Franski tískuhönnuðurinn, Simon Porte Jacquemus var aðeins tvítugur þegar eftir honum var tekið á heimsmarkaði tískunnar. Þá þegar hafði hann skapað sitt eigið tískumerki, Jacquemus, og var boðið að taka þátt í tískuvikunni í París.

Núna ellefu árum síðar þykir Jacquemus afar hugmyndaríkur hönnuður og fær mikla umfjöllun um sig í tískutímaritum. Hann lét ekki staðar numið í Covid-lokunum heldur notaði samfélagsmiðla óspart til að kynna nýja vöru. Þegar Jacquemus kynnti sumartískuna 2021 lét hann ekki netheima nægja heldur fór með sýningarfólk og gesti á hveitiakur þar sem rúmt var um alla. Sýningin vakti mikla athygli. Litrík fötin nutu sín vel í litlausum hveitiakrinum. Ef skoðuð er götutíska undanfarna daga á götum heimsborga, kemur í ljós að hönnun Jacquemus er vinsæl og þá sérstaklega handtöskur hans. Margir áhrifavaldar hafa valið sér handtösku úr smiðju þessa unga hönnuðar. Meðal þeirra eru Kylie Jenner og Hailey Bieber auk stjarna á borð við Rihönnu, Beyoncé og Kim Kardashian. Handtöskur sem kosta að minnsta kosti um 80 þúsund.

Jacquemus fæddist í Salon-de-Provence í Frakklandi. Fjölskylda hans var fátækt bændafólk. Faðir hans söng í metal-hljómsveit en það var aðallega móðirin sem ól hann upp. Mæðginin fluttu til Mallemort í S-Frakklandi þar sem hann bjó til 18 ára aldurs er hann hélt til Parísar í nám við tískuskólann École supérieure des arts et techniques de la mode. Hann hætti námi þegar honum bauðst staða við tískutímaritið Citizen K.

Jacquemus er ófeiminn við liti og segist alltaf brosa á móti sólinni. Bleik dragt sem er fallega sniðin. Takið eftir víddinni í buxunum.

Þegar móðir hans féll skyndilega frá í bílslysi ákvað Jacquemus að hefja framleiðslu undir eigin nafni. Í upphafi kynnti hann hönnun sína á tískukvöldi hjá Vogue. Hönnun hans þykir á margan hátt einföld en þó með skemmtilegum smáatriðum. Í dag hannar hann bæði kven- og karlmannafatnað, skó, hatta og töskur.

Til að fá innblástur fyrir sumarið er upplagt að skoða sumartískuna frá Jacquemus. Fallegir litir einkenna fatnaðinn og púffermar. Sólin í S-Frakklandi hefur greinileg áhrif á hönnunina. Sýningin á hveitiakrinum var fyrsta raunverulega tískusýningin í Frakklandi eftir að útgöngubann var sett á. Ritstjórar helstu tískutímarita í Frakklandi mættu á akurinn þrátt fyrir að þetta væri mjög heitur dagur og farsímaþjónusta af skornum skammti. Jacquemus bjargaði því með því að útdeila sólarvörn og sólhlífum.

Buxnatískan er að breytast og líkist því sem var í upphafi áttunda áratugarins. Buxurnar eru háar upp.
Púffermar fyrir sumarhita. Svolítið sérstök hönnun sem mörgum finnst mjög smart og nútímaleg.

Jacquemus er öflugur á Instagram þar sem hann er með yfir milljón fylgjendur. Hann varð þess heiðurs aðnjótandi að Karl Lagerfeld gekk til hans og sagði hann frekar fallegan. Þótt Jacquemus sé af bændum kominn dreymdi hann alltaf um glamúr, fór reglulega í kvikmyndahús og lá yfir tískutímaritum og þá sérstaklega Vogue. Þegar hann var 8 ára sendi hann bréf til Jean Paul Gaultier þar sem hann bauð sig fram sem stílista. Í frítíma sem barn stóð hann við vegkantinn nálægt heimili sínu og seldi ferðamönnum grænmeti. Núna hefur hann sextíu manns í vinnu og starfsfólki fjölgar stöðugt á vinnustofu hans í París. Salan hefur líka tvöfaldast á hverju ári síðan 2017.

Árið 2015 hlaut Jacquemus sérstök dómnefndarverðlaun sem veitt eru ungum og hæfileikaríkum hönnuðum. Verðlaunin voru rífleg peningaverðlaun og var hann hvattur til að nota þau til að fjárfesta í starfsmönnum með tækniþekkingu. Aftur hlaut hann verðlaun árið 2016 sem ungur, hæfileikaríkur hönnuður og að þessu sinni var það The Business and Fashion sem veitti þau.

Jacquemus hefur sagt að það sé ekkert mikilvægara en að kaupendur vöru hans birti mynd af sér á samfélagsmiðlum. ■

Glæsilegur sumarkjóll úr smiðju Jacquemus.
Jacquemus er þekktur fyrir hattana sína sem sumir eru snotrir en aðrir barðastórir. Sumarlegur litur.
Handtöskurnar seljast eins og heitar lummur hjá stjörnunum og fást í nokkrum fallegum litum.