Alexander Óðinn Knudsen er 18 ára nemandi í vélaverkfræði við Háskóla Íslands. Utan þess spilar hann körfubolta með meistaraflokki KR og U18 ára landsliðinu.

„Helstu áhugamál mín eru körfubolti, föt og skór og svo er ég með áhuga á frumkvöðlafræðum og væri til í að gera eitthvað í þeim dúr eftir að körfuboltaferlinum lýkur. Planið í vetur er að vera á fullu í körfunni og æfa og lyfta mikið því ég er aðeins í 60 prósent námi í HÍ.“

Alexander Óðinn sýnir lesendum inn í fataskápinn og svarar nokkrum spurningum.

Hvernig hefur tískuáhugi þinn þróast undanfarin ár?

Hann hefur þróast en samt ekki gjörbreyst. Eina stóra breytingin er að „skinny jeans“ eru bannaðar. Einnig hef ég lært betur á tísku, hvernig föt fara saman og hvaða flík fer með hverju. Á endanum klæðist ég auðvitað þeim fötum sem ég vil. Auðvitað fylgir maður því sem er í tísku en ég hef alltaf verið þannig að ég kaupi og klæðist fötum sem mér finnst flott. Ef ég sé eitthvað flippað og eitthvað sem ég laðast að þá klæðist ég því, sama hvað öðrum finnst.

Hvernig fylgist þú helst með tískunni?

Ég fylgist frekar ómeðvitað með tískunni og hangi til dæmis ekki á tískusíðum til að skoða sérstaklega hvað er í tísku. En auðvitað sé ég flottu fötin sem allar stjörnurnar eru í og hvernig föt eru á vefsíðunum núna hjá flottu merkjunum.

Hvar kaupir þú helst fötin þín?

Helst í útlöndum. Ég reyni að forðast að senda föt til landsins vegna aukakostnaðar. Ef ég sé eitthvað rosalega flott á netinu er ég samt alveg tilbúinn í að eyða smá aukalega.

Hvaða litir eru í uppáhaldi?

Það eru helst svört og hvít föt sem eru mjög einfaldir litir sem fara með öllu. En ef ég vil bæta einhverjum alvöru litum í „outfittið“ koma eiginlega flestir litir til greina, fer bara eftir klæðnaði og hvernig skapi ég er í.

Hér klæðist Alexander grárri Nike x Drake hettupeysu sem hann keypti á stockx. com.

Áttu minningar um gömul tískuslys?

Á fyrstu dögunum í fyrsta bekk mætti ég í röndóttum Polarn O. Pyret náttfötum í skólann. Ég var spurður nokkrum sinnum yfir daginn hvort það væri náttfatadagur eða hverju ég væri í en það truflaði mig ekkert því ég klæddist þessu með sjálfstrausti.

Hvaða þekkti einstaklingur er svalur þegar kemur að tísku?

Minn maður Drake er alltaf virkilega svalur, hvort sem það eru skórnir, peysurnar, jakkarnir eða buxurnar. Hann virðist bara ná að púlla allt. Svo er það NBA-leikmaðurinn Shai Gilgeous-Alexander sem er mjög flottur enda nýlega valinn sá leikmaður sem er með flottasta fatastílinn í NBA-deildinni.

Hvaða flíkur hefur þú átt lengst og notar enn?

Það eru Jordan 12 „flu game“ skórnir mínir. Ég keypti þá sumarið 2016 þegar ég var nýorðinn þrettán ára og hef átt þá síðan og klæðist þeim enn.

Áttu uppáhaldsverslanir?

Nike er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég kaupi meirihluta íþróttafata minna þar. Svo eru það tískuverslanir eins og Stone Island, Palm Angels, Comme des Garçons og fullt fleiri. Ég kaupi samt ekki bara dýrar tískuflíkur heldur nota ég „steal and splurge“ aðferðina. Þá kaupi ég eina flík sem er í dýrari kantinum og svo eru næstu flíkur ódýrari. Hérlendis er uppáhaldsbúðin auðvitað Húrra Reykjavík. Sú búð klikkar aldrei og þar eru alltaf til flott föt.

Áttu eina uppáhaldsflík?

Uppáhaldsflíkin mín er Moncler-úlpan sem ég eignaðist fyrir þremur árum. Hún bregst mér aldrei þegar það er kalt úti og er hverrar krónu virði. Geggjuð flík.

Stone Island-peysa sem hann keypti í Húrra Reykjavík.

Bestu og verstu fatakaupin?

Bestu kaupin mín eru líklega úlpan mín og svo Stone Island-jakkinn sem heldur mér alltaf þurrum í þessu týpíska íslenska blauta veðri.

Verstu kaupin eru líklega gular gallabuxur með Hawaii-blómamynstri sem voru keyptar í algjöru flippi.

Notar þú fylgihluti?

Eina sem ég nota eru eyrnalokkar.

Eyðir þú miklum peningum í föt miðað við jafnaldra þína?

Ég reyni að eyða innan skynsemismarka en miðað við vini mína þá eyði ég örugglega slatta í föt, samt ekkert klikkað mikið.