Abdul­razak Gurnah, hand­hafi bók­mennta­verð­launa Nóbels í ár, trúði ekki sínum eigin eyrum þegar hann var látinn vita af verð­laununum. Gurnah, sem er tansanískur að upp­runa en býr og starfar í Bret­landi, lýsti upp­lifuninni í sam­tali við BBC.

„Þegar ég heyrði af þessu var ég að laga mér te­bolla, rétt fyrir há­degi, og það hringdi ein­hver í mig. Þú veist, þessa dagana hringja oft alls­konar síma­sölu­menn í mann og ég hélt bara að þetta væri einn slíkur.“

Gurnah á­kvað þó að svara símanum og þegar hann tók upp tólið var honum til­kynnt að hann hefði hlotið Nóbels­verð­launin í bók­menntum.

„Ég sagði við hann ‚Hvaða vit­leysa. Láttu mig í friði.‘ En hann náði að tala mig út úr því og sann­færði mig smám saman,“ segir Gurnah.

Nóbels­verð­launa­hafinn ræddi einnig hlut­verk rit­höfundarins og sköpunar­ferlið en hann hefur gefið út tíu skáld­sögur sem hafa hlotið mikið lof gagn­rýn­enda.

„Þegar maður skrifar þá skrifar maður eftir sínum besta skilning og getu, rann­sakar vand­lega og vonast eftir því að veita á­nægju og þar fram eftir götunum. En alla­vega fyrir mig þá get ég ekki sagt að ég geri þetta vegna þess að ég vilji að eitt­hvað praktískt komi út úr því, eitt­hvað sem muni breyta ein­hverju, af því það er undir les­endum komið.“

Í rök­stuðningi sænsku Akademíunnar, sem veitir Nóbels­verð­launin, segir að Gurnah hljóti verð­­launin meðal annars fyrir að af­hjúpa af­­leiðingar ný­­lendu­­stefnu og for­­dóma í verkum sínum. Að­spurður um hvort að breytt sam­fé­lags­um­ræða um kyn­þátta­hyggju og ný­lendu­stefnu í Bret­landi undan­farin ár hefðu einnig breytt skrifum hans sagði Gurnah:

„Já, mér finnst eitt­hvað mikið hafa breyst, svo sannar­lega. Það sem ég ætlaði mér að segja var, að skömmu eftir að ný­lendurnar fengu sjálf­stæði þá virtist sem það væri ekkert eftir að segja. ‚Við gerðum það, við yfir­gáfum þau, þau fengu sitt eigið… hvað eina. Og það hefur bara gerst með tímanum undan­farna ára­tugi að raun­veru­leg þýðing þessa, af­leiðingarnar hafa komið í ljós.“