Sviðlistakonurnar Aðalbjörg Árnadóttir og Salka Guðmundsdóttir frumflytja nýstárlegt sviðslistaverk á Listahátíð í júní. Verkið ber titilinn Framhald í næsta bréfi og er þátttökuverk sem byggist á bréfasendingum.

Salka: „Við hugsum þetta sem ferðalag á þínu eigin heimili. Leikhúsið kemur heim til þín, leikhúsið inn um lúguna segjum við. Verkið er saga sem spannar eina öld og er byggt mikið til á raunverulegum stöðum og hverfist í kringum sögulegar staðreyndir og viðburði úr Íslands- og mannkynssögunni.“

Verkið byggist annars vegar á hljóðverki, eins konar útvarpsleikriti, sem þátttakendur hlusta á og hins vegar á sjö bréfasendingum sem koma inn um lúguna heima hjá fólki.

Salka: „Í hverju og einu umslagi eru persónuleg bréf og það eru líka ýmiss konar gögn sem leiða þig inn í þessa sögu. Það eru gamlar blaðaúrklippur, það eru ljósmyndir, það eru símskeyti, það er ýmislegt sem segir þér þessa sögu. Svo í hvert skipti sem fólk fær umslag þá hlustar það líka á hljóðverk sem fylgir hverjum og einum hluta. Þannig að sagan smám saman opnast fyrir þátttakendum.“

Kveikjan að verkinu var þessi dularfulla ljósmynd sem tekin var á grímuballi starfsmanna Landssmiðjunnar á Sölvhólsgötu árið 1945.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Sigurhans Vignir

Hægt að njóta hvar sem er

Spurðar hvort verkið taki langan tíma í flutningi segir Aðalbjörg:

„Við gefum okkur fjórtán daga til að afhenda sjö bréf. Stundum koma þau á dags fresti en oft líða tveir dagar á milli. Nema þú eigir heima einhvers staðar lengst á hjara veraldar, þá færðu þau send öll saman í einum pakka og þú stjórnar því þá bara sjálfur, opnar eitt á hverjum degi. Okkur þótti svo mikilvægt að það væri hægt að njóta verksins hvar sem er á landinu og jafnvel deila því með fjölskyldunni. Svo sendirðu bara mömmu með þetta upp í sumarbústað.“

Höfundar verksins eru báðir með bakgrunn í sviðslistum. Aðalbjörg sem leikari og Salka sem leikskáld. Þó er ljóst að ekki er um hefðbundið sviðslistaverk að ræða.

Aðalbjörg: „Við erum náttúrlega sviðslistamenn upphaflega báðar. Fyrir okkur er þetta bara sviðslistaverk sem þó reynir náttúrlega á einhver mörk. Útvarpshlutinn er greinilega bara útvarpsleikrit. Er þetta ekki bara sviðsverk án leikara?“

Salka: „Sviðsverk án sviðs. Á ensku er þetta bara kallað performing arts. Þetta er sviðslistaverk utan sviðs.“

Við höfum báðar mjög gaman af því þegar maður fær að vera snjall lesandi, hlustandi eða áhorfandi. -Aðalbjörg Árnadóttir

Grímuball, stríð og mannshvarf

Aðalbjörg segir kveikju verksins hafa verið gamla ljósmynd frá 1945 eftir Sigurhans Vigni sem hún fann á Ljósmyndasafni Reykjavíkur og er notuð sem kynningarmynd verksins.

Aðalbjörg: „Myndin er tekin á grímuballi hjá starfsmannafélagi Landssmiðjunnar á Sölvhólsgötu við stríðslok. Þetta er alveg sturluð mynd og ég fer að rannsaka hana til að komast að því hvað þetta er. Þá förum við að skoða þetta starfsmannafélag sem var í Landssmiðjunni og verðum heillaðar af því og förum í kjölfarið að skoða Sölvhólsgötuna sem sögusvið. Margt í verkinu byggist á alvöru auglýsingum og fréttum og gömlum bréfum sem við fundum en við gefum okkur algjört skáldaleyfi.“

Í kynningartexta Listahátíðar er Framhaldi í næsta bréfi lýst sem óvenjulegu og skemmtilegu ferðalagi fyrir forvitna. Salka segir að í verkinu sé ákveðin ráðgáta sem glöggir þátttakendur geti áttað sig á þó svo að þeir taki ekki beinan þátt í framvindu verksins.

Salka: „Þú kemst að því strax í fyrsta bréfi að það er maður sem hefur horfið á 8. áratugnum, Íslendingur í Kaupmannahöfn. Það eru nokkur lög af frásögninni sem tengjast smám saman og efnið hjálpar þér að tengja þau saman. En það er vissulega ákveðið ráðgátu-element í því.“

Aðalbjörg: „Við höfum báðar mjög gaman af því þegar maður fær að vera snjall lesandi, hlustandi eða áhorfandi.“