Þrívíddarhönnuðurinn María Guðjohnsen heldur sína þriðju einkasýningu en opnun hennar er nú á sunnudaginn í Galleríi Grásteini við Skólavörðustíg. María er sjálflærð og hefur vakið athygli fyrir hæfileika sína á sviðinu. Það eru þó einungis tæplega tvö ár síðan áhugi Maríu á þrívíddarhönnun kviknaði og hún byrjaði að afla sér kunnáttu á sviðinu.

Vann með Adidas

„Ég kenndi mér eiginlega bara sjálf. Ég bý núna úti í Berlín og er að læra grafíska hönnun þar. Það er eitt og hálft ár, um það bil, síðan ég byrjaði í þrívíddinni,“ segir María.

Hún hefur verið að gera nokkur stór og skemmtileg verkefni fyrir fyrirtæki á borð við Adidas og Jägermeister.

„Adidas hafði samband við mig í gegnum Instagram. Ég set rosa mikið af því sem ég er að gera á Instagram. Þegar Adidas hafði samband þá hélt ég að það væri einhver að rugla í mér. Það var ótrúlega skemmtilegt verkefni. Þau voru með herferð þar sem þau voru að kynna skó. Þau fengu svo listafólk í Berlín til að setja upp sýningu, sem ég tók þátt í. Ég var eini þrívíddarhönnuðurinn,“ segir María.

Heimþráin innblástur

María segir að heimþrá sé innblásturinn í sýningunni sem verður opnuð um helgina en svo vinni hún alltaf mikið með millistig raunveruleikans og sýndarveruleikans. Sú pæling hefur verið rauði þráðurinn í verkum hennar til þessa.

„Mér finnst gaman að finna leiðir til að blanda þessu saman. Úti hef ég verið að vinna með aðeins öðruvísi pælingar. Á einni hópsýningu gerðum við karaktera fyrir alla sem tóku þátt og bjuggum til rými milli raunveruleikans og sýndarveruleikans. Þetta vorum við en samt ekki við. Ég hef unnið mikið með þetta þema, en núna er ég búin að vera úti og komin með smá heimþrá. Eftir að ég kom núna aðeins heim langaði mig að vinna með íslenska náttúru og element,“ segir María.

Hugsar í þrívídd

María segist núna reyna að blanda þrívíddinni inn í nánast allt sem hún gerir.

„Ég er orðin leið á öllu sem er í tvívídd,“ segir María og hlær. „Það er hræðilegt því ég er að læra grafíska hönnun. En maður byrjar að hugsa allt öðruvísi eftir að maður byrjar að vinna við þrívídd. Maður fer að sjá hluti og hugsa á annan hátt. Ég hugsa alltaf í kringum hluti sem ég er að vinna með, maður þarf að pæla í öllum sjónarhornunum. Þetta breytir algjörlega hvernig maður hugsar.“

Hún tilheyrir nú hópi af öðrum þrívíddarhönnuðum sem deila áhugamálinu.

„Ég kynnist alltaf fleirum og fleirum sem eru í þessu. Það er ótrúlega sterkt samfélag í kringum þetta. Það er sérstaklega áberandi úti hvað það er mikil menning í kringum þrívíddarhönnun. Hérna á Íslandi er þetta mun minna, það eru ekki margir í þessu sem listgrein,“ segir María.

Sýning Maríu heitir því viðeigandi nafni Millistig og opnun verður klukkan 16.00 á efri hæð Gallerís Grásteins við Skólavörðustíg 4.