Verkefnið Sendum tónlist út í geim! hefst með fjölskyldudagskrá í Hörpu í Reykjavík í dag, laugardaginn 10. september, en um er að ræða nýtt og skemmtilegt þátttökuverkefni fyrir börn. Viðburðurinn mun marka upphaf ferðalags sem mun standa yfir næsta misserið, ferðalag um óravíddir tónlistar og vísinda sem teygir anga sína út í geim og aftur heim að sögn Sigríðar Sunnu Reynisdóttur, listræns stjórnanda ÞYKJÓ.

Hönnunarteymið ÞYKJÓ leiðir verkefnið Sendum tónlist út í geim! AÐSEND/HALLDÓR BALDURSSON

„Þetta verkefni er innblásið af Gullplötunni „Sounds of Earth“ sem var fest á Voyager geimflaugarnar sem NASA sendi í könnunarferð um alheiminn árið 1977.

Gullplatan var stútfull af tónlist, hljóðum, kveðjum og myndefni til að kynna mannkyn og líf á jörðinni, ætlað geimverum sem kynnu að rekast á flaugarnar. Hugmyndin er að gefa börnum og fjölskyldum tækifæri til að glugga í efnið á Gullplötunni með fjölbreyttum hætti.“

Sendum tónlist út í geim! verður haldin í Hörpu í dag. AÐSEND/HALLDÓR BALDURSSON

Fjölbreyttir samstarfsaðilar

Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði. ÞYKJÓ hönnunarteymi leiðir verkefnið og Harpa er aðalbækistöðin. „Þar að auki eru samstarfsaðilarnir Vísindasmiðjan, tónlistarkonan Sóley Stefánsdóttir, líffræðingurinn Edda Elísabet Magnúsdóttir, listgreinakennararnir Halldór Baldursson og Dagný Arnalds, tónlistarteymið Ingibjörg & Siggi og síðast en ekki síst fullt fullt fullt af krökkum um land allt,“ bætir hún við.

Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá í Hörpu í dag. AÐSEND/HALLDÓR BALDURSSON

Margt spennandi í boði

Viðburðurinn skiptist í nokkra hluta og hefst leikurinn kl. 11 með Stjörnu-Sævari sem kynnir geimævintýrið sem Voyager leiðangurinn var segir Ingibjörg Fríða Helgadóttir, verkefnastjóri barnamenningar í Hörpu. „Sævar segir okkur frá þessari stórmerkilegu Gullplötu sem var send út í geim og sumir hafa kallað metnaðarfyllsta flöskuskeyti mannkyns.

Í kjölfarið verða skapandi listsmiðjur í boði; geimverugrímusmiðja með ÞYKJÓ og teiknismiðja með myndasöguhöfundinum Halldóri Baldurssyni. Boðið verður upp á tvo tónlistarviðburði. Annars vegar mun Sóley Stefánsdóttir bjóða gestum að loka augunum og skoða sig um á jörðinni með eyrunum á meðan hún leikur með hljóð sem voru valin á Gullplötuna. Hins vegar mun tónlistarteymið Ingibjörg og Siggi bjóða upp á tónlistarsmiðju þar sem við hlustum á lögin sem voru valin á Gullplötuna og mátum okkur við þau. Dagný Arnalds býður svo gestum og gangandi að taka upp kveðjur til að senda út í geim."

Lokahátíð í Hörpu í vor

Verkefnið mun í kjölfarið flakka um skóla víða um land segja Sigríður og Ingibjörg. „Með vorinu verður svo lokahátíð í Hörpu þar sem við fáum að sjá og heyra hvað krakkar á Íslandi myndu setja á sína eigin Gullplötu fyrir geimverur ef þau fengju að velja.“

Viðburðurinn hefst kl. 11 í dag í Hörpu og aðgangur er ókeypis.

Hægt er að fylgjast með verkefninu vinda fram á gullplatan.is.