Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, RIFF, er fyrir lifandis löngu búin að festa sig í sessi sem einn helsti stórviðburðurinn í menningarlífi höfuðborgarinnar á haustin.

Hátíðin hefst 26. september og stendur til 6. október og verður boðið upp á slíka ofgnótt kvikmynda af öllum gerðum og frá ýmsum heimshornum að úrvalið er til þess að æra óstöðugan og rúmlega það.

Að þessu sinni verður hryllingsmyndum gefinn almennilegur gaumur og fjölbreytnin í þeirri deild er slík að allir sem á annað borð eru gefnir fyrir slíkt ættu að geta fundið eitthvert ógeð sem hæfir smekk þeirra.

Á dagskránni eru bæði myndir í fullri lengd og væn kippa af nýlegum stuttmyndum, þar á meðal hin finnska Hrútskýringablóðbaðið í Helsinki. Ekki algalið vegna þess að þótt hrollvekjur séu yfirleitt jaðarsettar og stuði jafnan ferkantaðan meirihluta mannkyns þá eru þær í eðli sínu í raun einhver íhaldssamasta kvikmyndagreinin og hlaða oftast vandlega undir reglufestu feðraveldisins.

Dacha er hryllingur frá Túnis.

Hryllingurinn sprettur alla jafna upp þegar óreiða og tryllingur taka völdin og eðlilegt jafnvægi raskast. Regluverkið nær þó iðulega vopnum sínum og allir anda rólega þegar allt kemst aftur í röð og reglu. Lítið mál þótt til dæmis nokkrir graðir og sukkandi unglingar liggi blóðugir í valnum. Í hryllingsmyndunum er nefnilega ekkert eðlilegra en að þeim sem fara gegn reglunum sé refsað grimmilega.

Meðal myndanna sem sýndar verða á RIFF eru hin sænska Koko-di Koko-da sem segir frá pari sem fer í skógarferð til að reyna að bjarga sambandinu eftir að hafa upplifað mikið áfall. Maður á aldrei að fara út í villta náttúruna í hryllingsmyndum og þau festast í súrrealískri martröð blóðþyrsts fjöllistamanns.

Svíar bjóða einnig upp á Evil Ed, ljúfan kvikmyndaklippara sem sturlast þegar hann er færður í hryllingsdeildina þar sem hann á að ritskoða hrollvekjur en ekki raungera þær.

Dachra er fyrsta hrollvekjan sem kemur frá Túnis en hún hverfist um Yasmin sem er að læra blaðamennsku. Hún ákveður ásamt tveimur vinum að gera verkefni um dularfulla konu sem fannst limlest fyrir 25 árum en er núna læst inni á hæli og grunuð um galdur. Á meðan á rannsókn þeirra stendur rata þau inn á fornar og ógnvænlegar slóðir í einangruðu þorpi, fullu af geitum, þöglum konum, dularfullu þurru kjöti og sjóðandi pottum.

Myndirnar Little Joe og Die Kinder der Toten eru einnig á dagskrá auk hvalrekans og uppvakningamyndarinnar The Dead Don’t Die eftir sjálfan Jim Jarmusch sem teflir fram einvala liði leikara, til dæmis Bill Murray, Adam Driver, Tilda Swinton, Chloë Sevigny, Steve Buscemi og Danny Glover.

Hressandi smáhrollur

Hryllingur er í eðli sínu þannig að í kvikmyndum þarf ekki að teygja lopann til þess að framkalla hann og því kjörið fyrir þá sem vilja fá hrollinn í smáskömmtum að kíkja á þær norrænu stutthryllingsmyndir sem bornar verða á blóðugt hlaðborðið á RIFF. Hátíðin leggur áherslu á hryllingsmyndir sem gerast á norrænum slóðum en inni á milli blása hlýrri og suðrænni vindar.

Þula (Lullaby)

Ísland/Pólland 2019

32 mínútur

Þula er rómantísk vísindafantasía eftir Hauk M. Hrafnsson þar sem ótrúleg þrautseigja manns fléttast inn í heim vísindaskáldskapar. Tíminn leysist upp og víddir teygjast og sveigjast á meðan hann glímir við örlögin. Myndin keppir á RIFF í flokki íslenskra stuttmynda.

Þula er rómantísk vísindafantasía eftir Hauk M. Hrafnsson

Hönd í hönd (Hand in Hand)

Sviss 2019

4 mínútur

Það eina sem er eftir til að innsigla samkomulag er formlegt handaband tveggja stjórnmálamanna. Þegar báðir reyna að ná yfirhöndinni við þá athöfn vaknar grimmdarleg þvermóðska þeirra til lífsins.

Mjólk (Milk)

Kanada 2018

10 mínútur

Síðla kvölds heldur táningur niður í eldhús að sækja sér mjólkurglas. Þegar hann rekst á svefnvana móður sína kemur fljótlega í ljós að ekki er allt sem sýnist í rökkrinu.

Parísarhjólið (La Noira)

Spánn 2018

12 mínútur

Ungur drengur sem nýtur þess að teikna og byggja parísarhjól rekst óvænt á skepnur sem setja líf hans á hvolf.

Mamma er ekki öll sem hún sýnist í rökkrinu í Milk og í Finnlandi geta hrútskýringar haft verulega vondar afleiðingar.

Hrútskýringablóðbaðið í Helsinki

(Helsinki Mansplaining Massacra)

Finnland 2018

15 mínútur

Hryllings­kómedía um örvæntingarfullan flótta einnar konu undan hópi manna sem vilja útskýra og þá um leið hrútskýra alla skapaða hluti fyrir henni. Myndin hefur hlotið fjölda viðurkenninga á hryllingsmyndahátíðum víða um heim.

Nótt plastpokanna

(La Nuit des sacs plastiques)

Frakkland 2018

18 mínútur

Agathe er 39 ára og löngun hennar eftir því að eignast barn er orðin að þráhyggju. Hún rekst á sinn fyrrverandi og á meðan hún reynir að sannfæra hann um að þau eigi að byrja saman aftur vakna plastpokar til lífsins og gera árás á borgina.