Ég var auðvitað himinsæl með hjólhýsið og yfir mig spennt að fara í útilegu. Við brunuðum strax með hjólhýsið í hlaðið hjá sumarhúsi ömmu hans og afa og börnin hlökkuðu ekkert smá til að sofa í kojum,“ segir Freyja Leópoldsdóttir, sölu- og markaðsstjóri S4S, sem fékk hjólhýsi að gjöf frá sínum heittelskaða, Eiríki Lárussyni, þegar hún útskrifaðist úr MBA-námi í vor.

„Ég sjálf er ekki alin upp við útilegur en Eiríkur mjög mikið. Foreldrar hans voru duglegir að ferðast með börnin sín fjögur um landið og pabbi hans smíðaði meira að segja eigin húsbíl með kojum fyrir krakkana,“ upplýsir Freyja.

Þau Eiríkur hófu útilegubúskapinn í tjaldvagni, en færðu sig yfir í fellihýsi þegar fjölskyldan stækkaði.

„Mér finnst óskaplega notalegt að vera í tjaldi en þegar börnin voru orðin þrjú á aldrinum fimm ára og yngri var okkur farið að vaxa í augum allur sá tími sem tekur að pakka upp og niður. Við vorum því farin að gæla við það að fá okkur hjólhýsi, en það var samt alls ekki á dagskránni eftir dýrt nám og endurtekin fæðingarorlof,“ segir Freyja.

Freyja var að vonum himinlifandi að fá þetta glæsilega hjólhýsi í útskriftargjöf frá eiginmanninum. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Það var svo Eiríkur sem lét draumana rætast, þegar frændfólk hans fékk sér nýtt hjólhýsi.

„Þá hafði hann samband við frændfólkið og keypti gamla hjólhýsið í laumi. Hann hafði sum sé sagt hart nei við hjólhýsi áður, en birtist svo með þetta æðislega hjólhýsi heima og sagði það vera útskriftargjöfina mína, sem var svo sem meira sagt í gríni en alvöru,“ segir Freyja sæl.

Hún segir fyrstu nóttina í hjólhýsinu hafa verið allsendis ólíka því að sofa í tjaldvagni eða fellihýsi.

„Það var skrýtið að sofna í svona miklu myrkri, því myrkvunargardínur hjólhýsisins hleypa engu ljósi inn og maður finnur heldur ekkert fyrir veðri í hjólhýsinu. Öll umhverfishljóð og partí í næstu tjöldum fara framhjá manni og maðurinn minn upplifir sig minna í útilegu en áður, en lúxusinn er æðislegur og það fer rosa vel um mann,“ segir Freyja.

Freyja og Eiríkur eiga þrjú ung börn sem hoppuðu hæð sína af gleði að geta sofið í kojum. Hér lætur Ísmey, 6 ára, fara vel um sig. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Dásamleg samvera í útilegu

Hjólhýsi Freyju er það eina sinnar tegundar á landinu, afmælisútgáfa sem var flutt inn sem stakt sýningareintak.

„Það fer ekki framhjá neinum þegar við erum á ferðinni. Hjólhýsið er fagurlega skreytt blómamunstri og það er pínulítið, en þó með svefnplássi fyrir sex fullorðna því hjónarúmið kemur niður úr loftinu,“ segir Freyja sem orðin er mikil útilegukona.

„Já, ég elska að fara í útilegur og ekki síst núna þegar ég get fyrirhafnarlaust sett hjólhýsið á krókinn og lagt af stað. Við höfum undanfarin ár byggt okkur hús og það er gott að komast úr því amstri og geta bara keyrt í sveitina og slappað af. Áður snerist allt um hversu mikið maður tók með í tjaldvagninn, eða komst í litla sjö manna bílinn, en nú hálfskammast maður sín fyrir hvað maður tekur mikið með. Þetta eru því breyttir tímar. Þá voru glös og diskar í einum plastkassa og maturinn í öðrum og hver með sína tösku, en nú á hver sína hillu í hjólhýsinu, sem ekki er tæmd milli ferða.

Hjólhýsið er einstaklega vel hannað og þótt það sé lítið er hægt að koma fyrir sex fullorðnum í rúm því hjónarúmið kemur niður úr loftinu. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Þau Eiríkur hafa alltaf ferðast meira innanlands saman en utan.

„Uppáhaldstjaldsvæðið mitt er á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði. Það er við sveitabæ og í námunda við húsdýrin og börnin elska það. Svo labbar maður í gegnum undirgöng og yfir í fjöruna þar sem er trilla til að leika sér í og heitur pottur,“ segir Freyja sem stefnir á útilegu flestar helgar í sumar.

„Mér finnst nálægðin við náttúruna mest heillandi við útilegur. Okkur þykir gaman að fara í gönguferðir og skoða læki og fossa. Börnin bíða alltaf spennt eftir að komast í útilegu og þykir nú æðislegt að klifra upp í hjólhýsið og geta dregið gardínur fyrir kojurnar. Það er líka gaman að sýsla með mat í þessu fína eldhúsi, en við kaupum aldrei hefðbundinn grillmat, tilbúinn maríneraðan út úr búð, heldur útbúum okkar mat sjálf, bökum pönnupitsur og brauðstangir á grillinu sem er mjög vinsælt.“

Hjólhýsi Freyju er sannarlega blómlegt og fagurt enda heldur það utan um margar af lífsins bestu stundum. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Hvert farið er, fer oftast eftir veðri og vindum.

„Með hjólhýsi þarf maður að fylgjast grannt með veður- og vindaspám. Við ferðumst mikið með fjölskyldu mannsins míns. Þar eru allir á húsbílum og hjólhýsum. Bróðir minn keypti sér reyndar fellihýsi í fyrra, en ég held að maður þurfi að vera alinn upp við útilegur til að fara mikið í þær sjálfur. Þannig láta foreldrar mínir sér nægja að koma til okkar í dagsferð og fá sér kaffisopa, ef þau eru í nágrenninu.“

Freyja segir útilegur dýrmætar og uppbyggjandi fyrir fjölskyldulífið.

„Í útilegum fer maður í annan takt en þegar maður er heima í rútínunni. Krakkarnir njóta þess að vera frjálsir og eignast nýja vini og þau kynnast frændfólkinu vel. Útilegur skapa því góðar minningar og dásamlega samveru.“