Það hvarflaði aldrei að mér að gerast fyrirsæta og ég var staðráðinn í að verða læknir sem drengur. Þá horfði ég alltaf á Bráðavaktina í sjónvarpinu með mömmu og fannst óskaplega spennandi að fylgjast með læknunum bjarga mannslífum. Það var nú eina ástæðan fyrir læknadraumnum en sá draumur dofnaði fljótt þegar ég gerði mér grein fyrir því hversu mikil vinna það yrði að verða læknir,“ segir Arnaldur þar sem hann slakar á eftir annasama tískuviku í Mílanó.

„Ég hafði aldrei unnið utan landsteinanna fyrr en langaði að prófa að freista gæfunnar sem fyrirsæta ytra. Ég flaug því utan til Mílanó þar sem þúsundir módela sækja prufur í von um að ganga tískupallana á tískuvikunni en það þykir góður vettvangur til að koma sér á framfæri. Í farteskinu voru engar væntingar; ég var raunsær, gerði mér ekki of miklar vonir og vissi að samkeppnin væri hörð en gekk svona ljómandi vel og er ekki á leiðinni heim á næstunni,“ segir Arnaldur kátur.

Flúði öfgatrúarbæ í Texas

Arnaldur er 21 árs, fæddur í Reykjavík. Hann flutti í Kópavoginn fimm ára og segist vera gallharður Kópavogsbúi.

„Ég spilaði fótbolta með Breiðabliki alla yngri flokkana en skipti þá yfir í meistaraflokk Leiknis í Breiðholti og síðan KÁ í fyrra, eftir að ég kom heim úr stuttri námsdvöl við háskóla í Texas þaðan sem ég forðaði mér úr miklum öfgatrúarbæ eftir aðeins sex vikur,“ segir Arnaldur og hlær.

Hann æfði líka skíði í átta ár.

„Foreldrar mínir voru skíðakennarar í Kerlingarfjöllum og ég var drifinn á skíði þegar ég var eins árs og ellefu mánaða. Við erum mikil skíðafjölskylda og má segja að það sé skemmtileg tilviljun að vera orðinn andlit 66°Norður því ég er vanur útivist og veit upp á hár hvernig á að klæðast í íslenskri veðráttu.“

Arnaldur tók sig vel út í vígalegri og litríkri dúnkápu ítalska tískurisans Armani á tískuvikunni í Mílanó fyrr í janúar. NORDIC PHOTOS/GETTY

Arnaldur var öll grunnskólaárin í Salaskóla en fór þaðan á viðskiptafræðibraut í Versló.

„Eftir stúdentspróf fannst mér eðlilegt framhald að skrá mig í viðskiptafræði en ég fann mig ekki í náminu í HR. Ég hef alltaf verið óákveðinn í því hvað ég vil verða og það stressaði mig að þurfa að svara því sem barn og unglingur. Ég veit núna að það liggur ekkert á. Þetta snýst um að finna hvað maður vill gera í lífinu og að lifa einn dag í einu,“ segir Arnaldur.

Með symmetrískt andlit

Arnaldur var uppgötvaður úti á götu af umboðsskrifstofunni Dóttir Management þegar hann var á unglingsárum.

„Það kom mér í opna skjöldu. Ég hafði aldrei fengið neina sérstaka athygli fyrir útlit mitt né þótti ég myndarlegri en hver annar. Þegar ég var fimmtán ára sagði félagi minn mig vera með symmetrískt (samhverft) andlit. Ég varð gáttaður og vissi ekki hvað það þýddi en fannst það bara geðveikt flott,“ segir Arnaldur og hlær. „Ég hristi svo hausinn þegar ég skoðaði fermingarmyndir af mér um daginn og hugsaði með mér: hvernig þetta gat gerst? Breytingin er svo mikil.“

Eftir samning við Dóttir Management fór boltinn að rúlla hjá Arnaldi sem sat fyrir í ýmsum minni verkefnum en eftir að hafa skrifað undir samning við Eskimo Models fóru stóru verkefnin að koma.

„Reyndar fékk ég engin verkefni fyrr en ég rakaði af mér hárið. Ég var á leið á æfingu, fannst hárið vera fyrir mér og ákvað að raka það af. Það var eins og við manninn mælt, ég fór strax að fá stærri verkefni og hef ekki látið hárið vaxa síðan, enda finnst mér líka langbest að vera með rakað hár.“

Arnaldur gerði sér engar sérstakar vonir þegar hann ákvað að freista gæfunnar í Mílanó en þar var hann valinn úr 800 manna hópi til að taka þátt í tískuvikunni í Mílanó.

Valinn úr 800 manna hópi

Á nýafstaðinni tískuviku í Mílanó gekk Arnaldur pallana fyrir ítalska tískuveldið Emporio Armani.

„Það var gjörsamlega sturlað og vitaskuld mikill heiður og ekkert grín. Armani vantaði fjörutíu módel fyrir sýninguna og hafði fyrirfram bókað um þrjátíu módel sem höfðu áður unnið fyrir þá. Ég datt því heldur betur í lukkupottinn að vera valinn einn af tíu úr 800 manna úrtaki,“ segir Arnaldur stoltur.

Hann segir reynsluna ógleymanlega og umgjörðina í tískuborginni Mílanó ólýsanlega.

„Ég verð að viðurkenna að það var erfitt að sofna kvöldið fyrir sýninguna. Ég fékk að vita klukkan ellefu kvöldið áður að ég ætti að mæta í höfuðstöðvar Armani klukkan sjö um morguninn og þangað var 50 mínútna ferðalag með strætó og lestum. Ég var auðvitað mjög spenntur og fékk míní hjartaáfall þegar ég sá sjálfan Giorgio Armani bíða okkar við enda raðarinnar og senda okkur út á pallana. Hann reyndi að tala við mig á ítölsku en því miður hvorki tala ég né skil ítölsku, sem var verra. Það var þó mjög gaman að hitta hann í eigin persónu og hann kom öllum að óvörum að vera þarna,“ segir Arnaldur.

Hann segir sjálfsöryggi vera mikilvægasta eiginleikann til að eiga séns í tískubransanum.

„Maður þarf að vera rosalega sjálfsöruggur og vita hvers virði maður er ef maður ætlar að komast áfram í þessum heimi. Það er algengur misskilningur að útlitið sé allt sem þarf því þetta snýst líka um karakter. Maður þarf líka að geta tekið höfnun og vera opinn fyrir nýjum upplifunum. Ég hafði til dæmis aldrei gengið í hælaskóm fyrr en Be Square henti mér í kúrekastígvél með fjögurra sentimetra hæl og ég reyndi eins og ég gat en fékk ekki verkefnið sem var allt í góðu.“

Fram undan eru fleiri verkefni fyrir Armani en Arnaldur er bundinn þagnareið. Hann starfar nú fyrir umboðsskrifstofuna Boom í Mílanó í gegnum Eskimo Models.

„Dæmigerður dagur hér úti er annasamur. Ég fæ senda dagskrá að kvöldi og sæki allt að átta prufur á dag. Ég er því farinn úr húsi klukkan átta að morgni, flakka á milli prufa allan daginn og oftast er ég ekki kominn heim fyrr en að kvöldi og fer þá beint í rúmið enda þýðir ekki að vera með svarta bauga af þreytu í þessum bransa,“ segir Arnaldur og kímir.

„Ég þarf voða lítið að passa upp á útlitið. Ég hef alltaf verið grannvaxinn og haldið mér í formi með íþróttaiðkun, fótbolta og skíðum. Eins og allir þarf ég að passa upp á húðina, að hreinsa hana tvisvar á dag og bera á hana rakakrem. Ég hef svo aldrei verið mikið í namminu en fæ mér sælgæti þegar ég vil og er heppinn með að hafa aldrei fengið mikið af bólum. Ég lauma mér stundum á kebab-stað hérna beint á móti og verðlauna mig aðeins eftir tólf tíma vinnudag en oftast er boðið upp á hollt og gott fæði í prufunum.“

Arnaldur fyrir herferð fyrir Moncler í Jökulsárlóni. MYND/COLE SPROUSE

Sjálfsöryggið mikilvægast

Segja má að Arnaldur sé að slá í gegn sem fyrirsæta ytra og margir sem vilja fá hann til liðs við sig.

„Ég verð áfram á Ítalíu og í Evrópu um sinn en draumurinn er að starfa í New York. Ég fór þangað í fyrsta sinn í fyrravor og varð heillaður af borginni,“ segir Arnaldur.

Hann segir tískuheiminn koma sér vel fyrir sjónir.

„Allir bransar eiga sínar góðu og slæmu hliðar en ég hef ekki upplifað neitt nema gott. Maður heyrir sögur og ég hef orðið vitni að því að fólk sé hreinlega að svelta sig fyrir prufur því oft eru gerðar óraunhæfar kröfur um líkamsform og holdafar. Ég er meðvitaður um þetta og það er hluti af því að hafa sín gildi og standa við þau, sama hvað. Það er eitt að segja það og annað að standa við það þegar maður stendur frammi fyrir tólf manns sem leita að fólki fyrir verkefni og því grípa sumir til örþrifaráða í von um vinnu. Ég tek ekki þátt í því og sem betur fer hefur orðið jákvæð breyting í þessum bransa sem er orðinn umburðarlyndari fyrir mismunandi líkamsformi,“ segir Arnaldur sem er sáttur í eigin skinni.

„Ég hef alltaf verið nokkuð sjálfsöruggur og ánægður með mig. Mér er sagt að skarpir andlitsdrættir séu einn af kostum mínum sem fyrirsæta, sem og íslenskt útlit, ljóst hár og blá augu. Það er svolítið víkingatengt og vinsælt þegar kemur að herferðum þar sem leitað er að hávöxnum, norrænum mönnum.“

Arnaldur er mikill skíðamaður og fór fyrst á skíði 1 árs og 11 mánaða. Hann veit því upp á hár hvernig á að klæðast í náttúrunni og er nú andlit 66°Norður. MYND/ARI MAGG

Arnaldur segir venjast fljótt að sjá myndir af sér á almannafæri.

„Mér finnst reyndar alltaf svolítið fyndið að sjá mig á strætóskýlum í Reykjavík og finn að fólk er farið að þekkja mig. Sumir tala við mig á meðan aðrir horfa en ég tek því ekki illa. Það er líka gaman að finna hvað 66°Norður er orðið þekkt víða um heim. Nokkrir hérna úti hafa minnst á að hafa séð mig á myndum 66°Norður, eins og Ítali sem sveif á mig úti á götu, sagðist hafa búið á Íslandi í eitt ár og séð mig þar á myndum. Ég ætlaði ekki að trúa þeirri tilviljun í þessari milljónaborg,“ segir Arnaldur og hlær.

Hann á sér tvær fyrirmyndir í heimi karlmódela.

„Upprunalega fyrirmyndin er Orri Helgason sem flaug eitt sinn út á tískuvikuna í Mílanó og gerði það gott á Íalíu og í Los Angeles. Hann er rosalega fínn og mér hefur þótt gott að geta ráðfært mig við hann. Hinn er þýska módelið Ludwig Wilsdorff sem er ákaflega jarðbundinn og endurspeglar minn hugsunarhátt; að halda í sín gildi, láta engan segja hvernig maður á að líta út, gera það sem maður vill og ef allt gengur upp er það fínt en líka ef það gengur ekki upp. Þetta er svo klárlega veganesti að heiman. Ég fékk þessa ræðu oft frá mömmu og pabba en hef ekki þurft að hafa áhyggjur af neinu hingað til. Það er búið að vera æðislega gaman, Eskimo sér vel um mig og skrifstofan úti er yndisleg.“

Fjölskylda Arnalds hefur líka fylgst með afrekum hans í Mílanó.

„Ég er rosalega heppinn með að fjölskyldan hefur alltaf stutt mig svo framarlega sem ég geri það sem gerir mig glaðan. Ég þurfti auðvitað að sannfæra þau um að hægt væri að lifa á þessu úti og nú er fjölskyldan „all in“ að horfa á tískusýningar í beinni á netinu og líka amma og afi, sem er mjög gaman. Ég sakna þeirra auðvitað mjög mikið, sem og alls sem íslensks er, mjólkurinnar og vatnsins,“ segir Arnaldur sem kynnst hefur góðu fólki í Mílanó.

„Í vikunni rakst ég á gamlan bekkjarbróður úr Versló. Hann býr hér og lærir arkitektúr og sýndi mér umsvifalaust borgina. Ég var líka staddur á kaffihúsi í einni prufunni þegar vinur minn sendi mér skilaboð og spurði hvort ég hefði rekist á Gumma. Hvaða Gumma? hváði ég. Jú, hann væri eina íslenska módelið sem væri á tískuvikunni með mér og átti þá við Guðmund Árna sem reyndist vera á sama kaffihúsi á sama tíma. Ég hnippti því í hann og nú er hann herbergisfélagi minn og virkilega fínn. Það er gott að geta talað íslensku inni á milli og um sama bransann,“ segir Arnaldur sem hefur ekki hugmynd um hvenær hann kemur heim.

„Ég er bara spenntur fyrir framhaldinu, hvert sem það verður. Mitt helsta markmið er að ferðast sem mest og hafa gaman af þessu.“