Flestir bekkjarfélagar Jóns Levís fermast í kirkju en Jón Leví og ein bekkjarsystir hans völdu að fermast borgaralega. Jón Leví segist upphaflega ekki hafa ætlað að fermast yfirhöfuð en mömmu hans fannst það frekar leiðinlegt svo hann stakk upp á að halda bara stórt afmæli í staðinn.

„Mamma var svo leið yfir að ég ætlaði ekki að fermast og varð glöð þegar ég vildi halda afmæli í staðinn. En svo ákvað ég að fermast borgaralega og þá breyttist það í fermæli, sem er ferming og afmæli saman,“ útskýrir Jón Leví sem verður 14 ára þann 13. apríl.

Jón Leví segir að þótt hann sé ekki trúaður í dag hafi hann einu sinni verið kristinnar trúar.

„En svo var ein ferming sem ég fór í sem fældi mig pínu frá trúnni. Ég hef líka hitt fólk sem var of trúað fyrir minn smekk og ég hugsaði: Þetta er of mikið,“ segir hann.

Þannig að ferming í kirkju hentar þér alls ekki?

„Nei, alls ekki, það hentar mér miklu betur að fermast borgaralega.“

Jón Leví er hress strákur með ákveðnar skoðanir.

Lærdómsríkur leikur

Jón Leví hefur þurft að fara alla leið á Akranes til að fara í fermingarfræðslu en hann var einmitt að fara í fræðslu helgina eftir að blaðamaður ræddi við hann fyrir viku síðan.

„Ég er að fara á námskeið alla helgina, á laugardaginn og sunnudaginn. En svo var líka námskeið fyrir löngu síðan en fyrsta deginum var aflýst vegna veðurs,“ segir hann. Hann segir að það hafi verið alveg ágætlega margir krakkar á því námskeiði, en ekkert of margir samt.“

Hvað lærðuð þið á námskeiðinu?

„Við lærðum aðallega um forsetamál, lýðræði og pólitík og svona. Við gerðum til dæmis svona próf þar sem við bjuggum til gervisamfélag sem átti að velja forseta. Við gátum valið um þrjá menn. Maður eitt var, ég man ekki alveg fyrri hlutann um hann en seinni hlutinn var að hann var með fylgjendur sem elskuðu og dýrkuðu hann. Næsti maður var ótryggur konu sinni en var ræðusnillingur og sá síðasti var háður eiturlyfjum en lifði eftir kristnum gildum,“ útskýrir Jón Leví.

„Við enduðum á að velja mann eitt sem forseta en svo kom í ljós að hann var Adolf Hitler. Ég man ekki hver maður númer tvö var, en maður númer þrjú var Kanye West.“

Hvað fannst þér þið læra af þessum leik?

„Ég veit það ekki, kannski að fólk lítur kannski vel út ef þú lest um það en svo er það kannski ekki svo gott fólk.“

Mamma ekki alltaf sammála

Jón Leví segir að mamma hans hafi að mestu séð um undirbúning veislunnar. En fermingarathöfnin mun fara fram í veislunni sjálfri.

„Ég er með ákveðnar hugmyndir en mamma er ekki alltaf sammála og er að reyna að leiðbeina mér að breyta eða bæta, sem mér finnst stundum svolítið pirrandi því þetta er mín veisla,“ segir Jón Leví.

„En hún spyr mig samt alveg hvað mér finnst og vill að ég sé með í þessu.“

Hann segir að búið sé að ákveða flest hvað varðar stóra daginn og hann sé búinn að finna fermingarföt sem hann er ánægður með. Hann segist spenntur fyrir stóra deginum, hann segist helst óska sér að fá tölvuleiki í fermingargjöf og þegar hann er spurður hvað hann haldi að verði skemmtilegast við daginn svarar hann: „Örugglega bara veislan sjálf. Að hitta fullt af ættingjum og vinum.“

Þetta viðtal birtist fyrst í Fermingarblaði Fréttablaðsins sem gefið var út föstudaginn 17. mars 2023