og skapa þetta tiltekna andrúmsloft og bjóða í senn upp á framúrskarandi þjónustu og vandaðar klippingar.

Rakarastofa Ragnars og Harðar er í fjórða sæti
Fréttablaðið/Ernir