Fólk

Fetar í fótspor móður sinnar í Miss World

Erla Alexandra Ólafsdóttir er 24 ára laganemi. Hún tekur þátt í Miss World-keppninni í Sanya í Kína þann 9. desember. Erla tók þátt í Fegurðarsamkeppni Íslands 2015.

Erla Alexandra Ólafsdóttir er verðugur fulltrúi Íslands á Miss World 2018 sem fram fer í Kína. Fréttablaðið/Anton Brink

Erla segist vera mjög spennt fyrir keppninni. Hún heldur til Kína í byrjun nóvember og mun njóta lífsins með öðrum keppendum í heilan mánuð. Sanya er afar falleg eyja með undursamlegum ströndum, sannkölluð paradís sem oft er nefnd hin kínverska Hawaii. „Mér var boðið að taka þátt í keppninni og fannst það mjög spennandi. Mig hefur alltaf langað til að taka þátt í svona keppni. Ég hef ekki komið til Kína áður en hef komið til Bangkok í Taílandi. Þetta verður því skemmtileg upplifun,“ segir Erla sem er að bíða eftir dagskránni frá Miss World en hún fer þarna út með óvenju stuttum fyrirvara. Venjulega hafa stúlkurnar haft langan tíma til undirbúnings.

Linda Pétursdóttir sem hreppti titilinn Miss World fyrir nákvæmlega 30 árum hefur nú tekið við stjórn keppninnar hér á landi. Það var hún sem valdi Erlu til fararinnar og var það hennar fyrsta verk fyrir keppnina. Svo skemmtilega vill til að móðir Erlu, Guðrún Möller, fyrrverandi ungfrú Ísland, tók einnig þátt í Miss World en það var árið 1982. „Ég hef alltaf fylgst vel með þessari keppni og verið áhugasöm um hana þar sem móðir mín tók þátt í henni,“ segir Erla.

Móðir Erlu, Guðrún Möller, tók þátt í Miss World árið 1982 og Erla hefur lengi fylgst með keppninni. Fréttablaðið/Anton Brink

Hún segir að á þessum mánuði sem stúlkurnar verða í Sanya verði margt um að vera. „Það verða alls kyns viðburðir og uppákomur,“ segir hún. „Sjálf hef ég alltaf haft mikinn áhuga fyrir tísku og fegurð. Þegar ég var barn sat móðir mín í dómnefnd fegurðarsamkeppninnar og ég var alltaf að skottast í kringum hana. Ég leit mjög upp til allra þessara flottu þátttakenda. Það má því segja að ég hafi alltaf haft áhuga fyrir keppninni. Ég er þegar búin að kaupa kjólinn sem ég ætla að vera í á lokakvöldinu,“ segir Erla.

Hún segist alltaf hafa hugsað vel um líkamann og heilsuna. „Í Miss World er þó helst verið að leita eftir hæfileikum og að viðkomandi geti verið góður fulltrúi keppninnar. Í Miss World-keppninni er fyrst og fremst lögð áhersla á góðgerðarstörf. Til dæmis hafa samtökin „Beauty with a purpose“ sem Julia Morley, eigandi Miss World, stofnaði árið 1972, safnað yfir einum milljarði sterlingspunda og styrkt bágstödd börn um allan heim.“

Erla Alexandra hlakkar mikið til ferðarinnar til Kína en þangað hefur hún ekki komið áður. Keppnin hefur átta sinnum verið haldin þar. Mynd/Einkasafn

Erla segir að helsta áhugamál sitt þegar hún var yngri hafi verið hestamennska. „Fjölskyldan átti nokkra hesta sem við þurftum síðan að selja þegar við fluttum til Arizona í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum. Faðir minn fór í nám og ég fór í gagnfræðaskóla (high school) þar. Það var æðislegur tími og ég kynntist mörgu góðu fólki sem ég held enn sambandi við. Það víkkaði mikið sjóndeildarhringinn að fara í skóla í Bandaríkjunum,“ segir Erla sem lagði síðan land undir fót árið 2015 og fór til Afríku með vinkonu sinni til að stunda hjálparstarf.

„Eftir að ég lauk menntaskóla fór ég að vinna á leikskóla og fannst það mjög gefandi starf. Í framhaldi fór ég að vinna á skólum og á heimilum fyrir munaðarlaus börn í Afríku. Það var lífsreynsla sem mótaði mann til frambúðar. Ég fékk eiginlega menningarsjokk að sjá alla þá fátækt sem þarna var. Maður kann miklu betur að meta alla hluti eftir að hafa kynnst lífinu í Afríku. Bara litla hluti eins og að fara í sturtu. Svona hjálparstarf hvetur mann til dáða að láta gott af sér leiða.“

Langt og strangt prógramm tekur nú við hjá Erlu og hún er vel undirbúin enda hugsar hún alltaf vel um sig. Hér er eldri mynd af henni úr einkasafni.

Þessa dagana er Erla á fullu í undirbúningi fyrir Miss World. „Ég hlakka til að kynnast nýju fólki. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt með því að koma á ókunna staði og uppgötva heiminn.“

Keppnin í ár er haldin í 68. skiptið. Árið 2003 var hún fyrst haldin í Sanya en þá var aðeins eitt glæsihótel á eyjunni. Nú eru þau orðin fjölmörg og miklar breytingar hafa átt sér stað undanfarin ár en þetta er í áttunda sinn sem Miss World fer fram í Sanya. Ferðamennska hefur stóraukist en Miss World keppnin á ekki síst þátt í því. Í Sanya er ein stærsta stytta heims, það er búddastytta sem er 108 metra há og var vígð árið 2005.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Hlaupastíllinn getur komið þér lengra

Fólk

Öll orkan fór í að komast í sam­band við tísku­húsin í París

Fólk

„Einkennin geta verið svo lúmsk“

Auglýsing

Nýjast

Mynd­band: PewDi­ePi­e lét sér ekki leiðast á Ís­landi

YouTu­be-par fagnaði ástinni hér á Fróni

​Friðrik Ómar, Tara og Kristina áfram í úrslit

Dor­rit hæst­á­nægð með Nan­cy Pelosi

Borgar­full­trúi pirrar sig á RÚV appinu

Allir flokkar sýndir í beinni eftir mót­mæli Hollywood

Auglýsing