Aðdáendur bresku hljómsveitarinnar Skunk Anansie á Íslandi glöddust eflaust mikið í morgun við þau tíðindi að von væri á henni til landsins. Þetta er í þriðja sinn sem sveitin heldur tónleika á Íslandi, en báðir tónleikarnir fóru fram árið 1997.

Í viðtali við Morgunblaðið fyrir seinni tónleika sveitarinnar sagði Skin fyrri tónleikana á Íslandi hafa verið þá allra skemmtilegustu sem hún hefði nokkurn tímann spilað á, svo búast má við að meðlimir sveitarinnar séu engu minna spenntir en aðdáendur yfir Íslandsförinni.

Söng- og leikkonan Anna Margrét Káradóttir hefur verið aðdáandi sveitarinnar lengi, en Skunk Anansie á stóran hóp aðdáenda hérlendis.

„Ég skildi ekkert hvað var í gangi þegar ég leit á símann minn og þar biðu mín milljón skilaboð, allir að deila fréttunum af komu þeirra með mér. Mér finnst það mjög fallegt hvað margir hugsuðu til mín. Ég hef hlustað á Skunk Anansie frá því ég var unglingur og það má segja að unglingaveikin hafi orðið bærilegri með hjálp tónlistarinnar þeirra. Það er mikil útrás fólgin í því að hlusta á tónlistina þeirra og ákveðin sáluhjálp í ballöðunum. Tónlistin hreyfir svo við manni, það er svo mikil tilfinning í henni. Ég spilaði Stoosh aftur og aftur. Við vinkonurnar vorum allar með Skin á heilanum, hún var og er svakalegur töffari. Tískan, röddin, hún er allur pakkinn,“ segir Anna Margrét.

Eftirminnilegir tónleikar

Ein eftirminnilegasta uppákoma í tónlistarlífi á Íslandi var þegar til stóð að hljómsveitin spilaði nokkur lög á þaki DV-hússins í Þverholti. Brá Skin, söngkonu sveitarinnar, og félögum heldur betur í brún þegar þau tóku við gullplötu á svölum hússins því það var strekkingsvindur og ískalt. Brugðið var á það ráð að færa tónleikana inn í húsið þar sem aðdáendur fengu einstakt tækifæri til að hlusta á átrúnaðargoð sín á nánum og lágstemmdum tónleikum.

Tónleikar Skunk Anansie fara fram þann 24. október í Laugardalshöll. Miðasala hefst klukkan 10.00 næsta föstudag á tix.is. Mynd/Getty

„Ég fór á seinni tónleikana þeirra í september minnir mig. Ég komst ekki á fyrri tónleikana því pabbi minn var að halda upp á fimmtugsafmælið sitt og ég var nett brjáluð yfir því. Ég fór samt á seinni tónleikana með þeim í Höllinni 1997, árið sem ég fermdist, og var alveg dolfallinn aðdáandi eftir það. Hef ekki farið út að sjá þau en fylgist reglulega með þeim og hvar þau eru að spila hverju sinni. Það er búið að vera á dagskránni að fara út á tónleika, þar sem ég hélt að Íslandsdraumurinn væri úti,“ segir hún.

Sönkonan Skin er ekki bara þekkt fyrir kraftmikla rödd og frábæra sviðsframkomu, heldur hefur hún alltaf þótt bera af í töffaraskap og tískuviti.

„Hún hefur líka haft mikil áhrif á mig sem söngkonu og er mér mikil fyrirmynd. Röddin hennar er svo ótrúlega einstök og raddsviðið alveg svakalegt. Það er svo mikil áskorun að syngja lögin þeirra, ég elska það. Margir vinir mínir eru líka aðdáendur. Ég hélt einmitt óskalagatónleika fyrir ekki svo löngu og það kom mér á óvart hvað margir vinir mínir vildu lag með þeim. Ég finn mikinn áhuga hérlendis og sá það mjög skýrt þegar ég sendi þeim þessi litlu skilaboð þarna um árið,“ segir Anna Margrét.

Bjóst ekki við svari

Fyrir fjórum árum hafði Anna Margrét samband við sveitina og bað hana um að koma og halda tónleika á landinu. Það kom henni að óvart þegar henni barst svar frá Sjálfri Skin.

„Ég hafði samband við þau í einhverju gríni og stakk upp á að þar sem það væru að verða 20 ár síðan þau komu til Íslands, þá væri það góð hugmynd að halda afmælistónleika hérna. Mánuði síðar fékk ég svar frà sjálfri Skin sem tók mjög vel í þetta. Þetta vatt síðan upp á sig og það höfðu margir viðburðahaldarar samband við mig og sögðust tilbúnir að skoða þetta. Það langaði marga að reyna að fá þau aftur til landsins en það þótti of stórt og dýrt svo ekkert varð úr því. Það gleður mig því óneitanlega mikið að sjá að þau eru loksins að koma aftur til landsins. Góðir hlutir gerast greinilega hægt,“ segir Anna Margrét og hlær.