Sacha, faðir stjórnmálafræðingsins Sunnu Sasha Larosiliere, er nú í lungnaígræðslu í Bandaríkjunum þar sem hann býr eftir að hafa loksins fengið símtalið í gær.

Sunna greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Fréttablaðið greindi frá því í byrjun mánaðar að pabbi hennar væri mikið veikur og þyrfti ný lungu til að ná heilsu. Sunna setti af stað fjáröflun fyrir föður sinn sem er enn í gangi.

Sunna er sjálf stödd í Bandaríkjunum pabba sínum til stuðnings en vegna Covid-19 takmarkana má hún ekki bíða á spítalanum.

Pabbi Sunnu veiktist fyrir rúmlega fimm árum þegar hann var aðeins 47 ára. Hann var með lungnaháþrýsting sem er sjaldgæfur sjúkdómur að sögn Sunnu.

Sjúkdómurinn getur verið mjög slæmur og jafnvel banvænn en með lungnaígræðslu sé mögulegt að lifa með honum til fleiri ára.

Sacha býr í Bandaríkjunum þar sem Sunna ólst upp að hluta til. Hún segir að föðurfjölskylda hennar sé vel tryggð en að tryggingarnar taki ekki þátt í öllum kostnaðinum vegna aðgerðarinnar og lyfjanna sem hann þarf á að halda. Þess vegna hafi hún efnt til fjáröflunar.