Ég myndi lýsa mínum stíl þannig að hann fari eftir hentugleikum, þegar ég sé eitthvað sem mig langar í þá kaupi ég það,“ segir Guðný. 

„Mér finnst mikilvægt að eiga dálítið af fötum sem eru vönduð og endast. Þá fara þau kannski einhvern tíma úr tísku en svo er hægt að fara í skápana og ná í eitthvað tuttugu ára gamalt sem er aftur komið í tísku. En ég kaupi líka ódýrara, boli og leggings sem mér finnst þægilegt að vera í dagsdaglega og fer svo kannski í fallega blússu eða mussu yfir.“ Hún segist ekki vera neitt sérstaklega meðvituð í litavali. 

„Mér er sagt að blár hljóti að vera uppáhaldsliturinn minn því fólk segir að ég sé alltaf í bláu. Gulur er líka í uppáhaldi, bleikur og grænn og fjólublár … það eina sem ég forðast er svart en það er kannski af því ég spilaði í svörtu með sinfóníunni í áratugi og kláraði kvótann. Það er reyndar í lagi að vera í svörtu með einhverju litríku.“

Talið berst að því hvort fiðluleikarar þurfi að hugsa fyrir hljóðfærinu þegar þeir velja sér fatnað. Guðný segir svo vera. 

„Ef ég sé eitthvað sem mig langar til að spila í þá þarf ég að hreyfa mig í því í búðinni á alla kanta. Ef ég spila á tónleikum þar sem ég þarf að sitja, eins og í kammertónlist, þá passa ég upp á að sé hægt að sitja þægilega í buxunum eða pilsinu. Ég er mjög mikið með hljóðfærið í höndunum, bæði þegar ég er að spila, æfa og kenna og þá finnst mér þægilegra að vera í fötum sem þrengja ekki að.“

Hún segir mikilvægt fyrir fiðluleikara að ermar séu víðar um handarkrikann og að hálsmálið skipti líka máli. „Ég gekk voða mikið í rúllukragapeysum þegar ég var yngri en er núna meira fyrir rúmt hálsmál og er nánast alltaf með slæðu.“

Guðný á margar slæður sem hún notar við ýmis tilefni. „Eina uppáhaldsslæðuna mína fékk ég frá kínverskri vinkonu minni og hún er úr kínversku silki. Þar eru allir uppáhaldslitirnir mínir samankomnir þannig að hún passar við allt. Aðra uppáhaldsslæðu keypti ég á listasafni í Suður-Frakklandi og hún er líka litrík með myndum eftir frægan listmálara.“

Síðustu fatakaup Guðnýjar voru skór og kjóll sem hafa nýst henni vel við spilamennsku. „Skórnir eru úr bleiku rúskinni og alveg geggjaðir. Þeir eru svo háir að ég get ekki spilað í þeim nema tónleikarnir séu stuttir,“ segir Guðný og hlær. 

„Ég var nýbúin að kaupa kjól í Geysi þar sem ég hélt að væru bara útivistarföt svo þessi kjóll kom mér ánægjulega á óvart. Svo fór ég í Steinar Waage beint á móti í Kringlunni og þar blöstu skórnir við. Ég spilaði í þessum fötum í síðustu viku og eftir tónleikana kemur til mín kornung stúlka og segir: Ég vildi að ég þekkti einhvern sem kynni að velja á mig svona geggjuð föt eins og þennan kjól. Mér fannst það ágætt, komin á þennan aldur.“

Aðspurð um uppáhaldshönnuði minnist Guðný á íslenska hönnunarteymið Systur og makar. 

„Ég hef keypt mikið hjá þeim, utanyfirflík, peysu og mussu sem hægt er að nota á tónleikum og líka þegar maður fer fínt, eins og á árshátíð. Einn af mínum uppáhaldskjólum er keyptur þar og hann virkar bókstaflega við öll tilefni. Ég get notað hann sem bol eða mussu hversdags, svo ef ég fer í hæla þá toga ég hann aðeins niður og þá er hann mjög sparilegur og svo lenti ég einu sinni um daginn í því að gista óvænt í sumarbústað hjá vinafólki og þá notaði ég hann sem náttkjól. Í Systrum og mökum keypti ég líka dressið sem ég spila alla tónleikana í.“

Tónleikarnir sem um ræðir eru hvorki meira né minna en Mozartmaraþon, tónleikaröð sem Guðný stendur fyrir í Hannesarholti í ár í tilefni af sjötugsafmæli sínu. „Já, ég á stórafmæli í ár svo ég ákvað að halda upp á það með því að leika öll verk sem Mozart samdi fyrir píanó og fiðlu,“ segir Guðný. 

„Ég þekkti mörg þeirra en þau eru ekki öll svo mikið spiluð því stundum er píanóið í forgrunni og fiðluleikarar velja frekar verkin þar sem fiðlan fær stórt hlutverk,“ segir hún. „Þetta eru þrjátíu og tvö verk þannig að þetta eru tíu hádegistónleikar sem spanna yfir allt árið 2018, fimm eru búnir og fimm eftir.“ 

Tónleikarnir hafa að jafnaði farið fram síðasta sunnudag í hverjum mánuði en í þetta sinn er það næstsíðasti sunnudagurinn þar sem Guðný var kölluð í vinnu til útlanda. „Með mér eru yfirleitt mismunandi píanóleikarar á hverjum tónleikum og langflestir hérlendir. Eftir tónleikana er svo hægt að fá sér bröns í Hannesarholti og þeir sem koma á tónleikana fá afslátt af brönsinum.“ Sónöturnar sem verða leiknar á sunnudaginn eru sónata í G-dúr KV 27, sónata í A-dúr KV 305 og sónata í Es-dúr KV 380. Meðleikari Guðnýjar að þessu sinni er Gerrit Schuil. Tónleikarnir hefjast klukkan 12.15 í Hannesarholti.

Miða má nálgast á tix.is en allar upplýsingar er að finna á Facebook undir Mozartmaraþon – tónleikaröð og á heimasíðunni gudnygudmunds.com