Nolan Williams kemur frá Karíbahafinu þar sem krikket er mjög vinsæl íþrótt. Hann spilaði krikket þar sem barn og hélt því áfram eftir að hann flutti til London þegar hann var unglingur. „Ég flutti svo til Íslands árið 2011 eða 2012 og þá byrjaði ég að spila hér,“ segir Nolan. Það var í kringum aldamótin sem krikket kom til Íslands, ef undanskildar eru frásagnir í Íslendingasögunum um krikketleiki hér á landi á víkingaöld. Nolan segir að til að byrja með hafi það verið nokkrir menn sem komu saman og spiluðu krikket á Klambratúni. Síðan hafi verið svolítil lægð yfir íþróttinni en um það leyti sem Nolan flutti til Íslands voru nokkrir menn að vinna í því að endurvekja leikinn hér á landi og Nolan spurði hvort hann mætti ekki ganga til liðs við þá.

„Við bjuggum til stjórn og regluverk í kringum íþróttina og komum skipulagi á hana. Okkur langar til að verða hluti af Alþjóðlega krikketsambandinu og erum að vinna að því að uppfylla þau skilyrði sem þarf til þess. Við erum til dæmis komin með þrjú lið, í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. En við spiluðum fyrsta landsleikinn okkar gegn Sviss árið 2017. Okkur langar líka að vera hluti af Íþróttasambandi Íslands, það myndi hjálpa okkur við fjármögnun félagsins því eins og staðan er í dag þá erum við bara hópur af mönnum sem fjármögnum þetta allt sjálfir,“ segir Nolan.

Íslenska krikketlandsliðið er samsett af spilurum frá ýmsum löndum sem búa á Íslandi.

Undanfarið hafa Nolan og félagar unnið að því að kynna krikket fyrir grunnskólabörnum og segir Nolan að því hafi verið mjög vel tekið. „Fram að þessu erum við búin að kynna íþróttina í fjórum skólum og við tókum líka þátt í BeActive deginum í haust. Ég var meðal annars að kynna krikket fyrir 200 grunnskólabörnum í Hafnarfirði í síðustu viku.“

Nolan segir það hafa komið sér á óvart hversu margir krakkar virtust kannast við íþróttina. „Mörg höfðu annað hvort heyrt um hana eða séð hana einhvers staðar. Við kynnum leikinn á einfaldan hátt í skólunum en við erum líka með íþróttaskóla fyrir börn sem er haldinn að hluta til í íþróttahúsinu í Digranesi. Við erum að kenna krökkunum eitthvað nýtt af því það er mikið um handbolta, fótbolta, körfubolta og þessar vinsælu íþróttir, svo þetta er annar valmöguleiki fyrir þau.“

Nolan hefur kynnt krikket fyrir íslenskum börnum sem eru mjög áhugasöm um íþróttina.

Mjög alþjóðlegt lið

Enn sem komið er eru flestir leikmenn krikketliðanna á Íslandi af erlendum uppruna en Nolan vill endilega fá fleiri Íslendinga í liðin. „Það er mikið af útlendingum af ólíkum uppruna sem mynda liðið okkar. Margir koma frá löndum þar sem krikket er mikið spilaður og fyrir þá er gott að vita að hér á landi sé líka hægt að spila. Í liðinu er fólk frá Karíbahafinu eins og ég, frá Englandi, Ástralíu, Suður-Afríku, Indlandi, Pakistan, Srí Lanka og Íslandi svo þetta er mjög alþjóðlegt lið,“ útskýrir Nolan.

Eitt af því sem heillar Nolan við krikket er félagslegi þátturinn. „Þetta er mjög félagsleg íþrótt, hún er eitt af því sem þú annað hvort elskar eða hatar. Þú getur farið á krikketleik ekki bara til að njóta þess að horfa á íþróttina sjálfa heldur til að njóta félagsskapar vina og fjölskyldu. Njóta þess að borða nesti saman og hlæja og hafa gaman. Það er það sem leikurinn snýst um hjá mér.“

Nolan útskýrir að margar tegundir séu til af krikket. Hefðbundinn leikur sem er oftast spilaður í landsleikjum tekur fimm daga. „Leikurinn reynir á úthald og hæfni. Eitthvað nýtt getur gerst alla þessa fimm daga. Leikurinn er alltaf að breytast. Einn daginn hefur liðið þitt yfirhöndina og næsta dag hitt liðið. Það er ein ástæða þess að leikurinn er mjög félagslegur. Það er hægt að mæta og fylgjast með einn dag af þessum fimm eða bara hluta dags, ásamt vinum og fjölskyldu og njóta saman þess hluta leiksins sem er í gangi þá stundina.“

Krikket er fyrir alla. Líka furðuverur.

Að horfa á heilan fimm daga íþróttaleik er ansi mikið og jafnvel tveir tímar er langur tími í hugum sumra. Þess vegna hefur verið búin til styttri útgáfa af leiknum sem kallast 20/20. „Þessi útgáfa af krikket var búin til til þess að laða að yngri kynslóðir og fleiri áhorfendur. Þetta er mjög vinsæl útgáfa af leiknum, hún er mun arðbærari af því leikirnir eru styttri. Í þessari útgáfu er mikið um tónlist og búninga. Ef þú sérð fyrir þér bandarískan fótbolta með klappstýrum og öllu því sem fylgir, þá er þetta svipað, það er verið að reyna að skapa svipað andrúmsloft. Margir ungir og upprennandi krikketspilarar sækja í að spila þessa tegund af krikket.“

Nolan segir að það gangi vel að kynna íþróttina fyrir Íslendingum en margt hefur breyst frá því krikket á Íslandi var bara nokkrir menn að spila saman á Klambratúni. Krikketsambandið er nú komið með eigin útivöll í Hafnarfirði sem talinn er vera nyrsti krikketvöllur í heimi. Á veturna eru æfingar í Digranesi.