Hannamari er grænkeri, eða vegan, frá Finnlandi. Hún setti sér það markmið fyrir einu og hálfu ári að ferðast til 51 lands í Evrópu til að finna besta vegan-borgarann. 

Hún hefur nú þegar bragðað vegan-borgara í sautján löndum, þar með talið Finnlandi. „Ég tel löndin, en ekki hamborgarana lengur, þeir eru orðnir of margir,“ segir Hannamari hlæjandi.

Hannamari hóf ferðalagið, eins og fyrr segir, fyrir einu og hálfi ári og kom til Íslands fyrir rúmri viku síðan til að prófa vegan-borgara á Íslandi.

„Ég bjó á Íslandi í hálft ár fyrir sjö árum síðan. Ég var mjög hrifin af Íslandi og reyni alltaf að fylgjast með því hvað er að gerast á Íslandi. Ég hef fylgt með Veganæs á Instagram og hafði samband við Linneu sem er kokkur hjá þeim. Ég var búin að bóka flugið og var orðin pínu stressuð að þau myndu ekki vera búin að opna þannig ég var mjög glöð þegar Linnea samþykkti samt að elda fyrir mig þótt þau séu ekki enn búin að opna veitingastaðinn. Það fór því allt vel á endanum,“ segir Hannamari í samtali við Fréttablaðið.

Hannamari var á landinu í rúmlega viku og fór í ferðalag um Snæfellsnes þar sem hún smakkaði tvo vegan-borgara sem hún sagði furðugóða.

„Við borðuðum á Stapanum á Snæfellsnesi. Það er lítill staður þar sem reyndist vera vegan-borgari á matseðli. Svo prófaði ég borgara á Grill 66 bensínstöð. Borgarinn á Stapanum var mjög góður, ég var hálfhissa því staðurinn var svo lítill „úti í rassgati“,“ segir Hannamari og hlær. 

Hannamari sagði að borgarinn frá Veganæs hafi samt sem áður borið af í gæðum.

Hvar er besti borgarinn?

„Það eru klárlega nokkrir sem standa upp úr. Borgarinn frá Veganæs var yfirburðagóður. Það var greinilega mikið lagt í hann og vandað við að meðlæti og annað passaði vel við borgarann sjálfan. Síðan var einn staður í Amsterdam „Vegan Junk Food Bar“ sem sérhæfa sig í „ruslfæði“ og ég borðaði marga borgara þar. Það kom einnig á óvart en ég fékk mjög góðan borgara í Búlgaríu.“

„Það er eitt af því sem er svo skemmtilegt við þetta ferðalag að í löndum þar sem ég hef ekki endilega búist við því að fá góðan vegan-mat hef ég síðan fengið mjög góðan mat og þar var gott úrval. Borgin Sofia í Búlgaríu er gott dæmi um það og í raun víða um austur Evrópu,“ segir Hannamari

Brjálæðislegt að borða bara borgara

Hannamari segir að mörgum finnist skrítið að hún hafi valið borgara af öllum mat til að smakka á ferðalagi sínu.

„Fólki finnst pínu brjálæðislegt að aðeins smakka borgara en mér finnst gott að fólk sjái að vegan matur er allskonar. Fólk hefur oft fyrir fram ákveðnar hugmyndir um að vegan matur sé eitthvað létt og hollt en mig langaði einnig að sýna að þótt þú sért vegan þá þarftu ekki að hætta að borða neitt. Þú getur borðað allt það sama, nema án dýraafurða. Vegan útgáfu af matnum sem þú borðaðir áður,“ segir Hannamari.

Markmið að sýna fólki að það sé ekkert erfitt að vera grænkeri

Hannamari er frá Finnlandi og hefur verið grænkeri í þrjú og hálft ár. Fyrir það var hún grænmetisæta í tíu ár. „Ég var alltaf að daðra við vegan-mat en alltaf var eitthvað sem hindraði mig í að fara alla leið. En svo loks gerði ég það fyrir þremur og hálfu ári og það breytti lífi mínu algerlega, Mér fannst ég loksins vera að lifa eftir mínum gildum. Ég vildi gera meira fyrir dýravelferð. Ég vinn sem sjálfboðaliði í dýraskýli í Finnlandi en mig langaði alltaf að gera meira og datt í hug að blanda saman ferðalögum og matseld. Mig langaði að sýna að það gæti verið skemmtilegt að vera vegan og það sé ekki erfitt að ferðast þótt maður sé vegan. Þá datt mér í hug að fara í þetta ferðalag evrópskra vegan-borgara,“ segir Hannamari.

Hún segir að ferðalagið hafi gert henni kleift að upplifa nýja staði og nýjan mat og hennar markmið sé ávallt að sýna fólki fram á að með því að gerast grænkeri sértu ekki að tapa, heldur græða.

„Margir halda að það sé erfitt að vera vegan og þá sérstaklega þegar fólk ferðast. Þannig mitt markmið er að sýna að það er alls ekki þannig. Ég rannsaka áður en ég fer hvar er hægt að fá vegan mat og enda því oft á stöðum sem ég myndi aldrei annars sjá. Mitt markmið er að sýna að með því að gerast vegan ertu ekki að tapa neinu, þú ert að græða svo mikið. Nýjar upplifunar og nýjan mat,“ segir Hannamari að lokum.

Hægt er að fylgjast með ferðalagi Hannamari á blogginu hennar „Vegan Burger Tour“ auk þess sem hægt er að fylgjast með henni á Facebook og Instagram