Elínborg Hörpu og Önundarbur, líka þekkt sem Elí og Hildur Harðardóttir hafa áður haldið námskeið í femínískri sjálfsvörn samhliða þjálfaranáminu. Slagtog er fyrsti hópurinn sem kennir femíníska sjálfsvörn á Íslandi. Hildur og Elí kynntust femínískri sjálfsvörn í Frakklandi.

„Hún hafði svo jákvæð áhrif á okkur að við höfðum samband við Irene Zeilinger, þjálfara með um 30 ára reynslu í femínískri sjálfsvörn, og báðum hana að hjálpa okkur að verða þjálfarar. Hún tók vel í það og við lukum tveggja ára þjálfaranámi hjá henni í maí,“ segir Elí.

Elí er með BA í heimspeki. „Ég tók líka nokkrar einingar í meistaranámi í mannfræði og í desember útskrifaðist ég úr rafvirkjun. En mikilvægasta menntun mín hér er diplómunám í femínískri sjálfsvörn,“ segir Elí.

Hildur er hjúkrunarnemi. „Ég hef sérstakan áhuga á geðheilsu og skaðaminnkun og hef unnið á þeim sviðum síðastliðin fimm ár í athvörfum fyrir konur og á íbúðakjörnum. Í vor lauk ég tveggja ára þjálfaranámi í femínískri sjálfsvörn,“ segir Hildur.

„Við erum fimm þjálfarar sem skiptumst á að kenna á námskeiðinu og höfum öll lokið tveggja ára námi í femínískri sjálfsvörn. Við eigum það öll sameiginlegt að hafa unnið mikið í félags- og umönnunarstörfum,“ segir Hildur.

En hvað er femínísk sjálfsvörn? „Femínísk sjálfsvörn snýst um að valdefla, auka öryggistilfinningu og styrkja sjálfsmynd, en rannsóknir sýna einnig að hún dregur úr neikvæðum áhrifum sem ofbeldi hefur á líf kvenna og trans fólks. Hún snýst ekki bara um að verja sig gegn líkamlegu ofbeldi, heldur einnig hversdagslegu og algengara ofbeldi sem getur leitt til þess að við upplifum valdaleysi og minna sjálfstraust. Dæmi um slíkt er að vera hundsuð, áreitt, ógnað, niðurlægð eða sýnt yfirlæti. Þetta er allt hluti af ofbeldismenningu og er algengt í heimilisofbeldi og kynbundnu ofbeldi,“ segir Elí.

Feminísk sjálfsvörn setur ábyrgð á ofbeldinu alltaf á gerendur ofbeldisins.

Ábyrgðin á gerandann

Á námskeiðunum er farið yfir fjölbreyttar aðferðir sem má beita til að verja sig, allt frá tilfinningalegri og sálrænni yfir í munnlega og líkamlega sjálfsvörn. „Eitt það mikilvægasta við femíníska sjálfsvörn er að hún setur ábyrgðina á ofbeldinu alltaf á gerendur ofbeldis. Hún snýst ekki um að hræða eða takmarka frelsi kvenna og trans fólks með því að setja boð og bönn um að fara í bíl með ókunnugum, labba ein heim að kvöldi til, slíta nánu sambandi, klæðast ákveðnum fatnaði og fleira. Þvert á móti er áhersla lögð á valdeflingu með því að bjóða upp á tæki og tól til að auka valmöguleika þátttakenda í aðstæðum sem þau óttast, sem oft leiðir til aukinnar öryggistilfinningar og sjálfstrausts,“ segir Hildur.

Ólíkir hópar

„Við bjóðum upp á námskeið í femínískri sjálfsvörn fyrir ólíka hópa með mismunandi áherslum,“ segir Elí. „Í þjálfaranáminu sérhæfðum við okkur meðal annars í sjálfsvörn fyrir börn og unglinga og nýlega sóttum við um styrk til að byrja námskeið fyrir þann hóp, vonandi í samstarfi við skóla og félagsmiðstöðvar,“ segir Hildur. „Við erum í alþjóðlegu samstarfi með pólsku félagasamtökunum Autonomia sem koma til landsins í júlí og halda námskeið í WenDo (önnur tegund FSV) fyrir pólskar stelpur 8-12 ára 9. júlí, og pólskar konur 10. júlí. Í haust förum við á Seyðisfjörð með námskeið fyrir hinsegin listafólk,“ segir Elí.

Fyrir konur og trans fólk

Öll námskeiðin eiga sameiginlegt að vera einungis opin konum og trans fólki. „Helst er tilgangurinn að skapa öruggara rými fyrir þessa hópa. Konur og trans fólk eru oftast þolendur annars konar ofbeldis í öðruvísi aðstæðum en sís karlmenn. Því þarf öðruvísi áherslur á námskeiðunum. Femínísk sjálfsvörn leggur áherslu á að auka sjálfsákvörðunarrétt og völd einstaklinga yfir eigin lífi, en ofbeldi er yfirleitt notað til að takmarka hvort tveggja,“ segir Hildur. Elí bætir við: „Konur og hinsegin fólk verða reglulega fyrir kynbundnu ofbeldi og mismunun vegna kynvitundar og -tjáningar. Og tölfræðin sýnir að sís karlmenn eru langoftast gerendur, óháð tegund ofbeldis. Sá hópur þarf líklega annars konar nálgun en sjálfsvarnarþjálfun.“

„Öll sem hafa lifað í þessu samfélagi sem konur, kvár eða trans menn hafa beitt sjálfsvörn á einn eða annan hátt, meðvitað og ómeðvitað. Vonandi taka þátttakendur með sér enn fleiri sjálfsvarnaraðferðir, dýpri skilning á kynbundnu ofbeldi og sögur af sigrum annarra til að nota sem innblástur í daglegu lífi,“ segir Elí.

„Það skiptir ekki máli á hvaða aldri þú ert þegar þú kynnist femínískri sjálfsvörn, hún hefur alltaf eitthvað fram að færa,“ eru þau sammála um.

Hægt er að skrá sig í námskeið með því að senda póst á slagtog@slagtog.org.
Nánari upplýsingar má nálgast á Facebook: Slagtog og Instagram: @fsd.slagtog .