Skýringamynd sem sýnir þjófnað Vincenzo Peruggia á Mónu Lísu.

Þjóðrækni þjófurinn

Móna Lísa eftir Leonardo da Vinci er sennilega þekktasta málverk listasögunnar. Svo hefur þó ekki alltaf verið og eitt atvik átti stóran þátt í að hún varð heimsfræg. Að morgni dags 21. ágúst árið 1911 gekk ítalski iðnaðarmaðurinn Vincenzo Peruggia inn í Louvre listasafnið, hvar hann hafði áður starfað, og fjarlægði Mónu Lísu í rólegheitum af veggnum. Málið varð að alþjóðlegu hneyksli og leitað var að verkinu í rúm tvö ár án árangurs.

Peruggia geymdi verkið í kústaskáp í íbúð sinni í París en smyglaði því síðar til Flórens á Ítalíu. Hann var gómaður og Móna Lísa endurheimt árið 1913 þegar hann reyndi að selja verkið. Peruggia afplánaði aðeins sjö mánaða fangelsisdóm og var hylltur sem þjóðhetja af mörgum löndum sínum en hann sagðist hafa viljað skila verkinu aftur til heimalandsins.

Tómir rammar á Isabella Stewart Gardner listasafninu í Boston þar sem verk Vermeer og Rembrandts héngu áður.
Fréttablaðið/Getty

Bófarnir í Boston

Árla morguns 18. mars 1990 brutust ræningjar inn í Isabella Stewart Gardner listasafnið í Boston, yfirbuguðu öryggisverði og höfðu með sér ómetanlegt þýfi. Samtals þrettán verkum var stolið, þar á meðal málverkinu Tónleikarnir eftir Johannes Vermeer, eitt af aðeins 34 verkum sem eru þekkt eftir hollenska meistarann, málverkinu Stormur á Galílíeuvatni eftir Rembrandt, eina málverkið af hafinu sem hann málaði, auk verka eftir Édouard Manet og Edgar Degas.

Ránið er enn óupplýst og ekkert er vitað um afdrif verkanna sem eru samtals metin á um 500 milljónir Bandaríkjadala, rúma 65 milljarða íslenskra króna, sem gerir þetta að einum dýrasta listaverkaþjófnaði sögunnar.

Tónleikarnir eftir Johannes Vermeer er talið vera dýrasta týnda málverk sögunnar og er metið á rúma 32 milljarða íslenskra króna.
Fréttablaðið/Getty

Listhneigði köngulóarmaðurinn

Þegar fimm verkum eftir meistara módernismans var stolið úr listasafninu Musée d’Art Moderne í París árið 2010 þótti ránið svo meistaralega gert að þjófurinn fékk viðurnefnið Köngulóarmaðurinn í frönsku pressunni. Í raun heitir maðurinn Vjeran Tomic og tókst honum að stela fimm meistaraverkum eftir Henri Matisse, Amedeo Modigliani, Fernand Léger, Pablo Picasso og Georges Braque. Verkin eru metin á rúma 100 milljón Bandaríkjadali, andvirði tæpra 14 milljarða íslenskra króna, en ekkert hefur spurst til þeirra í rúman áratug. Tomic var handtekinn 2011 og afplánar nú átta ára fangelsisdóm.

Kona með blævæng eftir Amedeo Modigliani frá 1919 var meðal þeirra verka sem Köngulóarmaðurinn hnuplaði árið 2010.
Mynd/Wikipedia

Þökkuðu fyrir lélega öryggisgæslu

Þann 1. febrúar 1994, á sama tíma og Noregur hýsti vetrarólympíuleikana í Lillehammer, var málverkinu Ópið eftir Edvard Munch frá 1893 stolið úr norska ríkislistasafninu í Osló. Verkinu hafði verið komið fyrir á fyrstu hæð safnsins vegna yfirlitssýningar á verkum Munchs þar sem öryggisgæsla var minni en á 2. hæð, hvar verkið hafði áður verið. Þjófarnir notfærðu sér þennan veikleika og skildu eftir skilaboð: „Þúsund þakkir fyrir lélega öryggisgæslu!“ Norskur öfgahópur sem barðist gegn þungunarrofi lýsti yfir ábyrgð og krafðist hás lausnargjalds. Lögregla tók það þó ekki trúanlegt og eftir ítarlega rannsókn fannst verkið á hóltelherbergi í litlu sjávarplássi í nágrenni Óslóar nokkrum mánuðum síðar. Fjórir menn voru fundnir sekir og dæmdir í fangelsi fyrir ránið árið 1996.

Ópið er sennilega frægasta málverk heims á eftir Mónu Lísu en útgáfa verksins var seld á uppboði fyrir 120 milljónir Bandaríkjadala árið 2012.

Dýrasta málverk Íslands

Í apríl 1964 var brotist inn á heimili skipamiðlarans Gunnars Guðjónssonar að Smáragötu 7 í Reykjavík og forláta málverki eftir franska listamanninn Édouard Manet stolið. Verkið var þá talið vera verðmætasta listaverk á Íslandi og var fjallað um málið í öllum helstu fjölmiðlum landsins þess tíma.

Um var að ræða litla konumynd sem Gunnar hafði að eigin sögn keypt fyrir „svimandi háa upphæð“ í Hamborg 1947. Þjófurinn braust inn um glugga á kjallara heimilis Gunnars sem var þá staddur erlendis og virtist ekki hafa stolið neinu öðru. Þegar rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu bar engan árangur var málið sent til alþjóðalögreglunnar Interpol en ránið er enn óupplýst nærri sextíu árum síðar.

Verkið eftir Manet var talið vera verðmætasta málverk á Íslandi á sínum tíma. Svarthvít mynd af því birtist á forsíðu tímaritsins Líf og list árið 1951.
Mynd/Tímarit.is