Alba Mist hefur verið í skóla og leikskóla á tveimur stöðum í Svíþjóð, Danmörku, Frakklandi og Þýskalandi. Alba er fjörug og frábær stelpa sem hefur áhuga á handbolta, leiklist og að vera með vinum.

Foreldrar Ölbu eru Elísabet Gunnarsdóttir áhrifavaldur og Gunnar Steinn Jónsson. Mist á tvö yngri systkini, Manuel 7 ára og Önnu Magdalenu 5 mánaða.

Kjörið að fagna og njóta

Mæðgurnar eru búnar að vera samstíga í fermingarundirbúningnum og allt er að smella saman. Fermingardagurinn er táknrænn fyrir Ölbu og foreldra hennar. „Það er skemmtileg tilviljun að 16. apríl hafi verið einn af þeim dögum sem hægt var að velja en bæði mamma og pabbi fermdust þennan dag,“ segir Alba.

Hvernig hefur fermingarundirbúningurinn gengið?

„Undirbúningurinn hefur gengið vel og er reyndar rétt núna nýlega að hefjast af einhverri alvöru. Góð samvinna foreldra og fermingarbarnsins. Hún veit hvað hún vill þannig að við höfum verið að skoða hlutina og lagt svo hugmyndir undir hana – það hefur virkað vel,“ segir Elísabet.

„Það sem kannski er mikilvægast er að ákveða fljótt hvar veislan á að vera. Ef hún á að vera í sal þá eru þeir allir mjög fljótt uppbókaðir. Við vorum ekki að stressa okkur og á endanum völdum við draumasalinn og tökum hann viku eftir fermingu því hann var upptekinn á réttum degi. Okkur finnst það í góðu lagi og Alba var sátt og sæl, þá kemst hún í veislur hjá vinkonum líka. Þessi salur var efst á óskalistanum, Höfuðstöðin. Fallegur salur og hægt að fá listasýningu með í pakkanum. Við ætlum líka að færa fermingarveisluna aðeins nær nútímanum og minnka formlegheitin, bara gott og létt partí til að fagna deginum og safna saman góðu fólki, fjölskyldu og vinum.“

Mamman vön að skipuleggja

Mömmunni finnst gaman að skipuleggja viðburði og er með ágæta reynslu í því. Elísabet er áhrifa- og athafnakona, markaðskona og alls konar, eins og hún segir sjálf. „Það er oft erfitt að lýsa mínu starfi en kannski eitthvað í þessa áttina: Ég er stofnandi lífsstílsvefsins trendnet.is þar sem ólíkir pennar skrifa undir sama hatti. Við fluttum heim fyrir rúmu ári eftir 12 ár á Evrópuflakki vegna handboltaatvinnu heimilisföðurins. Ég var þó alltaf með vinnuna í hendi mér og gat því unnið fyrir íslenska markaðinn frá útlöndum, ásamt því að klára nám í viðskiptafræði. Samhliða er ég mikil kaffikona og eigandi Sjöstrand sem við komum með til landsins og hefur gengið frábærlega.“

Ertu búin að velja fötin fyrir fermingardaginn?

„Ég var í myndatöku með mömmu fyrir Hildi Yeoman þar sem ég fékk að velja mér kjól fyrir ferminguna. Hann hangir því inni í skáp og ég er mjög ánægð með hann. Mér finnst gaman að klæðast íslenskri hönnun og svo er ég spennt fyrir næs strigaskóm við. Það virðist þó vera erfitt að finna þá sem mig langar í, Nike Dunks.“

Alba verður í fallegum hvítum kjól sem bíður í fataskápnum eftir stóra deginum.

Lifandi og falleg blóm þemað

„Við viljum hafa lifandi, falleg blóm sem borðskreytingar á móti fallega salnum sem er með stórum gluggum og íslenskri náttúru fyrir utan. Vonandi verður hægt að nota sólpallinn sem stækkar salinn og upplifunina. Við munum pottþétt heimsækja 4Árstíðir en þær sáu líka um skreytingarnar í fermingarveislunni hennar mömmu og í brúðkaupi mömmu og pabba.

Höfuðstöðin er skemmtilegur salur og þarf ekki mikið af skreytingum fyrir utan blóm og veitingar. Mæðgurnar segjast ekki vera búnar að ákveða hvaða veitingar verða í veisluna, sú ákvörðun sé í vinnslu. „Það eru alls konar pælingar, kemur í ljós.“

Hvað er dreymir þig um í fermingargjöf?

„Upplifun er efst á listanum og vonast ég eftir ferðagjöf – ferð til Grikklands eftir að ég horfði nýlega á Mamma Mia! Það væri algjör draumur. Margt annað er líka á listanum og ég fékk meira að segja eina gjöf fyrir fram, skíði frá ömmu og afa sem nýttust mjög vel í vetrarfríi á Akureyri,“ segir Alba.

Var ekki einu sinni með gloss

Elísabet man vel eftir sinni fermingu.

„Já, ég man vel eftir mínum degi. Mér finnst mikill munur á þroskanum þá og nú. Stelpur í dag byrja til dæmis að farða sig miklu fyrr en þegar ég var á sama aldri. Ég var ekki einu sinni með gloss, hvað þá maskara en í dag fara flestar í förðun og neglur. Samfélagsmiðlar og TikTok hafa áhrif. Ég er svolítið gamaldags og frekar ströng við mína dömu hvað þetta varðar. Vil alla vega passa að allt sé náttúrulegt. Ég er fullviss um að Alba verði þakklát fyrir þetta síðar meir. Fyrir utan að það er kannski ekki svo mikill munur nema núna er komið að því að ég þarf að plana stuðið, síðast voru það foreldrar mínir. Ég vil einnig minnka formlegheitin og hafa þetta bara létt og skemmtilegt.“

Þetta viðtal birtist fyrst í Fermingarblaði Fréttablaðsins sem gefið út föstudaginn 17. mars 2023