Einstaklega hjartnæm auglýsing norska póstsins hefur vakið heimsathygli. Auglýsingin er nær því að vera stuttmynd um ástarsamband Jólasveinsins og manns að nafni Harry.

Auglýsingin er gerð í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá því að samkynhneigð var lögleidd í Noregi.

Hefur auglýsingin farið víða um samfélagsmiðilinn Twitter.

Í auglýsingunni sést hvernig Sveinki hittir Harry þegar hann kemur með pakka til hans á jólunum. Jólasveinninn er augljóslega hrifinn af honum en hverfur svo upp um skorsteininn. Síðan líða árin og þeir hittast alltaf á jólunum. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari en hér má sjá auglýsinguna með enskum texta fyrir þá sem eru ekki með norskuna á hreinu.

Hefur auglýsingin meira að segja fengið deilingu frá Randall Garrison, þingmanni í Kanada, sem þakkar norska póstinum fyrir auglýsinguna.

Margir netverjar hafa sagt að þeir hafi fellt tár yfir þessari fallegu sögu. „Þetta er gullfalleg auglýsing. Ég græt hreinlega yfir því hvað hún er dásamleg. Þvílíkt stórfengleg skilaboð til að deila á þessum mikilvægu tímamótum,“ segir í einni athugasemd á myndbandaveitunni YouTube.