Steinunn segir gott fyrir tilvonandi brúði að næra hárið vel vikurnar fyrir brúðkaupsdaginn.

„Ef hárið er sítt er gott að klippa það nokkrum vikum áður, en persónulega finnst mér betra að greiða hár ef það er ekki nýklippt. Ef brúðurin er með litað hár er gott að lita það um tveimur vikum áður því það er gott að hárið fái tíma til að jafna sig.“

Steinunn segist alltaf byrja á því að spyrja hvernig kjóllinn líti út. Hún segist verða að sjá mynd af kjólnum og tekur fram að hún þekki flestar tilvonandi brúðir sem hún greiði fyrir stóra daginn; þekki stíl þeirra og hvað hárið býður upp á.

„Það má allt í dag: Slegið hár, uppsett eða hálftekið upp. Það má hafa hárið í tagli ef það er stíll viðkomandi; en bara fallegu tagli. Þetta er allt spurning um í hvaða átt á að fara með lúkkið. Það sem þarf að hafa í huga með val á greiðslu er að sjálfsögðu hvað klæðir brúðina. Svo verður formið á greiðslunni að vera rétt. Það þarf að pæla í hvernig brúðhjónin líta út saman. Hún má nú ekki skyggja á brúðgumann þó að hún sé stjarnan. Það má ekki gleyma brúðgumanum. Sumir eru kannski ekki með réttu vörurnar sem duga allan daginn og það gerir mikið fyrir þá að fá smáblástur með einhverju góðu blástursefni eða froðu. Þá þarf minna af vaxi og hárið helst betur og lítur betur út.“

Uppsett greiðsla með góðri lyftingu. MYND/JENNÝ GUÐMUNDSDÓTTIR

Prufugreiðsla mikilvæg

Á að vera með slör eða ekki?

„Margar sleppa slöri eða hafa það bara rétt í athöfninni og svo er því kippt af í myndatökunni. Ég er orðin pínu skotin í að vera með slör; mér finnst það hafa dottið svolítið út síðustu ár en nú er úrvalið bara orðið svo mikið og úr mörgu að velja. Á að vera með hárskraut er líka oft stóra spurningin. Persónulega er ég ekki hrifin af miklu hárskrauti en látlaust og fíngert skraut finnst mér æði. Einnig nota ég mikið blóm, bæði fersk og þurrkuð. Ég er líka oft með ansi miklar skoðanir en sem betur fer þekki ég nú mínar dömur og þær mig og þær verða ekkert móðgaðar þótt ég segi nei við kórónum og glingri.“

Steinunn bendir á að gott sé að fara í prufugreiðslu áður en að brúðkaupsdeginum kemur og áður en að henni kemur sé gott að viðkomandi hafi skoðað myndir eða allavega hafi smá hugmynd um hvað viðkomandi vill.

„Það er líka gott að fara tímanlega af stað ef panta þarf hárlengingar eða skraut að utan. Ég nota mikið hárlengingarlokka með klemmum og sem gefa fyllingu í hárið; það er frábært þegar viðkomandi er með fíngert hár en þetta er ekki endilega til að lengja hárið. Einnig eru oft notaðir svampar og annað til að hárið líti sem best út og sem lengst.“

Lágt hliðartagl með látlausu skrauti. MYND/ANÍTA ELDJÁRN

Gott að hafa nægan tíma

Steinunn nefnir tímaramma sem hver tilvonandi brúður þarf að hafa í huga.

„Ég vil frekar mæta fyrr og hafa tíma til að allir njóti sín; að brúðurin hafi tíma til að borða og skála jafnvel við vinkonur sínar, að það sé nægur tími til að fara í kjólinn og bara aðeins að njóta þess að horfa á sig í kjólnum með allt tilbúið: hár og förðun. Flestallir giftast bara einu sinni og þá er glatað að vera í stresskasti og mæta móð og másandi í athöfnina.“

Steinunn vinnur oftast í teymi með vinkonu sinni sem er förðunarfræðingur. Þá greiða þær og farða brúðina, móður hennar, ömmur hennar, tengdamóður hennar og vinkonur.

„Það er geggjað og getur verið svo sjúklega gaman. Það er líka dýrmætt að fá að vera partur af þessum degi, maður myndar einhver tengsl sem verða aðeins dýpri. Mér þykir mjög vænt um allar mínar brúðir og man vel eftir hverri einustu.“

Hér er hárið allt uppsett með grófri fiskifléttu. MYND/AÐSEND
Fallegur blástur með léttum liðum. MYND/SAGA SIG