Breska leikkonan, Naomi Ackie, ferð með hlutverk bandaríska söngkonunnar Whitney Houston í væntanlegum kvikmyndasöngleik um söngkonuna.

Sony framleiðir myndina sem ber titilinn „I Wanna Dance With Somebody“. Variety greinir frá.

Leikstjóri söngleiksins, Stella Meghie, segir í tilkynningu að það hafi tekið langan tíma að finna réttu manneskjuna í hlutverk Houston en að Ackie hafi heillað alla upp úr skónum í túlkun sinni á goðsögninni.

Houston var margfaldur Emmy, Grammy og Billboard verðlaunahafi.
Fréttblaðið/ Getty images.

„I Wanna Dance With Somebody“ verður frumsýnd í nóvember 2022 og fjallar um líf of feril Whitney Houston. Houston lést árið 2012, aðeins 48 ára gömul en hún hafði glímt við eiturlyfjafíkn í nokkurn tíma.

Houston var ein vinsælasta söngkona Bandaríkjanna á níunda áratugnum og fram á þann tíunda og ruddi leiðina fyrir margar söngkonur sem á eftir komu, sérstaklega á sviði R&B tónlistar. Þá var hún margfaldur Emmy, Grammy og Billboard verðlaunahafi.

Naomi Ackie sem er 28 ára gömul hefur gert það gott síðastliðin ár en hún vann nýlega BAFTA-verðlaunin fyrir hlutverk sitt í Netflix þáttaröðinni, „The End of the F *** ing World." Hún fór einnig með hlutverk í myndinni „Star Wars: The Rise of Skywalker.“