Sannkölluð stórsýning á myndlist er haldin á Snæfellsnesi í sumar á rúmlega þrjátíu sýningarstöðum og þar eru sýnd verk eftir sjötíu og einn listamann. Akademía skynjunarinnar og Svæðisgarðurinn Snæfellsnes standa saman að sýningunni sem hefur heitið Nr. 3 Umhverfing og stendur til ágústloka. Myndlistarmennirnir Anna Eyjólfsdóttir, Ragnhildur Stefánsdóttir og Þórdís Alda Sigurðardóttir eru sýningarstjórar sýningarinnar.

Verkefnið Umhverfing er ferðalag umhverfis landið. Nr. 3 Umhverfing er þriðja sýningin í því ferðalagi. Nr. 1 Umhverfing var haldin á árið 2017, þar sem fjórtán listamenn með tengsl við Skagafjörð sýndu verk sín innan og utandyra á fjórum stöðum á Sauðárkróki. Á sýningunni Nr. 2 Umhverfing árið 2018 sýndu þrjátíu og sjö listamenn með tengsl við Fljótsdalshérað á fjórum stöðum á Egilsstöðum.

Þessi volduga lóa listamannsins Steingríms Eyfjörðs er sýnd í Norska húsinu í Stykkishólmi ásamt öðrum listaverkum.

Verkefnið vex jafnt og þétt og nú sýnir sjötíu og einn listamaður vítt og breitt á Snæfellsnesi. Upphafspunkturinn er í Breiðabliki, Gestastofu Svæðisgarðsins Snæfellsness, þar sem sýnendur kynna sig á veggspjöldum sem hver og einn hefur útbúið með sínu lagi,“ segir Anna. „Hugmyndin að baki þessum sýningum er að sýna verk eftir listamenn sem tengjast viðkomandi svæðum, eru ættaðir þaðan, hafa búið þar eða dvalið í lengri eða skemmri tíma.“

Nútímalist til almennings

Anna segir að þetta sé hugsjónastarf og unnið að langmestu leyti í sjálfboðavinnu. „Við viljum færa nútímalistina nær almenningi og setjum listaverk upp í tengslum við aðra menningarstarfsemi á viðkomandi svæði en setjum þau einnig í óhefðbundið rými. Listaverkin eru í þetta sinn á rúmlega þrjátíu stöðum, aðallega í þéttbýliskjörnum. Við höfum til dæmis alltaf sýnt verk á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða og þar höfum við fundið fyrir alveg sérlega miklu þakklæti. Nú er sýningin einnig á hótelum, veitingahúsum, í gömlum hlöðum, uppgerðum og óuppgerðum, kirkjum, þjóðmenningar- og kynningarsetrum, í fjörum og utan á húsum og veggjum. Við höfum fundið fyrir mikilli jákvæðni hvar sem við komum, sem ber greinilega vott um áhuga á menningu og listum.“

Erró á verk sem sýnd eru í Pakkhúsinu í Ólafsvík.

Listamennirnir eru valdir með tilliti til tengsla þeirra við viðkomandi svæði og það vekur oft áhuga þeirra á ætt sinni og uppruna ,“ segir Anna. Sýningin á Snæfellsnesi nú setur sannarlega svip á þetta fallega svæði. „Heimamenn fá að kynnast því hvað þeirra fólk er að gera og aðrir geta sömuleiðis notið fjölbreyttrar listar. Verkin spanna nánast öll svið myndlistar og þátttakendurnir eru allt frá óþekktum myndlistarmönnum til heimsþekktra myndlistarmanna. Þess má geta að í þeim stóra hópi sem sýnir á Snæfellsnesi eru átta sem hafa verið fulltrúar Íslands á Feneyjabiennalnum,“ segir Anna.

Sérstakt leiðakort

Bækur hafa verið gefnar út í tengslum við fyrri sýningar og svo er einnig nú. Í bókinni sem kemur út í tengslum við þessa sýningu eru upplýsingar um alla þátttakendur sýningarinnar í máli og myndum. Hjónin Sturla Böðvarsson, fyrrverandi ráðherra, og Hallgerður Gunnarsdóttir lögfræðingur skrifa grein um mannlíf og menningu á Snæfellsnesi. Elísabet Haraldsdóttir, menningarfulltrúi Uppbyggingarsjóðs Vesturlands, og Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsness, skrifa um aðdraganda sýningarinnar og formála bókarinnar. Bókin er til sölu í Breiðabliki, Norska húsinu í Stykkishólmi og Pakkhúsinu í Ólafsvík. Sérstakt leiðakort sýningarinnar liggur frammi á þessum stöðum og á flestum sýningarstöðunum, sem allir geta fengið án endurgjalds til að taka með sér í ferðalagið.

Á https://www.facebook.com/umhverfing/ er hægt að nálgast upplýsingar um sýninguna. Þar er slóð inn á Google Maps með upplýsingum og nákvæmum staðsetningum allra listaverka sýningarinnar.

Tvær ljósmyndir, eftir Ragnhildi Láru Weisshappel og Önnu Eyjólfsdóttur, prýða þennan vegg við verslunina Kassann í Ólafsvík.